„Sæl, ég og fjölskylda mín erum tilbúin að bjóða fram afnot af bíl, herbergi fyrir einstakling, föt á drengi frá eins árs og upp í 14 ára, eitthvað af húsgögnum, sængur og félagslegan stuðning. Já og síðan getur mamma mín kennt íslensku.”
Svona hefði mitt innlegg á „Kæra Eygló Harðar, Sýrland kallar” síðuna nokkurn veginn hljómað ef ég hefði einhvern veginn þorað að pósta þar. Ég hætti nefnilega við fljótlega eftir að síðan fór í loftið. Hvers vegna? Jú, eins asnalega og það hljómar þá leyfði ég ákveðnu viðhorfi sem ég varð vör við í samfélaginu að ná til mín. Ásökunum héðan og þaðan og háðsglósum á netinu og á kaffistofum um að þetta væri ekkert nema sýndarmennska, tilfinningavæl, athyglissýki og hallærisgangur í fólki að vera að tjá sig svona. „Ein stór vinsældakeppni „Góða fólksins”” var fussað og sveiað. Og þessar raddir heyrðust, merkilegt nokk, á sama tíma og ljósmyndir og myndskeið af drukknuðum börnum í flæðarmálum og grátandi fjölskyldum í ólýsanlega erfiðum aðstæðum á göngu um Evrópu birtust í fjölmiðlum.
Það er ákveðið rannsóknarefni hvað fólk getur haft mikla þörf til að djöflast í þeim sem dirfast að sýna tilfinningar og láta, god forbid, stjórnast af þeim þegar þeir horfa á fréttamyndir.
Það er til mjög einfalt svar við spurningunni; Hvers vegna eru allir að pósta því hvað þeir ætla að gera fyrir flóttamennina ef ekki til að auglýsa góðmennsku sína? Það er vegna þess að við erum manneskjur í samfélagi manna og þegar fólk sér hvað öðrum dettur í hug að gera þá detta því hlutir í hug sem það getur gert; fólk veitir fólki innblástur. Það veitir fólki líka ákveðna trú á mannkynið að sjá hvað margir eru tilbúnir að gera mikið fyrir fólk í neyð.
Það veitir fólki líka von um það að það sé virkilega hægt að taka á móti tíu þúsund flóttamönnum þegar það sér ennþá fleiri Íslendinga en það bjóða fram raunverulega aðstoð efnislega og óáþreifanlega á örfáum dögum bara af því að góðri manneskju datt í hug að búa til vettvang fyrir fólk til þess að bjóða fram slíka aðstoð. Þessi afstaða þessa mikla fjölda Íslendinga veitir von um að þeir flóttamenn sem hingað koma muni upplifa sig velkomna hér og ná að aðlagast íslensku samfélagi fljótt og vel. Og að hægt sé, sameinuð sem þjóð, að taka á móti miklu fleiri en 100 flóttamönnum, eins og nú stendur til að gera.
Það er ákveðið rannsóknarefni hvað fólk getur haft mikla þörf til að djöflast í þeim sem dirfast að sýna tilfinningar og láta, god forbid, stjórnast af þeim þegar þeir horfa á fréttamyndir. Fréttamyndir flytja okkur jú, eðli málsins samkvæmt, fréttir, og fréttirnar af aðstæðum flóttafólksins eru hörmulegar. Þess vegna bregðumst við við.
Hér kemur hugmynd handa þeim sem hafa áhyggjur af „góða fólkinu” og hvað það sé endalaust að reyna að vekja athygli á því hvað það sé gott og helst betra en aðrir: Hvernig væri að þið mynduð aðeins tékka á „góða fólks" punktinum ykkar út frá sjónarhóli flóttamannsins?
Ég held að ekkjunni með fimm börn í lekum gúmmíbát undan ströndum Grikklands sé slétt sama þó Stína útgerðarkona á Íslandi pósti því stolt og reffileg á Facebook að hún sé tilbúin að borga flug og húsnæði fyrir fjölskyldur á flótta.
Ef þú og fjölskylda þín væruð í lífsháska í gúmmíbát undan ströndum Tyrklands, föst í viðbjóðslegum flóttamannabúðum í Ungverjalandi eða sofandi á lestarteinum undir berum himni í Króatíu, væri þér ekki slétt sama á hvaða forsendum fólk sem vildi og ætlaði að hjálpa þér væri að því? Nei í alvörunni talað krakkar. Ef einhver ætlar að toga þig og ungbarnið þitt upp úr hafinu og bjóða þér að setjast að í landi þar sem friður ríkir, þá ert þú ekkert sérstaklega mikið að pæla í því hvort viðkomandi er að gera það af því hann er í einhverri vinsældakeppni og vill sýna öllum hvað hann er góður, þú þarft bara að láta fokking bjarga þér og þínum.
Ég held að ekkjunni með fimm börn í lekum gúmmíbát undan ströndum Grikklands sé slétt sama þó Stína útgerðarkona á Íslandi pósti því stolt og reffileg á Facebook að hún sé tilbúin að borga flug og húsnæði fyrir fjölskyldur á flótta. Rétt upp hönd sem nennir að eyða orku í að hneykslast yfir því að Nonni nýríki hafi keypt listaverk sem á eftir að mála (og kemur kannski fyrir bragðið brosandi á forsíðu Séð og heyrt) á fimm milljónir til styrktar flóttamönnunum? So what? Svo á líka að draga aumingjans meðaljónana sundur og saman í háði sem bjóða fram herbergi, föt og húsgögn, leikföng, vinskap og andlegan stuðning? Ha? Upp úr hvaða ræsispytti sprettur þetta viðhorf?
Það á ekki að vera í boði að snúa þessari umræðu á hvolf og fara að pönkast í fólki sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum í að bjarga mannslífum.
Staðreyndin er á endanum sú að Sýrlendingar á flótta búa við neyðarástand og það þarf að hjálpa þeim. Og það strax. Það á ekki að vera í boði að snúa þessari umræðu á hvolf og fara að pönkast í fólki sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum í að bjarga mannslífum. Því þetta allt saman snýst nákvæmlega um þetta: Að bjarga mannslífum, körlum, konum og börnum. Og fólk er sannarlega til í að hjálpa. #teamgóðafólkið