Á meðan þjóðarleiðtogar heimsins sitja (vonandi sveittir) í París og ræða saman um aðgerðir til handa jörðinni okkar, skellur á okkur hér á Fróni snjóstormur, kuldi og hríð og hlýnun jarðar hljómar eins og hver önnur útópía. Við vitum samt öll að hart þarf að stíga á bremsur, finna nýjar leiðir og sætta fjölmörg sjónarmið svo hægt sé að hverfa frá þeirri þróun sem blasir við okkur. Hlýnun jarðar, frekari veðurhamfarir, hækkun yfirborðs sjávar og bráðnun jökla svo fátt eitt sé nefnt. En hvað getum við gert hér á landi til draga úr þessum neikvæðu áhrifum á landið og jörðina? Það er nefnilega ekkert plan B, enginn önnur jörð.
Að mínu mati er róttækasta leiðin sú að skoða ferðavenjur okkar, landnýtingu og hvernig við getum almennt stuðlað að betra jafnvægi.
Svæðisskipulag höfðuborgarsvæðisins
Nýlega var samþykkt á höfuðborgarsvæðinu nýtt svæðisskipulag sem er ætlað að taka U-beygju í þessum þáttum. Svæðisskipulagið er sáttmáli þeirra sveitafélaga sem deila með sér þéttbýlasta svæði Íslands og geymir skýr markmið um ferðavenjur og landnýtingu. Það er t.d. sláandi samanburður að hugsa til þess að árið 1985 voru 54 íbúar um hvern hektara á höfðuborgarsvæðinu en árið 2012 voru þeir orðnir 35. Og þetta kostar - aukið vegakerfi, vaxandi fjarlægð á milli staða, meiri tími í ferðir og svo mætti lengi telja. Umhverfisfórnin er einnig sláandi en meiri dreifð þýðir meiri mengun og flest þekkjum við nauðsyn þess að eiga einn, helst tvo bíla svo að dagurinn gangi upp.
Um nauðsyn þess að þétta byggð
Í aðalskipulagi fyrir Hafnarfjörð er að finna nokkuð ósamræmi í stefnu skipulagsins. Fjallað er um að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar – að við hönnun og skipulag umferðarkerfis þurfi sérstaklega að huga að fjölbreyttari samgöngukostum sem stuðla að minni loftmengun í bænum (og geta sparað hverju heimili fullt af pening). Jafnframt að almenningssamgöngur verði efldar með forgangi vagna og að með skipulagi og uppbyggingu vandaðs göngu- og hjólreiðastígakerfis skuli unnið að því að draga úr bílaumferð.
Þetta eru sannarlega góð og gild markmið og lítið hægt annað en að vera sammála. Mótsögnin felst hinsvegar í því að á meðan við hönnum og skipuleggjum byggð áfram í suður og suðaustur, en eflum og styrkjum verslun og þjónustu í norðurhluta bæjarins, þá aukast fjarlægðir og umferð innan bæjarins. Umferðarteppur eins og við þekkjum þær vel við Reykjanesbraut og víðar eru í raun heimatilbúinn vandi. Strætóleiðir okkar hér innan bæjar eru heldur ekki nógu vel hannaðar, fara í hringi með óreglulegum tíma og illa hægt að muna hvenær strætó kemur eða fer.
Til samanburðar má nefna að í nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík er tekin ákvörðun um að 90% af uppbyggingu fari fram innan borgarmarkanna, nýtt landnám fyrir ný hverfi heyrir nánast sögunni til. Þetta er gert svo hægt sé að nýta betur skólahverfi og umferðamannvirki og búa til raunhæfar lausnir í almenningssamgögnum.
Borgarlínan og leið 1 – Strætó
Í dag er leið 1 úr Hafnarfirði og í Reykjavík vel nýtt leið, en til að gera hana enn betri og raunhæfan kost fyrir fleiri sem sækja vinnu, skóla eða frístundir í næstu sveitarfélög þá þurfum við að fá fleiri ferðir og meiri forgang fyrir strætó. Best væri að leið 1 gengi á 10 mínútna fresti, að við upplifðum vagninn fara hratt framhjá bílaröðum á annatíma – þannig að eiginlegur sparnaður í tíma og peningum væri augljós. Um leið værum við að draga úr mengun og stuðla að betra jafnvægi í umhverfi okkar – til framtíðar.
Hvað skipulag byggðar varðar, þá þurfum við að tengja betur saman íbúabyggð og þjónustu og snúa af þeirri braut að auka umferð í bænum Leiðin til þess er að þétta bæinn inn á við, nýta betur innviði og draga úr þörf fyrir bílaumferð innanbæjar. Almenningssamgöngur þarf jafnframt að efla, ekki síst hvað varðar frístundastarf barnanna í bænum.
Þetta er ekki fjarlægður draumur – þessi framtíðarmynd getur með samstilltu átaki og skýrri sýn í skipulagi okkar Hafnfirðinga orðið að veruleika fyrr en síðar.
Höfundur er varabæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði.