Ég er hlynntur ríkisútvarpi og almennt styrkjum úr opinberum sjóðum við menningarstarf. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að rökstyðja þá skoðun að þessu sinni, en almennu sjónarmiðin eru þau að menningarstarf sé hluti af sjálfsmynd hverrar þjóðar og því sé nauðsynlegt að reka metnaðarfullt starf, af hálfu hins opinbera, sem hjálpar til við að tengja fortíð, nútíð og framtíð í lífi þjóðarinnar, í gegnum menningarstarfið. Þetta er alþekkt í hinum vestræna heimi. Ísland, í ljósi merkilegra og djúpra menningarsögulegra róta sinna, ætti að leggja sérstaka áherslu á þessi málefni. Vafalítið mætti gera enn betur en nú er gert, til dæmis með samstarfi milli ólíklega menningarstofnanna og heildrænni nálgun á hin ýmsu málefni, allt frá safnastarfi til kvikmyndaframleiðslu.
Varðstaðan um grunninn
En varðstaðan ætti þó að snúast um að verja þann grunn sem þegar er fyrir hendi, og reyna að efla menningarstarfið með langtímaáætlunum og sýn á metnaðarfull langtímaverkefni.
RÚV er í mínum huga einna mikilvægasta stofnunin þegar kemur að þessu hlutverki. Þess vegna kom það mér á óvart að sjá á dögunum þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins - sem alltaf hefur verið hlynntur starfi RÚV og raunar staðið vörð um það þegar litið er til langrar sögu þess – skuli hafa samþykkt að leggja RÚV niður eða selja það.
Þetta er hugsanlega túlkað sem léttvægt atriði, í ljósi þess að ýmislegt hefur áður verið samþykkt á landsfundi sem ekki hefur orðið að veruleika, en það má samt ekki taka því þannig. Landsfundir stjórnmálaflokka marka stefnuna, og eftir henni eiga stjórnamálamennirnir að fara, ef allt er eðlilegt. Þess vegna eru þetta ákveðin tímamót, og greinilegt að spjótin beinast nú að RÚV, einhverra hluta vegna.
Kúvendingar kunna ekki góðri lukku að stýra
Vonandi tekst stjórnmálamönnum að hefja sig upp úr pólitískum skotgröfum sem þeir hafa sjálfir búið til, og leysa vanda RÚV.
Kúvendingar á stofnunum sem búa að langri reynslu eru ekki líklegar til árangurs, þegar kemur að innra starfinu. Og reksturinn ætti einnig að miðast við það að skilgreina betur verkefni og þarfir. Auk þess er ekki hægt að segja annað, en að stjórnmálamenn skynji illa hversu viðkvæmt það er að koma fram með innistæðulausar ásakanir á hendur RÚV í ljós þess að það rekur umfangsmikla og metnaðarfulla fréttaþjónustu fyrir landið þar sem sjálfstæði í vinnu og efnistökum er grundvallaratriði. Kannanir hafa margstaðfest vilja almennings í landinu til að viðhalda þjónustunni, og helst efla hana. Þó þær eigi ekki að stjórna gjörðum stjórnmálamanna, þá gefa þær mikilvæga vísbendingu um að auðmjúklega megi nálgast þennan málaflokk.
Nýsköpunarfé og auglýsingar
Eins og mál standa nú, koma ríflega tveir milljarðar króna árlega frá íslensku atvinnulífi til RÚV, í gegnum auglýsingar. Þetta fé kemur að mestu úr þeim ranni fyrirtækja sem telst til markaðsmála og viðskiptaþróunar, geri ég ráð fyrir.
Algengt er að fé sem kemur úr þessum ranni sé stór hluti þess fjármagns, sem fer í nýsköpunarstarf í hagkerfum. Í ljósi þess að þessi atriði hafa ekki mikið verið rannsökuð hér á landi, einkum þessar háu fjárhæðir af heildinni sem fara til RÚV (Um tíu milljarðar fara í auglýsingar á ári á Íslandi), þá er erfitt að fullyrða um hvort æskilegt væri að fá þetta fjármagn meira út á einkamarkað til þess að efla nýsköpun og frumkvöðlastarf af ýmsu tagi. Auka margfeldni fjármagnsins, ef svo má að orði komast.
En það er ekki útilokað að ýmis nýsköpun á sviði fjölmiðlunar gæti gert meira fyrir þetta fé, heldur en RÚV gerir nú, ekki síst í ljósi íþyngjandi lífeyrisskuldbindinga sem tilheyra rekstrinum og mikilla skulda sem á honum hvíla.
Óþarfi að breyta hratt og örugglega
Auk þess fer það ekki endilega saman við menningarlegt hlutverk RÚV, að þurfa að haga seglum sínum við efnisframleiðslu eftir þörfum auglýsingamarkaðarins. Eins og mál standa nú eru 40 prósent tekna RÚV bundnar við auglýsingamarkaðinn. Það verður að teljast töluvert mikill hluti af heildinni.
Þrátt fyrir að ég skrifi þetta sem einn eigenda fjölmiðlafyrirtækis, sem reiðir sig að hluta á fé frá auglýsingamarkaði – og ætti því að tala skilyrðislaust fyrir því að RÚV fari hratt af auglýsingamarkaði – þá efast ég um að það yrði til góðs fyrir okkar fyrirtæki og önnur sem minni eru ef RÚV yrði tekið af auglýsingamarkaði hratt og örugglega. Það þyrfti frekar að gerast á lengri tíma, og þá undir vökulu auga samkeppnisyfirvalda, til að tryggja að einokunarstaða verði ekki til. Það yrði mun óæskilegri staða en sú sem nú er fyrir hendi. Algjör óþarfi er að ana að neinu hvað þessi mál varðar, þó lagalegur grundvöllur RÚV til þátttöku á auglýsingamarkaði, í ljósi opinbers framlags, þurfi vitaskuld að vera skýr.
Ekki einkamál stjórnmálamanna
Vonandi ber Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, gæfa til þess að standa vörð um RÚV og menningarlegt hlutverk þess. Á sama tíma ætti hann að vera ófeiminn við að marka stefnu til framtíðar, sem byggði ekki síst á samstarfi við þau sem koma að menningarstarfinu og fólkið í landinu. Það má ekki upplifa sig útundan í þeirri vinnu, vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft þá er RÚV vettvangur fyrir ólíkar raddir og ólík sjónarmið úr samfélaginu. Skipulag þess er ekki einkamál stjórnmálamanna á hverjum tíma, og alls ekki einstakra stjórnmálaflokka.