Ég er búinn að vera með svo mikla ógeðistilfinningu í öllum líkamanum að ég er staddur í miðri safaföstu til að reyna að særa eitthvað af þessu úr mér. Ég hugsa reyndar að þetta sé líkamleg birtingarmynd einhvers andlegs sársauka – svona eins og yfirgnæfandi löngunin sem ég fæ til þess að sturta mig þegar ég hugsa um Svein Andra og Vilhjálm H. hæ-fæva og segja hvor öðrum samfarasögur og tala um brjóstin á Jennifer Lawrence á meðan þeir plotta hvernig þeir geti helst kríað 10 milljónir út úr DV fyrir að benda réttilega á að fyrrnefndur hafi barnað 16 ára stelpu.
Þeir ættu samt að fylgja fordæmi Björns Leifssonar sem loksins tókst að sanna að besta leiðin til að þagga niður í mannorðsmorðingjum sé að kaupa þá ofan í gröfina þegar hann arkaði bónaðari og bísperrtari en steypuskaufinn sem hann lét reisa fyrir utan Laugar – með 15 ára gömul Oakley-sólgleraugu eins og samblanda af hormónabættum hjólreiðakappa og aukaleikara í Dolph Lundgren-sjónvarpsmynd – inn í hluthafahóp DV og tilkynnti að hann ætlaði að bæta blaðamennsku á Íslandi með því að kaupa hana. Markmiðið var samt aldrei að breyta ritstjórnarstefnu DV og sannaði stjórnin það með ráðningu á eldhuganum Hallgrími gamla Thorsteinssyni – sem var reyndar jafnlengi að koma út blaði og það tekur hann að síga ofan í heitt bað.
„Ekki raðljúga að kjósendum, ekki hylma yfir glæpi, ekki hata fólk út af kynþætti eða kynhneigð. Alls ekki barna börn.“
Snorri í Betel kvartar sáran yfir útskúfun og einelti fyrir það eitt að boða útskúfun og einelti gegn samkynhneigðum. Aðstoðarmaður forsætisráðherra vill meina að fjölmiðlar og áhrifamenn beri út rætnar lygar um drottnara sinn sem er sjálfur svo stressaður yfir því að Tryggvi Þór kunni ekki að reikna að hann fæst ekki til að mæta til vinnu heldur liggur bara heima og svitnar í rúmfötin eins og staðin pappírsvafin samloka.
Ef þessum mönnum er svona annt um æru sína og mannorð ættu þeir líklega að byrja á því að hætta að vera svona mikið drasl. Ekki hagnast á ógeðslega vafasaman hátt. Ekki raðljúga að kjósendum, ekki hylma yfir glæpi, ekki hata fólk út af kynþætti eða kynhneigð. Alls ekki barna börn. Það þarf engan Reyni Traustason til að myrða mannorð fólks þegar þetta mannorð er annaðhvort nú þegar búið að hefja lífslokameðferð eða á leiðinni rakleitt upp í Víðidal í svæfingu. Það er eins og þegar menn komist á ákveðinn aldur og blöðruhálskirtill stækkar í réttu hlutfalli við sígandi limris þá missi þeir vitið og forherðist í því að taka eingöngu ákvarðanir sem eru lægsti mögulegi samnefnarinn af samfélagslegri tilvist – þetta eru opinberu útgáfurnar af úthverfapöbbunum sem líta á það sem sjálfsögð mannréttindi sín að jeppa sig fram hjá vegatálmum til þess að geta sjálfir andað að sér brennisteinsdíoxíðinu við Holuhraun af því að engar helvítis almannavarnir geti sagt þeim hvar þeir megi og megi ekki vinna til sinna eigin Darwin-verðlauna.
Á endanum fá þessir pungar svo allt sem þeir vilja. Ódýrari Land Cruisera, snjallsjónvörp, Bang & Olufsen-heimabíókerfi, Bosch-höggborvélar og Weber-gasgrill. Þetta er svo fjármagnað á sjálfbæran hátt með því að losa peninga úr tilgangsausu kjaftæði eins og ferðamönnum, grænmeti, atvinnuleysingjum, loftslagssjóði, embætti sérstaks saksóknara og, jú, bókum – en íslenskir karlmenn hafa víst fyrir löngu misst hæfileikann að lesa sér til gagns.
Það góða er kannski að skíturinn er nú skjalfestur – hann flýtur svo nærri yfirborðinu að íbúar í Vogum geta ekki einu sinni drukkið grunnvatnið sitt lengur fyrir e.coli-mengun. Þetta skiptir samt ekki öllu máli því að loksins ætlar jörðin að liðast í sundur og gleypa okkur öll ofan í eldhafið – nema Kristján Má sem mun hanga á brúninni fyrir ofan Hel sjálfa með hljóðnema sem er ekki tengdur við neitt og segja okkur fréttir af okkar eigin Ragnarökum með sínum síðasta andardrætti á meðan sjálfslýsandi pólíestervestið brennur fast við hann.
Við Reyni vil ég að lokum segja: Þú ert kannski erfiður gaur en þú ert samt flottur kall. Léttir þig um tæp 50 kíló, komst næstum upp á Mont Blanc og sagðir hinum og þessum frethana að fara í rassgat. En þú verður samt að taka þennan hatt og brenna hann. Þú þarft hann ekki. Komdu með okkur í heim sköllóttra og glaðlyndra. Þú hefur ekkert að fela.
Og er Hanna Birna í alvörunni ekki ennþá búin að segja af sér?