Oft efast ég um tilfinningar mínar. Hugsa að kannski sé ég ekki að upplifa nógu sterkar tilfinningar eða að ég sé að missa af því að upplifa réttu tilfinningarnar á réttu stundunum. Ég hef farið í ferðalög og eytt þeim í áhyggjur af því að ég sé ekki að upplifa þau nógu mikið. Að mér finnist hlutirnir ekki eins magnaðir og þeir raunverulega eru. Sá Skakka Turninn í Písa og hugsaði "mehh, hann er vissulega frekar skakkur, en ég hélt hann væri stærri.” Ég hef farið í partý og hugsað "afhverju finnst mér ekki meira gaman!?” Ég eignaðist barn fyrir sjö vikum. Allir sögðu að það yrði magnaðasta upplifun lífs míns. Nú er svo ég með samviskubit. Er ég í nógu miklu tilfinningarússi? Ég tárast þegar dóttir mín brosir en er ég að tárast nógu mikið? Nógu oft? Þetta er sennilega algjör della. Maður bara er og finnur til. Allar upplifanir jafn réttháar. Allt eins og það á að vera. Ekkert öðruvísi.
Nú hef ég svo verið að fylgjast með ríkisstjórninni athafna sig síðustu tvö árin og það hefur vakið upp hjá mér allskonar tilfinningar. Allar slæmar. Ég er orðinn svo þreyttur á því að vera hissa, hneykslaður og reiður. Í hverri viku er það eitthvað nýtt.
Einhver gæti sagt að ég væri að upplifa hlutina skakkt. Að vegna þess að ég hef aðra lífsýn en þau sem stjórna landinu þá hljóti ég að verða óánægður með allt sem þar er sagt og gert. Að ég sé einfaldlega neikvæður af því þau eru ósammála mér. Gott og vel. Segjum sem svo að ríkisstjórnin sé að gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að rétta landið af. Þau séu að vinna fyrir okkur, í allri auðmýkt. Reyni eftir fremsta megni að jafna kjör og berjast fyrir hagsmunum okkar allra. Ef svo er þá er þeim að ganga mjög illa fá restina af Íslendingum til að skynja þennan raunveruleika. Við erum flest öll á einhverri allt annarri bylgjulengd. Eru tveir raunveruleikar í gangi í landinu? Er ég bara aleinn að velja mér að upplifa ríkisstjórnina spillta og vanhæfa?
Í nýlegri könnun MMR kemur fram að aðeins 9-10% aðspurðra telja Bjarna Ben og Sigmund Davíð vera heiðarlega. Einnig kom fram að einungis 8-11% upplifa að þeir standi vörð um hagsmuni almennings, 5-8% telja að þeir virði skoðanir annarra og 5% telja þá í tengslum við almenning. Fimm prósent!
Þetta er semsagt ekki bara ég. Við erum greinilega flest að upplifa sömu hlutina - að Sigmundur Davíð og Bjarni Ben virðast vera moldríkir og gjörspilltir hrokagikkir. Í engum tengslum við fólkið í landinu. Aðeins á Alþingi til þess að sópa almannaféi og eignum til sín og sinna.
Á sama tíma sýnir önnur nýleg könnun að ánægja með þessa ríkisstjórn er í sögulegu lágmarki en hún nýtur einungis um 30% stuðnings. Það sem er sérstaklega áhugavert, séu þessar tvær kannanir bornar saman, er að svo virðist sem ekki einu sinni kjósendur stjórnarflokkanna treysti formönnum þeirra eða telji þá vera í tengslum við almenning. Sumir Íslenskir kjósendur einfaldlega refsa aldrei fyrir vanhæfni og halda með stjórnmálaflokkum eins og íþróttaliðum. Það er hinsvegar efni í annan og bitrari pistil.
Skoðum þá aðeins þessa trausti rúnu formenn. Og byrjum á Bjarni greyinu Ben. Hann misskildi skoðanakönnunina með öllu andlitinu: "Er hægt að mæla heiðarleika fólks með skoðanakönnun?” spurði hann. Elsku Bjarni minn. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við treystum þér ekki. Þú skilur ekki neitt. Eins og barn sem ráfar ringlað inn í miðja bíómynd. Hann hélt einmitt áfram: "En það er kannski ekki nema von að ég átti mig ekki á þessu öllu saman, enda eru víst 95% sem telja að ég sé ekki í neinum tengslum við almenning.” Akkúrat!
Og Sigmundur Davíð. Hvað er að frétta? Mér finnst eins og meðvitað sé verið að fela hann fyrir okkur. Hann ferðast um heiminn handahófskennt, eins og pílu sé hent í landakort. Birtist í sitthvorum skónum eða sem lukkudýr á íshokkíleik og hverfur svo í rykský kvíða og klikkunar til þess læsa sig inni og troða ofaní sig kökusneið. Löngu fallinn á mætingu og mjög tæpur í samfélagsfræði og reikning.
Og Sigmundur Davíð. Hvað er að frétta? Mér finnst eins og meðvitað sé verið að fela hann fyrir okkur. Hann ferðast um heiminn handahófskennt, eins og pílu sé hent í landakort. Birtist í sitthvorum skónum eða sem lukkudýr á íshokkíleik og hverfur svo í rykský kvíða og klikkunar til þess læsa sig inni og troða ofaní sig kökusneið. Löngu fallinn á mætingu og mjög tæpur í samfélagsfræði og reikning. Mætir á flokksþing og heldur ræðu sem sæmir vænissjúkum geðklofa í mjög slæmum bata, fær rússneska kosningu í verðlaun og hverfur svo aftur inn í þokuna. Það er ekki langt síðan ég hætti að furða mig á hegðun hans og fór að vorkenna honum.
Í yfirstandandi kjarasamningum og verkfallahrinu lendir svo fullur þungi reynsluleysis og vanhæfni þeirra félaga á okkur öllum. Soldið eins og að verða fyrir mjög hægfara, spilltum og illa máli förnum bíl. Sennilega nýjum Range Rover. Líklega keyptum fyrir almannafé.
Það verður þó ekki tekið af Bjarna að hann er samkvæmur sjálfum sér. Það hefur ekki komið til eins einasta verkfalls án þess að hann hafi flækt viðræður með hrokafullum yfirlýsingum um að kröfur verkafólks séu fáránlega óraunhæfar eða of mikið út og suður. Að lokum finnst honum svo yfirleitt best að setja bara lög á þetta ósvífna verkalýðspakk sem gat ekki einusinni verið nógu sniðugt til að fæðast sem Engeyingar.
Í gegnum þennan farsa virðumst við svo öll vera að fá svipaða tilfinningu fyrir helstu leikendum. Þær skoðanakannanir sem hafa verið að birtast segja sömu söguna - við viljum losna við þá af sviðinu. Annað hvort erum við öll að misskilja gjörðir ríkisstjórnarinnar eða þá að hún er að hegða sér eins og þjófóttir trúðar. Hvort það er breytir hinsvegar engu.
Það hversu vel eða illa ríkisstjórnin er raunverulega að standa sig skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er upplifun þjóðarinnar sem hún starfar fyrir. Og þjóðin treystir ekki þeim sem standa í brúnni. Treystir þeim ekki til að vinna í þágu heildarinnar. Treystir þeim ekki til að vera heiðarlegir. Það eitt og sér ætti að vera nóg til að krefjast kosninga.
Mér finnst allavega nóg komið. Kannski er það bara ég. En mér sýnist samt ekki.