Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið forseti í næstum 20 ár. Að undanförnu hefur hann farið mikinn í viðtölum án þess að vilja segja af eða á um það hvort hann ætli sér að bjóða sig aftur fram. Augljóst má þó vera að Ólafur Ragnar er að marka sér stöðu. Það sést vel á viðtali við forsetann í DV í dag. Og aðferðafræðin er kunnugleg.
Í lauslegri þýðingu er hún svona: þjóðin stendur frammi fyrir risastórum áskorunum og viðbragð við þeim mun skilgreina hana um ókomna tíð. Í slíkum aðstæðum þarf hún einstakling á Bessastöðum sem „haggast ekki í róti umræðunnar, bloggsins og hitans sem fylgir átökum dagsins“. Þótt hann segi að hann sé ekki endilega eini maðurinn til að geta gegnt því hlutverki, og að það sé ekki hægt að „gera þá kröfu á mig að ég sé alltaf þessi kjölfesta“ þá skapi það honum vanda að hann sé „sífellt að hitta fólk sem hvetur mig áfram. Það er óneitanlega umhugsunarefni hvers vegna hugarástand hjá þjóðinni sé með þeim hætti að það sé ekki yfirgnæfandi skoðun þorra þjóðarinnar, ef ekki allrar, að það sé í fínu lagi að ég hætti.“
Snjalla pólitíska kameljónið
Auðvitað er þetta allt hluti af pólitískum leik. Ólafur Ragnar er einhver snjallasti stjórnmálarefur samtímans og veit upp á hár hvernig hann á að tromma upp eftirspurn eftir sér. Hann er pólitískt kameljón sem kann að velja einstök mál sem skilgreina þörf þjóðarinnar á honum. Á hinum fölsku góðærisárum var hann holdgervingur útrásarinnar, sem veitti íslenskum fjármálafyrirtækjum trúverðugleika á erlendum vettvangi með dramatískum ræðum um yfirburði íslensku þjóðarinnar og töframátt stuttra boðleiða í viðskiptum. Yfirburðirnir reyndust reyndar engir heldur varð framferði bankaútrásarmanna til þess að Ísland þurfti að beita neyðarrétti til að koma í veg fyrir gjaldþrot. Stuttu boðleiðirnar reyndust margar hverjar fela í sér lögbrot. En Ólafur Ragnar náði að samlaga sig stemmningunni eins og hún var, á meðan að hún stóð yfir.
Í stað þess að lúta höfði með skottið á milli lappanna eftir hlutverk sitt í offorsi góðærisáranna tókst Ólafi Ragnari að endurskapa sig sem þjóðhetju í Icesave-málinu. Það er líkast til eitt mesta pólitíska afrek sem unnið hefur verið á Íslandi.
Í kjölfarið tilkynnti Ólafur Ragnar að hann ætlaði að yfirgefa sviðið og hætta eftir kosningarnar árið 2012. Hann hætti svo við og vísaði í margvíslega óvissu í þjóðfélaginu sem ástæðu. Forsetinn gat ekki leyft sér að hverfa á brott vegna óvissu „um stjórnarskrána og stöðu forsetans í henni, varðandi umrót í flokkakerfi og í þjóðmálum og varðandi átök um fullveldi Íslands.“
Breytti stjórnskipan landsins
Með þessari yfirlýsingu breytti Ólafur Ragnar stjórnskipan landsins. Í henni fólst að lýðræðislega kjörnu Alþingi, sem samkvæmt lögum og stjórnarskrá fer með löggjafarvald, og lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn, sem samkvæmt lögum og stjórnarskrá fer með framkvæmdavald, væri ekki treystandi fyrir því að taka ákvarðanir. Augljóst er að sú óvissa sem Ólafur Ragnar vísaði í snérist annars vegar um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og hins vegar um nýja stjórnarskrá, sem átti m.a. að skilgreina hlutverk forseta með fastari hætti en nú er og takmarka setu hvers forseta við þrjú kjörtímabil. Ólafur Ragnar er á móti báðum málunum og gerði það mjög ljóst með yfirlýsingu sinni að hann ætlaði sér að beita sér í þeim ef með þyrfti.
Til þess kom ekki þar sem Evrópusambandsumsóknin eyddi sjálfri sér í innanbúðarátökum síðustu ríkisstjórnar og nýja stjórnarskráin lifði ekki af síðasta kjörtímabil.
Lítið fór fyrir Ólafi Ragnari hér heima fyrir á fyrri hluta þess kjörtímabils hans sem nú fer brátt að ljúka. Hann hefur eytt mestri orku sinni í að marka Íslandi stöðu sem leiðandi afli í Norðurslóðamálum, vegferð sem að mörgu leyti hefur gengið mjög vel og má hrósa honum fyrir. Þetta hlutverk Ólafs Ragnars, sem rekur sjálfstæða utanríkisstefnu sem oft skarast á við þá sem ríkisstjórn landsins hverju sinni rekur, er þó sjálftekið. Ekkert í stjórnarskrá landsins veitir honum slíkt umboð.
Fyrir um ári síðan hóf Ólafur Ragnar að mæta í viðtöl til að ræða í véfréttarstíl um hvort hann myndi bjóða sig fram til forseta á ný. Þau viðtöl sem hann hefur farið í og sagt hvorki af eða á um framboð eru líkast til á annan tug. Í haust hefur þó komið skýr mynd af því að Ólafur Ragnar ætlar sér að tilkynna um framhaldið í komandi áramótaávarpi sínu.
Og í vikunni sendi hann skýr skilaboð um það að upp sé komið mál í þjóðfélaginu sem geri það nauðsynlegt að hann verði áfram til staðar til að taka réttar ákvarðanir fyrir þjóðina.
Yfirlæti gagnvart umburðarlyndi og frelsi
Málið sem forsetinn getur ekki skilið eftir í höndum þjóðkjörinna fulltrúa og þjóðarinnar að þessu sinni er vandinn sem fylgir öfgafullri íslamstrú. Í viðtalinu við DV í dag segir hann að ræða þurfi þessa hluti „með opnum og heiðarlegum hætti án þess að fara strax að ásaka hvert annað um annarleg sjónarmið eða stimpla viðhorfin[...]ég tel að forseti eigi að gera þjóðinni grein fyrir alvöru máls ef hann er sjálfur sannfærður um að viðburðirnir og afleiðingarnar, sem þeir fela í sér, skipti þjóðina miklu. Um leið er nauðsynlegt að þjóðin vakni til vitundar um vandann og ræði hann á rólegan og yfirvegaðan hátt.“
Það má segja Ólafi Ragnari til hróss að nálgun hans á umræður um Schengen-samstarfið og öfgafullt íslam í viðtalinu við DV er mun hófstilltari og yfirvegaðri en þau ummæli sem hann lét falla um helgina. Þá sagði hann að full ástæða væri til þess að Íslendingar vöknuðu til vitundar um vandann sem fylgdi öfgafullri íslamstrú, sem væri mesti vandi sem heimurinn stæði frammi fyrir frá tímum nasista. Sá vandi yrði hvorki leystur með „barnalegri einfeldni“ né „einhverjum aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta“.
Forsetinn gagnrýnir svo þá sem gagnrýndu hann fyrir að tala óvarlega og fyrir að ala á hræðslu við hið óþekkta. Í þeim orðum Ólafs Ragnars felst yfirlæti gagnvart þeim sem telja að umburðarlyndi, skynsemi og frelsi séu hornsteinar samfélags manna. Það er nefnilega ekki einhver bláeygð og barnaleg afstaða gagnvart því að öfgafullt íslam sé raunveruleg ógn sem beri að taka mjög alvarlega. Það ber auðvitað að gera, líkt og alla aðra mannfyrirlitningu sem keyrð er áfram af afbakaðri réttlætingu sem viðkomandi finna í trú eða öðru.
Og það er fullkomlega eðlilegt að stjórnvöld beiti sér t.d. gagnvart því að hið skelfilega ríki Sádí Arabía sé að fjármagna trúarhreyfingar á Íslandi. Það væri óskandi að íslensk stjórnvöld, og önnur Vesturlönd, beittu sér jafn skarpt gegn fortakslausum mannréttindabrotum Sáda á alþjóðavettvangi í stað þess að setja fulltrúa þessa stórhættulega ríkis í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Ríkis sem hefur dæmt 151 manns til dauða það sem af er ári, meðal annars fyrir þá sök að taka þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum.
Miklir viðskiptahagsmunir koma þó í veg fyrir það. Það þykir fyrirmönnum ekki vera barnaleg afstaða gagnvart öfgafullu íslam.
En það sem ber að varast, og hræðast, er að yfirfæra þessa afstöðu yfir á alla múslima og að gera hræðsluna að ráðandi þætti í daglegu lífi okkar. Þá erum við þegar búin að tapa.
Ísland er með sterkt regluverk sem stendur vörð um mannréttindi. Þau mannréttindi eru ofar allri trú og öðrum lífsskoðunum. Við sem samfélag stöndum almennt gegn því að sturlað fólk noti afbakaðar afsakanir til að brjóta gegn öðrum. Við þurfum ekki að gera það sértækt gegn völdum hópum.
En nú verður umræðan tekin. Og hún verður líkast til tekin á þeim forsendum sem forsetinn, og raunar forsætisráðherra þjóðarinnar, hafa boðað. Þjóðin á að vera hrædd þrátt fyrir að Ísland sé öruggasta ríki heims. Við eigum að undirbúa okkur undir það versta. Annað væri barnalegt.
Það þarf að bjarga Íslendingum frá þeim sjálfum
Niðurstaðan er sú að þjóðin getur ekki verið án Ólafs Ragnars, að hans mati. Hún getur ekki treyst á þá kjörnu fulltrúa sem kosnir eru í lýðræðislegum kosningum til að taka réttar ákvarðanir í lykilmálum og hún þarf á forsetanum að halda til að umræða um þessi lykilmál sé tekin á réttum forsendum.
Að mati Ólafs Ragnars þarf Ólaf Ragnar til að bjarga Íslendingum frá þeim sjálfum. Annars verða þeir eigin umburðarlyndi og barnalegheitum að bráð.