Alþingi er ljúka vinnu við fjárlög næsta árs, og eins og venjulega þá er tekist á um hina ýmsu liði í fjárlögunum. Eitt af því sem undarlegt verður að teljast, í ljósi stöðu mála á undanförnum árum ekki síst, er niðurskurður á fjármagni til Umboðsmanns Alþingis. Samkvæmt stöðu mála núna, sem þarf ekki að vera endanleg, þá mun stofnunin fá þrettán milljónum minna fjármagn til þess að sinna sínum verkefnum en upphaflegt fjárlagafrumvarp gerði ráð fyrir.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefur margítrekað á það bent að stofnunin sé fjársvelt og geti ekki sinnt frumkvæðisathugunum sínum nægilega vel, eins og lög gera ráð fyrir að hún eigi að gera. Þá hafa margir þeirra sem hafa snúið sér til stofnunarinnar kvartað undan hægagangi og löngum málsmeðferðartíma. Komið hefur fram í máli Tryggva að hann skýrist öðru fremur af ónægu fjármagni.
Varðhundur gagnvart misbeitingu valds
Eitt af því sem upp úr stendur í stjórnmálalífi þjóðarinnar á þessu ári og því síðasta, er hið svokallaða lekamál, sem endaði með því að Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra. Hún gerði það eftir að Tryggvi Gunnarsson hafði skipulega og af mikilli festu dregið það fram í dagsljósið, með pennann að vopni, hvernig málið var vaxið þegar kom að rannsókn lögreglu á ráðuneyti hennar. Málið er líklega svartasti bletturinn á starfi ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Það sem lekamálið dró fram var mikilvægi skilvirkrar stjórnsýslu þegar þörf er á, og dugmikilla varðhunda almannahagsmuna. Stjórnmálamennirnir komust ekki upp með valdníðslu í því tilviki, og farvegurinn fyrir málið reyndist líka sá rétti. Umboðsmaður dró fram aðalatriði málsins í opinberum bréfaskrifum við ráðherra, svo að almenningur gæti fylgst með ferlinu, og séð nákvæmlega hvernig málið væri. Textinn getur verið áhrifamikið tól til slíks, því þar er ekki hægt að skauta framhjá efnisatriðum.
Kjarnyrtar athugasemdir um stjórnsýslu seðlabankans
Annað mál sem sýnir mikilvægi þeirrar vinnu sem Umboðsmaður Alþingis er að sinna, er athugun hans á stjórnsýslu Seðlabanka Íslands, þegar kemur að rannsóknum á málum sem tengjast lögum um gjaldeyrismál. Fyrir utan ábendingar um óvandaða lagasetningu stjórnmálamanna, þegar kemur að flóknum hliðum gjaldeyrismála, þá er ekki hægt að segja annað en að margar alvarlegar ábendingar hafi komið frá umboðsmanni sem snerta rannsóknir á málefnum einstaklinga og fyrirtækja, eftirlit sem Seðlabankinn hefur haft umsjón með, og ekki síður stofnun einkahlutafélags í eigu bankans, ESÍ, sem er með tugmilljarða eignir innan sinna vébanda, sem meðal annars má rekja til hrunsins. Efaðist umboðsmaður um að löglega hefði verið staðið að stofnun félagsins.
Ekki eru öll kurl komin til grafar, hvað þessi mál varðar, en stjórnvöld og Seðlabanki Íslands eru nú að vinna að því að skoða þau atriði sem umboðsmaður hefur gert athugasemdir við. Vonandi lýkur þeirri vinnu áður en eignirnar verðir seldar úr safni ESÍ, svo það liggi nú fyrir að löglega hafi verið staðið að eignaumsýslunni.
En það skiptir miklu í þessu samhengi, að þessi rökræða um lagaleg álitamál og stjórnsýslulegar athafnir fari fram fyrir opnum tjöldum.
Penninn beittari
Stjórnvöld ættu að hafa metnað til þess að skoða hvaða atriði það eru sem tryggja faglega stjórnsýslu, og góða nýtingu fjármagns til lengdar litið. Faglegt aðhald Umboðsmanns Alþingis, sem gætir almannahagsmuna í starfi sínu, er lykilatriði í þessu samhengi, eins og dæmin sýna. Stjórnmálamenn eru vonandi ekki að hefna sín á stofnunni með því að boða niðurskurð, þvert á verkefnastöðu og mikilvæga vinnu stofnunarinnar.
Slíkt mun alltaf koma fram að lokum, og þá - líkt og hingað til - mun koma í ljós að mun meira bit er í penna Umboðsmanns Alþingis heldur en niðurskurðarhníf stjórnvalda.
En það eru enn rúmlega tuttugu dagar til stefnu, hjá stjórnmálamönnum, og ekki annað hægt en að vona að þeir verði tilbúnir að horfast í augu við það að niðurskurðarhnífurinn er ekki alltaf besta vopnið til að leiða fram skynsömustu niðurstöðuna.