Móðir mín hringdi sem endranær um daginn til þess að yfirheyra mig um hvort ég væri nú ekki kominn með kærustu. Í hvert skipti þarf ég að útskýra fyrir henni að ég sé ennþá piparsveinn sem býr með tveimur öðrum piparsveinum í lítilli piparsveinakjallaraíbúð. Það er sárt að valda foreldrum sínum vonbrigðum. Þessi spurning er samt algjör trójuhestur því að inni í henni býr önnur og myrkari spurning: Hvar eru helvítis barnabörnin? Á einhverjum tímapunkti hætta börnin nefnilega að vera börn í augum foreldra sinna og verða í staðinn vélar til þess gerðar að framleiða fleiri börn.
Tilhugsunin ein veldur mér kvíða. Ég veit ekkert um börn. Ég veit ekkert hvernig á að tala við börn. Ég höndla varla að passa barn lengur en í fimm mínútur því að það eina sem mér dettur í hug að gera er að stara á það þangað til það segir mér að ég líti út eins og vondi kallinn í Lassí eins og gerðist um daginn. Ég get ekki ímyndað mér hræðilegri hlut til að vera.
Fyrst og fremst finnst mér ég ekki vera tilbúinn. Mig skortir alla ábyrgðartilfinningu. Herbergið mitt er eins og illa skipulagður nytjamarkaður fullur af ósamsettum húsgögnum, ósamanbrotnum sokkum og óuppteknum kössum með smá dassi af heimilissorpi. Svo hef ég enga sjálfsstjórn þegar kemur að fjármálum; er að rúlla þremur mismunandi raðgreiðslusamningum, þar af tveimur fyrir hluti sem ég er búinn að selja til þess að kaupa aðra hluti. Ég sendi líka alltaf skattframtalið mitt án þess að lesa það.
Þetta var allavega minn veruleiki mestallan þrítugsaldurinn, eða þangað til ég vaknaði timbraður í mínum eigin mannlega sorphaug um daginn og fattaði að ég er að verða þrítugur. Réttara sagt verð ég þrítugur á morgun. Vúhú. Til hamingju ég.
Það er samt lygi að ég hafi bara óvart munað eftir þessum tímamótum. Í sannleika sagt er ég búinn að vera að panikka yfir því að verða þrítugur síðan ég var tvítugur. Ég hef nefnilega alltaf verið allt of aldursmeðvitaður um afrek annara; Cassius Clay var búinn að vinna titilinn, breyta sér í Muhammed Ali, forðast herþjónustu og tapa titlinum aftur áður en hann varð þrítugur. Steven Spielberg var búinn að leikstýra Duel og Jaws og skrifa Close Encounters áður en hann varð þrítugur. Meira að segja Biggie Smalls var búinn að vera dauður í sex ár áður en hann varð þrítugur.
Ég veit ekki af hverju þessi nauðaómerkilegu tímamót valda mér hugarangri en ef eitthvað er að marka greinina sem ég las á vefsíðu Glamour Magazine þá hrjáir þetta fleiri en bara mig. Ég held að þetta hafi eitthvað að gera með það að horfast í augu við það að vera að komast af líkamlegum hátindi. Vangarnir eru byrjaðir að grána aðeins, nokkrar broshrukkur, nokkrir nýir fæðingablettir sem ég ætti örugglega að láta kíkja á.
Svo virðist líkamshárabúskapurinn líka lúta sænskum sjálfbærnisskógræktarsjónarmiðum þar sem fyrir hvert hoggið hár á höfði er tveimur plantað á bak og herðar. Ég byrjaði að raka á mér höfuðið átján ára vegna fyrirlitningar á eigin hári sem hafði ágerst með hverri fáránlegu klippingunni á fætur annari í gegnum unglingsárin, sem náði hræðilegu hámarki þegar ég var sextán ára með gelaða hárbrodda, gleraugu og hökutopp í of stórum leðurjakka og hefði ekki getað betlað út sleik á skólaballi. Þrátt fyrir að hafa sjálfur tekið þá ákvörðun að stráfella eigið samfélag hárs syrgi ég í dag að ég geti nú ekki safnað því nema að hluta til baka; að ég fái aldrei að upplifa það að finna síðan ljónsmakka minn flaksast um í vindinum aftan á mótorhjóli eða standandi í stefni á skútu – allavega ekki án þess að sporta sömu greiðslu og Riff Raff í Rocky Horror. Svo sagði mér líka einhver að tennurnar á manni byrjuðu að losna upp úr þrítugu.
Ætli ég syrgi það ekki mest að hafa eytt mestöllum þessum ætluðu gullárum í það að vera of latur, feitur og óöruggur – en eftir því sem ég hugsa meira út í það finn ég meiri ró í því að líf mitt hefði vafalítið ekki getað verið neitt öðruvísi. Þetta var allt partur af mínu púpunarferli og nú er ég loksins að brjótast út og breiða út vængina eins og háruga, föla og sífellt verr tennta fiðrildið sem ég er.
Vitur maður, eða bílaauglýsing, sagði mér nefnilega eitt sinn að tíminn væri gagnslaus mælieining nema hann væri að mæla breytingu; tími sem er eytt í tómi er ekki tími sem vert er að minnast. Þannig að þennan morgun í ruslahrúgunni ákvað ég að hætta að telja niður mínútur og spyrna frekar í botninn. Ég henti öllu rusli, flokkaði alla sokkana mína, skrúfaði upp gardínurnar sem ég keypti fyrir hálfu ári og setti meira að segja upp náttljós svo að ég gæti loksins aftur byrjað að lesa mér til gagns eftir um það bil tólf ára hlé.
Ég er ekkert betri í því að vera til núna en ég var fyrir tíu dögum – ég er hins vegar hægt og bítandi að fatta að mér tekst að vera nokkuð mannlegur ef ég geri það einn dag í einu. Ef ég er ekki að bera mig saman við ókláruð afrek einhverrar kjörútgáfu af sjálfum mér sem aldrei verður til tekst mér að elska sjálfan mig nokkuð skilyrðislaust. Svo er ég líka byrjaður að hlusta svo mikið á Ram Dass í vinnunni; fann æðruleysið á YouTube.
Þannig að kannski er ég ekkert svo fjarri því að vera tilbúinn að eignast barn, svona einn góðan veðurdag. Verst að áralöng farsímanotkun, fartölvunotkun og að sofa við hliðina á allt of heitum ofni hefur að öllum líkindum gert mig ófrjóan.
Á einhverjum tímapunkti breyttist þessi pistill í heimsins verstu einkamálaauglýsingu. Loðni trúðurinn í piparsveinadýflissunni grætur þrjátíu ára gömlum ófrjóum tárum. Til hamingju með afmælið ég.