Ég á samsetta fjölskyldu. Í því felst að ekki eru blóðtengsl milli allra fjölskyldumeðlima. Hér eru mín og þarna eru þín og úr verður eitthvað okkar. Ekki svo ýkja óalgengt fyrirkomulag á Íslandi, enda hrökkva fáir við og fyllast skelfingu þegar ég útskýri fjölskylduna mína. Við fögnum enda fjölbreytileika hérlendis, málum götur í öllum regnbogans litum og æpum allskonar er best, blá í framan af fordómaleysi og ást til alheimsins.
Þó er það svo, eins og flestir sem til þekkja hafa reynt, að það er hreint ekki einfalt mál að setja saman fjölskyldur. Það er verk og vinna þar sem allskyns uppákomur eiga sér stað daglega.
Þannig lá til að mynda við hamförum í upphafi sambúðar. Ástmaðurinn og afkvæmi hans komu úr allt öðrum menningarheimi, ólíkum okkar, þar sem nekt þótti norm fremur en undartekning er iðka skyldi bak við luktar baðherbergisdyr. Nýja litla systirin sem stökk allsnakin á úrilla unglingana á laugardagsmorgnum til að vekja þá með hnoði vakti í upphafi takmarkaða lukku. Boða þurfti til fjölskyldufundar þar sem sátt náðist um að rass í andlit væri ekki boðleg hegðun, a.m.k. ekki fyrir hádegi. Þarna mættust ólík gildi og venjur og þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum. Í aðlögunarferli af þessu tagi koma mýmörg augnablik þar sem álitlegast getur virst að vísa öllum til síns heima og skella í lás. Ferlið getur nefnilega ekki falist í því að þau lagi sig að okkur, okkar venjum og siðum eða við að þeirra - við blöndumst og fæðum af okkur eitthvað nýtt. Fæðingar eiga það til að vera óþægilegar.
Ef hins vegar vel er að verki staðið og allir leggja sig fram er hægt að búa til eitthvað ótrúlega fallegt og töff - fjölskyldu sem teygir sig langt út fyrir hefðbundið genarúnk og þægindaramma og dregur fram það besta í okkur. Eitthvað sem er án alls efa þess virði að svitna aðeins yfir.
Það er auðvelt að elska sitt eigið. Í því eru fá afrek fólgin. Allflestir elska eigin afkvæmi; snákar, górillur og Kim Jong-il. Ekkert barn brosti víst eins blítt og Kim Jong-un. Manndómur mælist í getu okkar til elska það sem að utan kemur.
Það er auðvelt að elska sitt eigið. Í því eru fá afrek fólgin. Allflestir elska eigin afkvæmi; snákar, górillur og Kim Jong-il. Ekkert barn brosti víst eins blítt og Kim Jong-un. Manndómur mælist í getu okkar til elska það sem að utan kemur.
Sú samstaða sem myndast hefur meðal íslensks almennings tengd málefnum flóttamanna undanfarna daga er það fallegasta sem gerst hefur síðan við litum upp og sáum norðurljósin. Að fylgjast með tíu þúsund manns draga hausinn upp úr sandinum á sama tíma er ótrúleg sjón. Tími var enda til kominn, við lifum á tímum þjóðflutninga. Flóttamannastraumurinn er eitt stærsta viðfangsefni okkar jarðarbúa í dag. Fólk flýr stríð sem ,,við” í vestrinu höfum átt stærstan þátt í að skapa með inngripum sem stjórnast hafa af græðgi í hráefni. Fólk flýr loftslagsbreytingar, flýr í allsleysi af uppþornuðum svæðum. Fólk flýr harðstjórnir. Fólk flýr fátækt. Hvernig við leysum það viðfangsefni mun ákvarða framtíð mannlegs samfélags. Enginn skyldi því gera lítið úr verkefninu sem við blasir eða undrast óttann sem það getur vakið. Hið ókunna skapar óöryggi og ótti er eðlileg tilfinning. En þegar ótti er virkjaður í hatursstóriðju verður úr eitthvað hættulegt og ljótt. Stjórnmálaöfl víða um Evrópu hita nú undir þeim tilfinningagraut ótta sem tilhugsunin um samsetta fjölskyldu hrærir upp í mörgum og nýta hann til að fóðra þjóðernishyggju, stjórntækið sem aldrei klikkar. Orðræða aðskilnaðar skýtur upp kollinum hér og þar, misvel dulbúin og stundum hreint og beint klámfengin eins og lesendur Morgunblaðsins hafa fylgst með undanfarið. Ef fram heldur sem horfir verður snepill sá brátt einungis fáanlegur yfir búðarborðið í fasískum blætisverslunum.
Ég hef engst um í ekkasogum yfir allri ástinni, fórnfýsinni og mannúðinni sem við eigum eftir allt saman til, auk þess sem ég hef þróað með mér vandræðalegt einhliða tilfinningasamband við nöfnu mína Björgvinsdóttur sem ég hyggst koma í forsetastól áður en yfir lýkur.
Liðin vika hefur verið ótrúleg. Ég hef fylgst í andakt með DIY flóttamannaverkefninu Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar, eins og flestir læsir menn. Ég hef engst um í ekkasogum yfir allri ástinni, fórnfýsinni og mannúðinni sem við eigum eftir allt saman til, auk þess sem ég hef þróað með mér vandræðalegt einhliða tilfinningasamband við nöfnu mína Björgvinsdóttur sem ég hyggst koma í forsetastól áður en yfir lýkur.
En engar áhyggjur, ég á þetta til. Síðast gerðist það í upphafi sambandsins við ástmanninn. Við áttuðum okkur vissulega á vinnunni sem fyrir lægi við að púsla saman fjölskyldum en vorum samt svo til í þetta. Við vorum klappstýrur hvors annars, engir erfiðleikar skyldu ná til okkar. Smám saman hægði þó tilfinningarússíbaninn á sér og allsnakinn spriklandi raunveruleikinn getur rifið í. Kemur fyrir að mér finnist að stjúpdóttirin ætti að vakna á hverjum morgni raulandi ljúfan lofsöng til mín, bljúg af ást og þakklæti yfir öllum mínum fórnum í hennar þágu? Vissulega. Litla dýrið vaknar oft með dólg og heimtar nammi í morgunmat. Væri þar um að ræða óraunhæfar og algjörlega fáránlegar væntingar til annarrar manneskju, til þess eins fallnar að skapa úlfúð og ósköp? Klárlega. Í samsettum fjölskyldum er nefnilega bara allskonar fólk, með kosti og galla, sem lifir sínu lífi allskonar. Flóttamenn munu ekki lenda á íslenskri grund og svífa allar götur síðan um á vængjum auðmjúks þakklætis með það eitt fyrir augum að auðga samfélagið og launa „okkur“ hina miklu auðsýndu miskunn. Það er tómahljóð í yfirlýstu umburðarlyndi samfélags sem ætlast til slíks og umhverfist svo af ergelsi út í „hina“, þessa sem eru ekki hinir upprunalegu „við“. Lærum af reynslu fjölmargra þjóða og forðumst þá gryfjuna.
Að vilja vernda sitt eigið er heilbrigð og eðlileg tilfinning. Við þurfum bara að endurskilgreina hvað þetta „okkar eigið“ er. Við erum öll saman í þessu. Drukknandi flóttamenn eru ekki „hinir“, ekki frekar en ég og ritstjóri Morgunblaðsins erum „við“. Þeir eru við. Við menn.