Nýlega lauk þríhliða leiðtogafundi Suður Kóreu, Japan og Kína í Seúl. Leiðtogar ríkjanna þriggja lýstu því yfir að þíða væri komin í samskipti þeirra eftir þriggja ára frost. Ófáum fréttaskýrendum þótti að fyrsti kvenforseti Suður Kóreu, Park Geun-hye, ætti heiðurinn að bættum samskiptum á fundinum. Kjarnorkuáætlun Norður Kóreu var efst á lista í umræðum um öryggismál. Japanir eru óhagganlegir í því máli.
Afstaða þeirra þar á sér sérstaka forsögu.
Hvernig er að gleypa blásýrutöflu?
Líklega hafa fæstir ímyndað sér hvernig það er að gleypa blásýrutöflu og binda enda á lífið í einu vetfangi. Þann 1. desember árið 1987 gerði ung kóresk kona það eftir að hafa verið stöðvuð á flugvellinum í Bahrein. Hún hét Kim Hyon-hui og lifði sjálfsmorðstilraunina af. Í kjölfarið átti hún eftir að svipta hulunni af njósnasögu sem er lyginni líkust. Uppljóstrunin varð hluti af milliríkjadeilu milli Japans og Norður Kóreu sem enn er óleyst.
Til að skilja deiluna þurfum við að flakka nokkra áratugi aftur í tíma, undir lok Kalda stríðsins.
Rekja má söguna aftur til nóvember árið 1977. Þá var Megumi Yokata, japönsk 13 ára stúlka, á leið heim úr skóla í hafnarborginni Niigata. Hún gekk með vinkonu sinni hluta úr leið og í námunda við afgirtan leikvöll kvöddust þær. Það var í síðasta skipti sem Megumi sást það kvöldið. Móðir hennar Sakie og bræður hennar tveir leituðu fram á nótt. Hvarf hennar var tilkynnt og lögreglan leitaði hennar í margar vikur en án árangurs. Vikurnar urðu að árum og árin að áratugum.
Tuttugu árum síðar bankaði japanskur blaðamaður upp á hjá foreldrum Megumi. Hann tjáði þeim að dóttur þeirra hefði verið rænt af Norður kóreskum leyniþjónustumönnum. Þeir fóru með hana í bát og sigldu til Norður Kóreu. Sagan segir að Megumi hafi streist svo mjög á móti að hún hafi verið alblóðug þegar á áfangastað var komið. Hún klóraði í skipsskrokkinn alla leiðina.
Örlög í það minnsta sautján japanskra ríkisborgara á árunum 1977 til 1983 voru svipuð. Aðferðir Norður kóresku leyniþjónustunnar voru einfaldar og illskeittar. Dulbúið fiskiskip sigldi upp að ströndum Japan. Kafarar fóru í land og gripu fórnarlömbin, stundum af handahófi, og gúmbátur frá skipinu kom snöggt að til að sækja flokkinn. Gíslarnir voru yfirleitt sendir í njósnaskóla í Norður Kóreu til að kenna japönsku eða látnir giftast japönskum kommúnistum sem höfðu gengið Norður kóreskum stjórnvöldum á hönd. Vitneskjan um japönsku gíslanna var óstaðfest þar til Kim Hyon-hui var tekin höndum.
Dramatískar kringumstæður
Kringumstæður handtöku hinnar kóresku Kim voru ekki síður dramatískari en hvarf Megumi Yokata. Þann 29. nóvember árið 1987 var Boeing 707 vél Suður kóreska flugfélagsins Korean Air í löngu áætlundarflugi með viðkomu í Baghdad, Abu Dhabi, Bangkok og heim aftur til Seúl. Kim Hyon-hui var 25 ára gömul þegar hún gekk um borð í vélina í Baghdad ásamt samstarfsmanni sínum. Þau voru voru með fölsuð japönsk vegabréf og þóttust vera feðgin á ferðalagi. Sprengju sem falin var í Panasonic útvarpstæki kom hún fyrir yfir sætum 7C og 7B. Þau gengu síðan frá borði þegar vélin millilenti í Abu Dhabi. 104 farþegar og ellefu manna áhöfn voru um borð þegar vélin sprakk í loft upp skammt vestan af Tælandi.
Tilgangurinn með því að granda flugvélinni hefur aldrei verið ljós. Helsta kenningin er sú að með ódæðinu hafi Norður kóresk stjórnvöld viljað valda skelfingu í aðdraganda Ólympíuleikana í Seúl 1988 og letja erlend ríki til þátttöku.
Strax í kjölfar flugskaðans hófst æsilegur eltingaleikur. Norður kóresku njósnararnir ætluðu fyrst til Amman í Jórdaníu en vegabréfsáritanir voru ófullnægjandi. Þau flugu því til smáríkisins Bahrein þar sem þau biðu í tvo daga eftir næsta flugi. Japönsk stjórnvöld staðfestu að einu japönsku farþegarnir í fluginu örlagaríka voru með fölsuð japönsk vegabréf. Við innritun í flug á í Bahrein fundust vegabréfin og þau voru tekin höndum.
Þegar yfirheyrslur hófust vissu Kim og samsærismaður hennar að handtaka þeirra myndi bendla Norður kóresk stjórvöld við málið. Þau áttu sér enga undankomuleið og báðu um leyfi til að reykja sígarettu. Þau bitu í filterinn þar sem blásýruhylki voru falin. Hann dó en í Bahrein tókst að bjarga lífi hennar.
Fyrirmælin komu frá Kim Jong-il
Eftir það var Kim framseld til Suður Kóreu. Það tók átta daga til að vinda ofan af dulargervi hennar en hún hélt fast í það að vera japanskur ferðamaður. Eftir að hafa séð daglegt líf Suður Kóreubúa og þá auðlegð sem þeir bjuggu við byrjaði hún smátt og smátt að átta sig á því að áróðurinn um að þeir væru vansælar strengjabrúður Bandaríkjanna væri ekki á rökum reistur. Þegar hún leysti frá skjóðunni teygðu uppljóstranir hennar sig lengra en nokkurn óraði fyrir.
Samkvæmt Kim komu fyrirmælin um að sprengja flugvélina frá sjálfum forseta Norður Kóreu, Kim Jong-il. Í kjölfarið settu bandarísk stjórnvöld Norður Kóreu á lista yfir ríki sem styðja hryðjuverk.
En uppljóstrun hennar sem hefur ef til vill haft hvað mest langvarandi áhrif hafði með Japani sem hún kynntist í Norður Kóreu að gera. Þegar henni var sýnd ljósmynd af Yaeko Taguchi, einstræðri tveggja barna móður sem hvarf í Tókýó árið 1978, þá sagði hún óvænt: „kennarinn minn.“
Í ljós kom að Kim hafði lært japönsku af Yaeko á sex ára tímabili áður en hún grandaði flugvélinni. Yaeko hafði verið rænt af Norður kóreskum leyniþjónustumönnum árið eftir að hin þrettán ára gamla Megumi Yokata hvarf. Kim á að hafa borið vitni um það að enn hafi Yaeko sungið börnum sínum tveim í Japan vögguvísur þó svo hún væri órafjarri þeim eftir að henni var rænt og flutt til Norður Kóreu.
Af heimildum um málið er ljóst að orð Kim Hyon-hui eru líklega fyrsti óyggjandi vitnisburðurinn um líf Yaeko Taguchi og Megumi Yokata í Norður Kóreu og mannrán Norður kóreskra stjórnvalda í Japan.
Dæmd til dauða
Kim Hyon-hui var dæmd til dauða í Suður Kóreu fyrir aðild sína að flugskaðanum. En fyrrum forseti Suður Kóreu náðaði hana með þeim orðum að líkt og farþegarnir væri hún fórnarlamb áróðurs Norður kóreskra stjórnvalda. Hún giftist Suður kóreskum leyniþjónustumanni, eignaðist tvö börn og býr nú í felum þar í landi af ótta við hefndaraðgerðir Norður Kóreu. Í heimsókn til Japan hitti hún eftirlifandi ættingja Megumi Yokata og Yaeko Taguchi.
Árið 2002 kom fyrrum forseti Norður Kóreu, Kim Jong-il, öllum á óvart þegar hann staðfesti við þáverandi forsætisráðherra Japans, Junichiro Koizumi, að ríki sitt hefði í raun rænt 13 japönskum ríkisborgurum. Samkvæmt Norður kóreskum stjórnvöldum voru fimm enn á lífi og var þeim síðar leyft að snúa aftur til Japan. Átta voru látnir, þar á meðal Megumi og Yaeko. Örlög hinna átta fráföllnu og í það minnst fjögurra annarra eru þrætuepli sem er alltaf til umræðu á þríhliða leiðtogafundi Japan, Kína og Suður Kóreu.
Núverandi forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, hefur sett uppgjör mannrána Norður Kóreustjórnar á japönskum ríkisborgurum í forgang á meðal stefnumála sinna. Hann hefur skipað ráðherranefnd um málið og jafnvel gengið svo langt að gera uppgjörið að óhagganlegu skilyrði fyrir frekara samstarfi milli ríkjanna. Sú afstaða mun ekki að öllum líkindum ekki breytast nema fyrir þrýsting annarra ríkja sem eiga hlut að máli.
Kim Hyon-hui olli eitt sinn dauða 115 manns, mestmegnis Suður kóreskra flugfarþega, en varpaði einnig ljósi á mannrán fjölda japanskra ríkisborgara. Báðir atburðirnir voru að undirlagi Norður Kóreu. Hún hefur síðan þá tileinkað líf sitt því að bæta fyrir skaðann sem hún olli fjölskyldum þeirra sem misstu ástvini sínu af hennar völdum.