John Reed var forstjóri Citigroup, eins stærsta banka í heimi, frá 1984 og fram til ársins 2000. Hann var í forgrunni þeirra sem ýttu sem fastast á bandaríska þingið og þáverandi forseta Bandaríkjanna, Bill Clinton, um að fella úr gildi hin svokölluðu Glass-Steagall lög, sem komu í veg fyrir að hægt væri að sameina viðskiptabanka við önnur fjármálafyrirtæki, eins og fjárfestingabanka eða tryggingafélög. Clinton ákvað að fella lögin úr gildi í nóvember 1999. Sú ákvörðun er talin vera einn ríkasti þátturinn í því hyldýpi sem fjármálamarkaðir sköpuðu næstu ár, og gerði það að verkum að seðlabankar heimsins þurftu að bjarga fjármálakerfinu haustið 2008, vegna þess að sameinuðu bankarnir voru orðnir of stórir til að falla. Afleiðingarnar yrðu of afdrifaríkar.
Reed skrifaði grein í Financial Times sem birtist 11. nóvember síðastliðinn sem vakið hefur mikla athygli á alþjóðavísu. Þar sagði hann að tvenn mjög alvarleg mistök hefðu verið gerð í fjármálakerfinu um síðustu aldamót. Í fyrsta lagi væri sú hugmynd að sameining margskonar fjármálaþjónustu í eitt fyrirtæki myndi keyra niður kostnað og auka skilvirkni röng. Reed sagði að nú liggi fyrir að mjög lítil, ef einhver, hagræðing væri fólgin í slíkum samruna. Í öðru lagi hafi menn haft rangt fyrir sér varðandi afleiðingar þess að blanda ósamrýmanlegum menningum innan fjármálageirans saman. Það hafi búið til sjálfstætt vandamál og veikt allt kerfið.
Bernie-áhrifin
Reed er ekki eini fyrrum forstjóri Citigroup sem hefur lagt til að girt verði fyrir sameiningar mismunandi fjármálafyrirtækja innan fjármálakerfisins. Það gerði Sandy Weill líka árið 2012. Weill og Reed eru líkast til þeir tveir einstaklingar sem börðust hvað harðast gegn Glass-Steagall á sínum tíma og fyrirtæki þeirra var ráðandi í að brjóta niður þá veggi sem löggjöfin hafði sett upp. Þá hefur Bernie Sanders, sem sækist eftir að verða frambjóðandi demókrata í næstu forsetakosningum í Bandaríkjunum, heitið því að endurvekja Glass-Steagall verði hann kjörinn.
Það eru auðvitað ekki allir á þessari skoðun. Hillary Clinton, eiginkona forsetans sem felldi lögin úr gildi, og allir frambjóðendurnir sem sækjast eftir útnefningu Repúblikanaflokksins eru á öðru máli. Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan Chase, sem nú er stærsti banki Bandaríkjanna, segir mikla þörf fyrir stóra banka sem veiti margháttaða þjónustu til fyrirtækja og þjóðríkja út um allan heim. Ef Vesturlöndin eigi ekki slíka banka muni bara einhver annar búa slíka til, og að það verði Kínverjar sem það muni gera. Það sé ekki gott fyrir Bandaríkin, að mati Dimon.
Jafnvel þó einhverjir telji rök Dimon, sem eru ekki síður pólitísk en viðskiptaleg, réttmæt þá hljóta flestir að vera sammála um að þau séu ekki yfirfæranleg yfir á litla Ísland. Okkar bankar eru ekkert að fara að reyna að þjónusta heiminn aftur, í ljósi þess sem gerðist síðast.
Að gera sama hlutinn aftur en vonast eftir annarri niðurstöðu
Á Íslandi hrundi fjármálakerfið haustið 2008, líkt og þúsund sinnum hefur verið rakið. Ótrúlegt en satt er sumt fólk enn að halda því fram að ekkert hafi verið að íslensku bankakerfi í aðdraganda þess hruns. Það hafi bara glímt við lausafjárvanda.
Fyrir alla sem hafa kynnt sér starfsemi íslensku bankanna fyrir hrun, þá menningu sem þar varð til, þá áhættusækni sem þar ríkti, þá frændhygli sem var við lýði, þá græðgi og eiginhagsmunasemi sem þar réð ferðinni og, á endanum, þau staðfestu lögbrot sem framin voru til að reyna að bjarga málunum þegar augljóst var að partíið var búið, hljómar allur sá málflutningur fjarstæðukenndur.
Samt endurreistum við bankakerfið á nákvæmlega sama hátt og það var áður, að undanskildu erlendu starfseminni. Þrír nákvæmlega eins bankar, með að hluta til nákvæmlega sama fólkinu í nákvæmlega sömu störfunum, voru búnir til á grunni þeirra þriggja sem féllu. Það má sýna því skilning að í byrjun var þetta auðveldasta leiðin til að koma fjármálakerfinu aftur í gang, þegar aðstæður voru þannig að alls óvíst var hvort slíkt væri raunverulega hægt. Og það má líka sýna því skilning að það hafi verið hentugra að láta fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemina hanga saman á meðan að bankarnir voru að endurskipuleggja fjárhag íslenskra heimila og fyrirtækja. Það var ekkert smá verkefni og hefur verið leyst að mörgu leyti afar vel.
Heimatilbúin arðsemi
Nú þegar þessari endurskipulagningu er að mestu lokið, og stefnt er að losun hafta, er hins vegar enginn tilgangur með því að hafa fjárfestingabankastarfsemi, sem í eðli sínu er afar áhættusækin, fjármagnaða og baktryggða með innstæðum Íslendinga.
Þótt nýju íslensku bankarnir (Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn) hafi hagnast um 436,5 milljarða króna frá stofnun og út septembermánuð 2015 þá er uppistaðan í þeim hagnaði endurmat eigna sem þeir fengu í vöggugjöf og heimatilbúin arðsemi vegna þóknanatekna.
Það má taka mörg dæmi um slíka snúninga. Þeim má t.d. lýsa svona:
Banki sem fór á hausinn er endurreistur af ríki. Ríki færir með handafli eignir yfir til hans á lágu verði. Nýi bankinn afskrifar hluta af skuldum fyrirtækisins, sem í raun voru skildar eftir í gamla bankanum, og með tíð og tíma hækkar virði fyrirtækisins. Sú hækkun er bókfærð sem hagnaður. Þegar fyrirtækið er orðið nógu stöðugt, og kerfið nægilega tilbúið, er ákveðið að skrá fyrirtækið á hlutabréfamarkað, en með því skilyrði að fyrirtækið sé áfram með fjármögnun hjá sér. Þannig tryggir bankinn sér þóknana- og vaxtatekjur. Bankinn ákveður að sjóður í stýringu hans muni fá að kaupa hlut í fyrirtækinu fyrir skráningu. Þannig fær bankinn þóknanatekjur fyrir þau viðskipti. Bankinn ákveður síðan líka að önnur deild innan hans muni sjá um hlutafjárútboðið. Þannig fær hann þóknanatekjur fyrir þau viðskipti. Bankinn heldur síðan sjálfur eftir stórum hlut í fyrirtækinu eftir að það er sett á markað, og mjatlar honum síðan út næstu misserin. Hagnaður vegna þeirrar sölu skráist allur sem hagnaður hjá bankanum.
Viðbótarhagnaður bankanna kemur að mestu til vegna þess að innheimtur vaxtamunur þeirra, þ.e. munurinn á vaxtatekjum og gjöldum, er mikill í alþjóðlegum samanburði. Þessi vaxtamunur greiðist af almenningi og fyrirtækjum og er, eðlilega, mikið gagnrýndur.
Bankakerfið of stórt og kostnaður of mikill
Staðan í dag er þannig að bankarnir þrír eru að langstærstu leyti fjármagnaðir með annars vegar lánum frá ríkinu, sem kröfuhafar munu að einhverju leyti endurfjármagna á næstunni, og hins vegar innlánum Íslendinga. Í tilfelli Arion banka voru til dæmis um 58 prósent af öllum skuldum hans innstæður viðskiptavina hans um mitt þetta ár. Á þessum innstæðum hvílir síðan ríkisábyrgð, þar til yfirlýsing íslenskra stjórnvalda um slíka ábyrgð sem gefin var út í október 2008 verður formlega dregin til baka.
Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins sagði í greiningu sem birt var í ágúst að íslensku bankarnir gætu minnkað efnahagsreikning sinn um sex prósent. Á meðan að bankarnir starfi í skjóli loforðs um lausafjárstuðning Seðlabanka Íslands og teljast kerfislega mikilvægir er óvíst að vilji standi til þess.
Ljóst er að kostnaður í bankakerfinu er allt of mikill og að hann þarf að minnka með hagræðingu. Það verður að gera með því að fækka starfsfólki – það vinna allt of margir í íslensku bönkunum – og með því að afnema sértæka skatta, t.d. bankaskatt, af starfsemi þeirra. Þannig minnkar vaxtamunur og þar af leiðandi kostnaður heimila og fyrirtækja af lántöku.
Enginn má verða of stór til að falla
En það þarf að gera meira, og það þarf að gera það fljótlega. Með losun hafta, sem fyrirhuguð er snemma á næsta ári, mun opnast fyrir möguleikann á auknum vaxtamunaviðskiptum sem gætu stækkað bankana hratt, ef aðhalds verður ekki gætt. Það er enda freistandi fyrir fjárfesta að kaupa skuldabréf með íslenskum vöxtum, sérstaklega ef þau eru sértryggð með sterkustu eignum bankanna, líkt og nú tíðkast í útgáfum.
Stjórnarandstöðuþingmenn úr öllum flokkum hafa þegar langt fram grófa þingsályktunartillögu um hvernig þeir sjá fyrir sér framtíðina en stefna og markmið sitjandi stjórnvalda um hvers konar fjármálakerfi þau vilja reka á landinu eru óljós, og ágreiningur virðist vera milli stjórnarflokkanna um hvert skuli stefna.
Það á að vera markmið stjórnvalda, sem bráðum verða eigendur þorra íslenska bankakerfisins, að aðskilja áhættusækinn fjárfestingahluta frá viðskiptabankastarfsemi. Fjárfestingahlutinn hefði þá ekki lengur innlán landsmanna, og ábyrgð ríkisins, til að falla á ef illa færi heldur þyrfti að vanda betur til verka í starfsemi sinni. Annars færi hann einfaldlega á hausinn, öllum nema hluthöfum að skaðlausu.
Bankarnir yrðu ekki lengur of stórir til að falla.