Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í morgun að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 5,75%. Ákvörðunin kom mörgum á óvart, sem spá í spilin á markaðnum. Flestar spár gerðu ráð fyrir því að vöxtum yrði haldið óbreyttum.
Versnandi horfur
Ástæða hækkunarinnar eru versnandi verðbólguhorfur, meðal annars vegna kjarasamninga sem seðlabankinn telur ekki vera neina innistæðu fyrir. Laun muni hækka of hratt miðað við framleiðni, og það muni á endanum auka verðbólgu úr hófi, og strax í byrjun næsta árs upp fyrir 2,5 prósent verðbólgumarkmið. Verðbólgan mælist nú 1,8 prósent, og það sem heldur í henni lífi er húsnæðisliðurinn, það er skörp hækkun húsnæðisverðs, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Ef sá liður vær ekki inn í verðbólgumælingum, væri verðbólgan nú 0,3 prósent.
Nú þegar verið er að leysa úr greiðslujafnaðarvandanum vegna slitabúa föllnu bankanna, í samhengi við framkvæmd áætlunar um losun fjármagnshafta, eru augljóslega að teiknast upp mikil óvissumerki. Að mati Seðlabanka Íslands hefur styrking krónunnar og lækkun á ýmsum hrávörum á alþjóðamörkuðum, haldið aftur af verðbólgunni að undanförnu. Vaxtamunarviðskipti erlendra fjárfesta, upp á um 40 milljarða, eru aftur farin að sjást, og hafa þau vafalítið átt þátt í styrkingu krónunnar gagnvart evru. Til þess að mæta þessari stöðu hefur Seðlabankinn viðrað hugmyndir um skatt á innflæði og vaxtarmunarsviðskipti, til að koma í veg fyrir ofris á efnhagnum og óstöðugleika. Um þetta hefur Már Guðmundsson seðlabankastjóri talað opinberlega, og greinilegt er að það er mat bankans að þetta stjórntæki þurfi að vera í vopnabúri ríkisins og seðlabankans til að berjast gegn óstöðugleikanum.
Sem sagt; um leið og unnið er hörðum höndum að því að losa um útflæði fjármagns er horft til þess að hefta innflæðið. Leitin að hinu fullkomnu jafnvægi er snúin.
Þá er seðlabankinn einnig farinn að þrýsta á um að Alþingi banni fyrirtækjum og sveitarfélögum að taka lán í erlendri mynt, eða í það minnsta heimili seðlabankanum að grípa inn í þá þróun ef tilefni þykir til.
Seðlabankinn er illa brenndur af glórulausum mistökum bankans fyrir hrunið, þegar lögspekingum bankans yfirsást ólöglegur lánaflokkur í bankakerfinu, sem nam mörg hundruð milljörðum króna. Það voru gengistryggð lán í krónum, sem Hæstiréttur hefur staðfest að hafi verið ólögleg lán. Ef helstu lögspekingar bankans hefðu áttað sig á þessu þá hefði bankinn getað gripið inn í, enda hefur hann það lögbundna hlutverk að stuðla að fjármálastöðugleika. En því miður áttuðu þeir sig ekki á þessu, og beittu sér ekki fyrir því að bankarnir hættu tafarlaust að lána gengistryggt í krónum.
Inn og út
Þá hafa komið fram rannsóknir að undanförnu, sem seðlabankastjóri hefur vitnað til, sem styrkja þá skoðun að hagstjórn í litlum opnum hagkerfum sé illmöguleg án virkari stjórntækja, þar á meðal virkri stýringu á fjármagni inn og út úr hagkerfinu. Þetta ætti að gefa fólki, auðvitað allra helst stjórnmálamönnum, vísbendingar um að fjármagnshaftabúskapurinn er ekki að fara neitt.
Mörgum stjórnmálamönnum hefur verið tíðrætt um að losun hafta sé handan hornsins og að þá komi betri tíð. Ísland er að mörgu leyti með öfundsverða stöðu miðað við margar aðrar þjóðir, ekki síst vegna sterkra innviða og auðlinda sem gefa vel af sér. Þar er íslensk náttúra fremst í flokki þessi misserin, í gegnum ferðaþjónustuna.
Ekkert bendir samt til þess að stjórnmálamenn sjái ástæðu til þess að breyta lögum um peningastefnuna eða yfirhöfuð að velta því fyrir sér, hvernig Ísland geti undirbyggt eðlilegan alþjóðlegan markaðsbúskap sem opni tækifæri fyrir komandi kynslóðir. Það eru mikil vonbrigði að hávaxtaumhverfi mikilla sveiflna sé lausnin sem stjórnmálamennirnir sem stýra ferðinni leggja fram fyrir fólkið. Unga fólkið mótmælir reyndar kröftuglega þegar tækifæri gefast, eins og sást á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á dögunum, en það virðist ekki vera nóg eða ná eyrum þeirra sem eru við stýrið.