Íslendingar, íbúar þessarar hrjúfu og köldu eyju í miðju Atlantshafi, hafa löngum flúið til annarra landa í leit að betra lífi þegar illa árar. Á ofanverðri 19. öld fóru um 15 þúsund Íslendingar til Kanada, Bandaríkjanna og Brasilíu til að flýja fjárhagslegan og veðurfarslegan ömurleika á Íslandi.
Nær okkur í tíma fluttu 1.728 Íslendingar af landi brott árið 1970, í kjölfar þess að síldin á Íslandsmiðum hvarf vegna ofveiði. Það voru 1.380 umfram þá Íslendinga sem fluttu aftur heim til landsins það árið.
Árið 1995, í kjölfar kreppu og mikilla erfiðleika í atvinnulífinu á fyrstu árum tíunda áratugs síðustu aldar, fluttu 1.637 Íslendingar burt umfram þá sem fluttu aftur heim. Og á árunum 2009 til 2011, eftir fordæmalaust bankahrun sem orsakaði tug prósenta gengishrun, yfir 18 prósent verðbólgu, stóraukið atvinnuleysi, eignabruna, niðurskurð og ótrúlega reiði, fluttu samtals 5.480 fleiri íslenskir ríkisborgarar til annarra landa en komu til baka.
Allir þessir miklu brottflutningar áttu sér stað í kjölfar kreppu. Þ.e. mikils samdráttar í efnahagslífinu sem ýtti Íslendingum í að freista gæfunnar annars staðar.
Sjáiði ekki veisluna?
Í Morgunblaðinu í morgun var greint frá því að mikil aukning væri komin í landflótta Íslendinga aftur. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 hefðu 1.130 fleiri farið en komið. Frá því að Hagstofa Íslands fór að halda utan um slíkar íbúatölur árið 1961 hafa aldrei fleiri farið umfram þá sem komu í kjölfar hagvaxtarárs.
Og hér hefur sannarlega verið hagvöxtur. Hann hefur raunar verið í fimm ár í röð og er í methæðum. Á fyrri hluta þessa árs mældist hann 5,2 prósent og hafði ekki mælst hærri frá höfuðári íslenska bankagóðærisins 2007. Atvinnuleysi mælist 3,8 prósent og verðbólga hefur verið langt undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans í nálægt tvö ár. Hér er kaupmáttaraukning, nýsamið um tugprósenta launahækkanir yfir línuna, ótrúleg fjölgun túrista og makrílveiðar hafa styrkt efnahagsstoðir landsins og fjöldi byggingakrana er farin að nálgast þann fjölda sem var á bóluárunum fyrir hrun.
Til viðbótar hefur endurreisn íslensks efnahagslífs tekist með afbrigðum vel. Neyðarlög og fjármagnshöft hafa séð til þess. Eftir að uppgjör slitabúa föllnu bankanna klárast verður skuldastaða Íslands betri en hún hefur verið frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og stjórnvöld með fullar hendur fjár til að eyða í atkvæðakaup, standist þau ekki freistnivandann.
Af hverju er þetta fólk þá að fara? Sér það ekki veisluna? Skynjar það ekki ekki veruleikann?
Hvar á ungt menntað fólk að vinna?
Rannsóknir sýna að það sé einkum ungt og menntað fólk sem hleypir heimdraganum og leitar að betra lífi erlendis. Við erum með öðrum orðum að missa framtíðina úr landi. Ástæður þessa eru margþættar.
Í fyrsta lagi er skortur á viðeigandi störfum fyrir ungt háskólamenntað fólk á Íslandi. Flest störf sem orðið hafa til á undanförnum árum hafa orðið í þjónustugeirum, byggingaiðnaði og ferðamennsku. Þau krefjast mörg hver ekki sérfræðiþekkingar eða sérmenntunar. Auk þess er Ísland örmarkaður þar sem önnur lögmál ráða ríkjum við ráðningar en í fjölmennari löndum. Samantalið þá eru mjög sterkar vísbendingar uppi um að margir finni sér ekki atvinnu sem henti námi þeirra og bakgrunni. Til dæmis er rúmur fjórðungur þeirra sem nú eru á atvinnuleysisskrá með háskólapróf.
Það umhverfi sem atvinnulífinu er sniðið á Íslandi er heldur ekki sniðið að þekkingar- og hugvitsfyrirtækjum í alþjóðastarfsemi, heldur frumvinnslufyrirtækjum sem hafa tekjur og lán í erlendum myntum en borga laun og skatta í íslenskum krónum.
Hvað á ungt fólk að eiga?
Í öðru lagi er ungt fólk í erfiðleikum með eignamyndun. Það stendur frammi fyrir stórum hindrunum við að eignast þak yfir höfuðið vegna hækkandi fasteignaverðs og minnkandi möguleika á því að fá lán til þessa. Vextir eru miklu hærri en í viðmiðunarlöndum og mun lengri tíma tekur að mynda raunverulega eign en þar. Í raun á ungt fólk bara í erfiðleikum með að flytja heiman því að þúsundir íbúða eru fullar af ferðamönnum sem komast ekki fyrir á hótelum og keyra upp leiguverð. Ef það getur leigt þá getur það ekki lagt neitt fyrir vegna þess að leigan er svo dýr. Og svo koll af kolli.
Þess vegna býr fjórði hver Íslendingur á þrítugsaldri enn í foreldrahúsum.
Þorri þeirrar eignamyndunar sem er að eiga sér stað á uppgangsárum síðustu ára, frá því að hagvöxturinn tók við sér, hefur átt sér stað hjá fólki sem átti eignir fyrir. Frá árinu 2011 og út árið í fyrra jókst eigið fé þess 1 prósents Íslendinga sem átti þegar mest um 64 milljarða króna. Það átti 507 milljarða króna um síðustu áramót. Þessi hópur á 21 prósent af öllum eignum landsmanna.
Þessar tölur eru reyndar vanmetnar þar sem virði verðbréfa, t.d. hlutabréfa, er fært inn á nafnvirði. Markaðsvirði þeirra er margfalt hærra. Bara í ár hefur virði hlutabréfa í Kauphöll Íslands hækkað um meira en þriðjung.
Auður ríkasta prósentsins er því stórlega vanmetinn í opinberum tölum. Eignaskortur ungs fólks, sem á ekki von á arfi frá auðugum ættingja eða velgjörðarmanni, er það ekki.
Hvað á ungt fólk að kjósa?
Í þriðja lagi eru stjórnmál á Íslandi beinlínis á köflum fjandsamleg ungu fólki. Sitjandi ríkisstjórn ákvað til að mynda að færa 80 milljarða króna úr ríkissjóði til þeirra sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009. Langminnstur hluti hennar fór til fólks undir 35 ára aldri, sem var ekki búið að skuldsetja sig á þessum tíma. Samhliða þessari aðgerð ákvað ríkið að gefa þeim sem nota séreignarsparnaðinn sinn til að greiða niður húsnæðisskuldir skattaafslátt. Sá afsláttur er veittur af skatttekjum framtíðarkynslóða, en séreignarsparnaður skattlagður þegar hann er greiddur út.
Til að gæta jafnræðis var þeim sem áttu ekki húsnæði, að mestu ungt fólk, boðið að nota skattfrjálsan séreignarsparnað sem útborgun vegna húsnæðiskaupa. Alls hafa 482 aðilar nýtt sér það úrræði. Meðalupphæð á mann er nýtt hefur verið með þessum hætti er um 200 þúsund krónur. Það dugar skammt inn á innborgun á íbúð.
Þá sér ungt fólk margt hvert enga framtíð í krónuhagkerfinu þar sem gengið er fellt reglulega til að rétta við viðskiptajöfnuðinn fyrir útflutningsgreinarnar, með tilfallandi verðbólguhækkunum og kaupmáttarrýrnun sem velt er yfir á launafólkið í landinu.
Þessi sýn er orðin nokkuð þverpólitískt hjá ungu fólki. Það sást best á ályktun ungra Sjálfstæðismanna á nýafstöðnum landsfundi um að framtíðarlausn í gjaldmiðlamálum felist í öðrum gjaldmiðli en krónunni.
Hagtölur mæla ekki hamingju
Það er ekki hægt að mæla sátt, vellíðan og heilbrigði samfélags með hagtölunum einum saman. Þótt það sé hagvöxtur þá finnur stór hluti þjóðarinnar ekki fyrir bættum hag eða upplifir betri framtíðarhorfur. Ungt fólk er stór hluti þess stóra hluta.
Það vill öðruvísi samfélag og öðruvísi umgjörð en boðið er upp á. Það sést ágætlega á því að samanlagt fylgi þeirra flokka sem stjórna landinu mælist um 20 prósent hjá fólki undir þrítugu. Rúmlega 55 prósent fólks á þeim aldri ætlar að kjósa Pírata, sem eru með þá grunnstefnu að leyfa fólki sjálfu að ráða með beinum hætti hvernig samfélagi það býr í. Í því fellst ákveðin höfnun á því samfélagi sem þeir flokkar sem stýrt hafa Íslandi standa fyrir.
Og ef ungt fólk sér ekki fyrir sér aukin tækifæri á Íslandi þá kýs það einfaldlega með fótunum og fer.