Vitiði hvað ég held? Ég held að ef það væri ekki svona rugl leiðinlegt að skræla ávexti og grænmeti, skera þetta niður og berja í gegnum djúsvélina, þrífa hverja einustu skrúfu í vélinni án þess að slasa sig, ganga frá, allt á meðan krakkinn hangir í hárinu og allt á þessum hálftíma sturlunar á morgnana þegar 30 sekúndna töf setur daginn úr skorðum, væri montþörf lífstílsfólks hugsanlega minni en raunin er.
Þamba úrganginn
Já, það er víst ekkert hlaupið (nú eða skokkað, hóhóhó) að því að henda í eina græna þrumu með engifer og hörfræolíu. Hreinn lífstíll er vinna. Ofan á þetta reynir gumsið þeim mun meira á bragðlaukana. Því er nú verr og miður fyrir alla heiðarlega slúberta landsins. Því í stað þess að þamba úrganginn í skjóli nætur (svona eins og flest eðlilegt fólk gúffar í sig KFC í húsasundum, #shoutoutmeðganganr2) þá þarf aðeins að monta sig af afrekinu. Láta hina vita. Keyra þetta í gang.
Og þá er ekkert annað í boði en að þurrka blóðdropana af skurðarbrettinu, svitann af enninu, skella jukkinu í fallegt glas, kannski glittir óvart í fínt og lært tímarit í bakgrunni, fíra upp í vesælu sprittkerti, mynda í bak og fyrir og pósta á instagram eða facebook eða bæði með yfirskriftinni: „Líkaminn í fyrsta sæti, #detoxdesemberdásemd”. Og inn hrannast meðvirknislækin og kommentin þar sem fólk mærir djúsþambarann fyrir að vera „flottust” eða „meistari” sem viti sko aldeilis hvað það er að „njóta njóta, feeling alive!” og svo er uppskriftinni að eigin jukki komið rækilega að.
Blússandi stuði
Eins og þetta sé ekki nógu mikill árans hryllingur fyrir allt venjulegt fólk með eðlilega matarlyst og púkalega innanstokksmuni þá láta þessar týpur ekki við djúsvélina sitja. Myndavélin er á lofti í hverri einustu gönguferð sem djöflast er í, hverri einustu baðstofuferð og á sunnudagseftirmiðdögum er skellt í matarblogg ef svo mikið sem ein brauðsneið er ristuð, fyrirgefiði mér, hvernig læt ég, ég meinti: gúrkusneið smurð með möndlusmjöri, því þetta lið borðar auðvitað ekki brauð (sykurfroðu djöfulsins sem veldur útlimamissi og útbrotum sem læknast ekki nema með olíudropum úr jurt sem vex á botni Kyrrahafsins en hún verður að vera tínd í mánuði sem endar á –er og soðin á mánudögum til að hafa áhrif á eiturefnið sem hveitið er).
Á meðan holla fólkið er að velja réttan filter við spínatlitapalletuna er allt eðlilegt fólk í blússandi stuði í lúgunni á Aktu taktu að gera gott mót á meðan beðið er eftir samloku með skinku og osti, stækkuðum frönskum og gosi í plasti. Eða kannski er verið að panta fjölskyldutilboðið, fullan poka af hamingju fyrir þreytt heimili sem nennir ekki uppvaski? Nú, eða er loksins verið að gefa vefjunni séns? Þeir á Aktu taktu hljóta að geta þetta mexíkanska tvist fyrst rétturinn er búinn að tóra inni á tilboðslistanum í öll þessi ár. Maður þarf stundum að hugsa út fyrir þægindarammann og láta bara vaða. Og heimagerði kokteilsósustandurinn á mælaborðinu (teppalímbandshólkur) bíður spenntur eftir vini sínum kokteilsósunni. En hvað er gert á meðan beðið er? Ég skal segja ykkur það. Þá er kjaftað við lúgustarfsmanninn: „Er rólegt í dag?” eða „Hver er opnunartíminn á aðfangadag? Nú er lokað? Á ekkert að fara að endurskoða þá reglu?” eða „Hvert er vinsælasta tilboðið? En á sunnudögum?” Og kannski: „Hvort er skemmtilegra að vera á grillinu eða frammi í sal?” Og „Er ég uppáhaldskúnninn þinn?” Allt á meðan herlegheitin eru steikt og síðan djúpsteikt, útbúin af ást, elduð af kærleika og setið er í sjóðandi heitum bíl og maaaalað við starfsfólkið í gegnum lúguna.
Lifa í núinu
Þarna, krakkar mínir, fara fram merkilegir og mikilvægir hlutir vil ég meina. Hlutir sem heita samskipti, mannleg tengsl og það að lifa í núinu. Síminn er hvergi, samfélagsmiðlar eru víðs fjarri því hver man eftir svoleiðis löguðu þegar svona margt huggulegt og gott er í gangi?
Kannski væri þetta allt annað ef það væri sjúklega mikið mál og ofsalega leiðinlegt að fara á Aktu taktu? Ef maður þyrfti sjálfur að saxa kjötið niður í hakk? Ef staðurinn væri umkringdur krókódílasíkjum, draugum, sinkholes og væri að auki hátt uppi á fjallstindi? Hvað veit ég? Kannski væri maður þá engu skárri, póstandi myndum af hálfétnum borgara böðuðum í flúorljósi: „Svo innilega þess virði, #aukasósaoghúðinljómar”. Æi...Samt ekki. Og nú langar mig í eitthvað að borða.
Haters gonna eat.