Ég legg metnað minn í það að míga úti, eins og móðurbróðir minn söng um árið. Mér finnst gaman að finna goluna leika við bununa og sjá gróðurinn taka við sér þar sem ég hef girt niðrum mig og gefið af mér gullinn vökva í kringum sumarbústað fjölskyldunnar. Að frussa úr nellikkunni úti í náttúrunni finnst mér það eina góða við útilegur.
Vanvirðing og viðbjóður
Hins vegar felst mikið virðingarleysi í þvagláti á almannafæri í borgarumhverfi. Þegar ég var í Menntaskólanum þótti nemendum dansskólans við Kringluna virkilega sniðugt að míga á hurð og inn um bréfalúgu aðalbyggingar Lærða skólans – til að sýna yfirburði einhvers konar og gera lítið úr okkur. Á galeiðunni virðist sem klósett fyrir karlpeninginn séu af skornum skammti, ekki komist allir að sem vilja og því bregði karlmenn á það ráð að merkja sér annara manna hús. Ég vil ekkert svona „Þú býrð í miðbænum - svona er þetta bara“-kjaftæði; að pissa á hús og húsveggi er dónalegt, og að ætlast til þess að samborgarar sinni garðstörfum í hlandlykt ókunnugs fólks er viðbjóður.
T.Á.T. – Tékkið á tillanum
Ég hef enn ekki séð konur gera þetta. Kannski eru þær lúmskari og vita um betri felustaði, líma á sig greinar eða eitthvað, svona eins og í Macbeth. Hver sem hefur beðið í klósettröð veit að röðin á kvennaklósettið er lengri, ættum við konur ekki að vera jafnsekar í þessum eignaspjöllum? Eiga karlmenn í meiri vandræðum með að halda í sér? Þá gæti verið um alvarlegt og landlægt heilsufarsvandamál að ræða. Að eiga efitt með að halda í sér þvagi gæti verið merki um blöðruhálskirtilsvandamál, já og risvandamál síðar á ævinni. Blöðruvandamál og -sýkingar eru ekkert grín og geta klifrað upp í nýrun. Hafið þið séð auglýsingarnar um töflurnar fyrir menn yfir fimmtugu sem eiga erfitt með að halda í sér á nóttunni? Kaupið svoleiðis og takið inn. Að halda í sér hóflega er góð grindarbotnsæfing, strákar. Cosmo á línuna - trönuberjadjús er góður fyrir blöðruna. Getið þið í alvöru ekki haldið í ykkur þar til þið komið í partíið, inn á skemmtistaðinn eða heim? Ég er nefnilega sjálf með þvagblöðru, og ég get það, auðveldlega. Þá er bara ein spurning eftir: ERUÐ ÞIÐ VILLIMENN?
Migið um miðjan dag
Hlandvandinn einskorðast ekki við djammið. Í sumar kom ég að fullorðnum manni (þá meina ég ekki unglingi) að míga utan í sirkusgám á Klambratúni. Hann var snyrtilegur fjölskyldufaðir á milli fertugs og fimmtugs (s.s. á SagaPro-aldrinum eins og ég kalla hann) með afar fallegan svartan og hvítan miðlungsstóran hund, með snöggan en hrokkinn feld. Almenningsklósett sem við höfðum splæst í voru í fimm metra fjarlægð frá manninum. Allt í kring voru runnar og rómantísk skógarrjóður þar sem hann hefði getað leyst málið í samstarfi við náttúruna. Þegar ég spurði hann hvort hann væri í alvöru að míga utan í gáminn okkar (sem var fagurskreyttur og greinilega eldhús) hló hann bara og sagði að þetta væri ekkert öðruvísi en ef hundurinn myndi pissa þarna.
Þegar ég benti honum á að klósettin væri rrrrrrrétt hjá svaraði hann eins og ég væri mesti kjáni Íslands: „HAHAHAHA!!! EN HVER Á ÞÁ AÐ PASSA HUNDINN?!?!?!“ Ég sagði að við miðasöludúllurnar hefðum alveg verið til í það. „HAHAHHAHA!!!! HUND SEM ÞIÐ ÞEKKIÐ EKKI NEITT?!?!?“ …eins og krúttaði hundurinn hans væri enn meira óargadýr en óhemjan í buxunum hans. Ég benti honum á að þetta væri fyrst og fremst ógeðslegt, snerist ekki eingöngu um hlandið heldur vanvirðingu og ég er mjög sátt að hafa komið því að. Ég viðurkenni að fæ Costanza-ískar martraðir enn í dag með fleiri tilsvörum, t.d.: „En hundurinn þinn kann að ekki að nota klósett“. Ég tala nú ekki um hvað ég hefði verið til í að ná mynd af manninum. Stundum brosi ég að þessu og sný hlutverkunum við - að hundurinn hafi farið út að viðra manninn og leyfa honum að pissa.
Og við sjáum mynd
Gott ef það var ekki sömu helgina að við besta vinkonan hittum fyrir tvo unga pilta sem voru, jú, að míga utan í húsið hennar. Þeim fannst fáháháháháránlegt að við værum eitthvað að sperra okkur yfir þessu athæfi þeirra. Nú var ég viðbúin og tók þessa fínu mynd. Hér eru þeir, tveir óuppaldir drengir sem migu utan í Leifsgötu tíu eina helgi í ágúst. Myndgæði eru í takt við manngæði.
Name and shame folks. Ég vil að þessir menn fái engar jólagjafir og að fólk hætti að bjóða þeim í afmælið sitt. Það er það eina sem dugar. Við búum ekki í Húsdýragarðinum. Göndlarnir í buxurnar þar til pissið kemst í þvagskál.