Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins,
bregst við leiðara sem ég skrifaði, og birtist á
Kjarnanum á föstudag, í aðsendri grein sem birtist á Pressunni í dag. Svargrein Ásmundar er
áhugaverð fyrir margar sakir. Þar tínir þingmaðurinn til alls kyns
alhæfingar um að ég sé svona og hinsegin, hrekur ekkert sem ég sagði í umræddum leiðara, fer fram með atvinnuróg og klykkir út með því að kalla mig „rasista umræðunnar“ fyrir að kalla hann rasista.
Ég segi að greinin sé áhugaverð vegna þess að hún er skólabókardæmi um málflutning sem kjörinn fulltrúi getur ekki leyft sér að bera á borð. Við sem hann starfar fyrir þurfum að geta gert strangari kröfur til þeirra en það sem Ásmundur býður upp á. Og ég vona að Ásmundur muni einhvern tímann átta sig á því.
Blómið Ásmundur
Í leiðara mínum á föstudag lagði ég út frá
skilgreiningu á hugtakinu rasismi samkvæmt íslenskri orðabók. Samkvæmt henni nær hugtakið yfir þá hugmynd að kynþættir mannkyns séu eðlisólíkir og að sumir séu æðri en aðrir, án þess að geta fært nein haldbær rök fyrir því. Á grundvelli þeirrar hugmyndar vilja rasistar mismuna. Þeir vilja verja hina æðri fyrir hinum lægri. Út frá umræddu hugtaki hafa ýmis alþjóðasamtök, m.a. Sameinuðu þjóðirnar, smíðað og notað hugtakið menningarlegur rasismi. Sá sem tileinkar sér slíkan rasisma dregur upp tvískipta mynd af sínum menningarheimi annars vegar og útlendingum og öllum utanaðkomandi hins vegar. Skiptir heiminum upp í „við“ og „hinir“. Svarthvíta mynd sem aðgreinir hið „góða“ frá hinu „illa“.
Ummæli Ásmundar um bakgrunnsskoðun allra múslima á Íslandi, þar sem trú viðkomandi er aðgreiningaratriðið sem aðskilur „okkur“ frá „hinum“, eru menningarlegur rasismi samkvæmt ofangreindri skilgreiningu. Það er enginn vafi á því. Við getum alveg fundið annað fallegra orð yfir þessar skoðanir ef orðið „rasisti“ situr svona illa í Ásmundi. Við getum þess vegna sagt að hann sé blóm. En hann er samt sem áður blóm sem vill mismuna fólki og skerða frelsi þess á grundvelli trúarskoðana.
Rök eru forsenda vitrænnar umræðu
Í svargrein sinni segir Ásmundur að ég hafi vegið
ómaklega að sér og segist upplifa umræðuna þannig að hver sá sem stígi fram í henni þurfi að vera „sérfræðingur í trúarbragðafræðum, íslam eða málefnum flóttamanna og hælisleitenda svo mark sé á honum tekið.[...]Það þarf enga sérfræðiaðstoð til að átta sig á því að auðvitað fylgja því einnig áhætta að opna landamærin án þess að auka eftirlit.“
Því fer fjarri að ég geri þá kröfu að allir séu mér sammála. Raunar er forsenda rökræðu sem leiðir að betri ákvörðunartöku að fólk sem er saman í samfélagi sé ósammála og geti tekist málefnalega á. Sú gagnrýni sem ég var fyrst og síðast að setja fram í leiðaranum snérist um að málflutningur Ásmundar, og annarra sem hafa látið sambærileg orð falla, byggir ekki á rökum, staðreyndum eða vísun í rannsóknir. Hann byggir á tilfinningu.
Góðar ákvarðanir eru ekki teknar byggðar á tilfinningu. Við eigum að geta
gert mun ríkari kröfur til þingmanna okkar en að þeir leyfi sér að tala
með jafn óábyrgum hætti um jafn mikilvæg málefni. Að málflutningur þeirra
standi ekki og falli með því sem Ásmundur heldur að „almenningur hafi áhyggjur af“ eða vegna þess að Ásmundur deilir þessum áhyggjum (sem hann bjó sjálfur til) með óskilgreindum „almenningi á Íslandi“.
Ásmundur leggur síðan út frá því að ég, sem gangi „sofandi á
feigðarósi“ að hans mati, vilji opna hér allar gáttir til að hleypa inn hælisleitendum og flóttamönnum. Það er einfaldlega ekki rétt og ég segi það aldrei í umræddum leiðara.
Ég benti hins vegar á að Íslendingar eru að eldast mjög hratt (staðreynd), að það mun skorta vinnuafl hérlendis í framtíðinni til að við getum viðhaldið lífsgæðum (staðreynd) og á fjölmargar rannsóknir sem sýna að innflytjendur auka framleiðni í þeim samfélögum sem þeir flytja til og hækka þar með í flestum tilfellum laun og hagsæld þeirra sem fyrir eru. Það séu því líka efnahagsleg rök fyrir því að fjölga innflytjendum hérlendis ekki síður en mannúðleg rök.
Við það má svo bæta að ég er þeirrar skoðunar að það séu sterk menningarleg rök fyrir auknum fjölda innflytjenda. Fjölbreyttari flóra mannlífs á Íslandi mun bæta samfélagið og gera stjórnsýslu þess á endanum faglegri. Ég geri mér grein fyrir að sú skoðun er umdeild og ætlast sannarlega ekki til þess að heitustu aðdáendur lítilla breytinga á Íslandi taki undir hana með mér.
Skoðanakúgun að gagnrýna fabúleringar
Þegar þarna er komið í greininni er Ásmundur kominn á
skrið. Án þess að hafa fram að þessu borið á borð ein einustu rök sem teljast mega málefnaleg eða vitræn til að bregðast við leiðaranum segir Ásmundur að skrif mín séu: „Aumkunarverður og röklaus málflutningur reiða mannsins sem elur á hatri og afbrýðisemi út í náungann. Skrifin Þórðar Snæs eru aldrei uppbyggileg. Þau eru flest þannig gerð að þau ýta undir úlfúð og andúð. Af hverju leggur hann ekki metnað í að vera með upplýsandi umræðu sem dregur fram mismunandi sjónarmið? Af hverju er metnaður “ritstjórans” ekki meiri í þá átt?“
Það er ýmislegt við þessa síðustu málsgrein að athuga. Ásmundur ásakar mig t.d. um rökleysu þrátt fyrir að skrif mín, ólíkt hans, styðjist við opinbera skilgreiningu á hugtökum og bendi á rannsóknir málinu til stuðnings. Ef ég skil hann rétt þá er ég bara sjálfur rasisti fyrir að hafa kallað hann rasista. Þessi „nei þú!“-rök þingmannsins eru skemmtileg rökleysa, en þau eru samt rökleysa.
Hitt er alvarlegra þegar þingmanni finnst hann vera í stöðu til að segja fjölmiðli að hann eigi ekki að gagnrýna. Það ýti undir úlfúð og andúð. Síðan beinir þingmaðurinn okkur á þær brautir sem hann telur að fjölmiðlaumfjöllun ætti að á vera þannig að hún geti betur fallið að hans skoðunum og manngerð.
Ljóst er að Ásmundi finnst ekki mikið til þess sem hann kallar bloggfjölmiðla koma. Hann kallar mig „ritstjóra“ innan gæsalappa og finnst við augljóslega vera annars flokks fjölmiðlafyrirbæri. Hann skilgreinir reyndar ekki hverjir falla undir þennan hatt og hverjir teljast alvöru fjölmiðlar með ritstjórum sem þurfa ekki að vera innan gæsalappa. En hann er frjáls að þessari skoðun þótt að áhugavert væri fyrir okkur sem vinnum á Kjarnanum, og erum með samanlagða áratuga reynslu af því að vinna á fjölmiðlum, að fá kennslu í grunnatriðum fagsins frá Ásmundi, sem hefur aldrei starfað á slíkum og hefur nú opinberað gjörsamlega vanþekkingu á eðli þeirra.
En Ásmundur, sem spurði einu sinni á opinberum vettvangi hvort „bakgrunnur þeirra 1500 múslima sem búa á Íslandi [hafi] verið kannaður og hvort einhverjir „íslenskir múslimar" hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrland eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima“, er þeirrar skoðunar að skrif mín endurspegli allt það sem sé að í umræðunni í dag. Þau séu skoðanakúgun.
Þar er kannski stærsti ásteytingarsteinninn. Ásmundur, og aðrir tilfinningarakamenn sem deila með honum skoðunum, telja kröfuna um að þeir rökstyðji mál sitt með raunveruleikanum vera það sem er að umræðunni í dag. Á sama tíma finnst öðrum, sem telja fjölmenningu og innflytjendamál vera risastórt verkefni sem þurfi að takast á við, að rökleysur Ásmundar og félaga sé það sem standi umræðunni fyrir þrifum. Ég virði skoðanir annarra en ég áskil mér rétt að kalla eftir rökstuðningi fyrir þeim og að sjálfsögðu að vera ósammála ef sá rökstuðningur er annað hvort ekki til staðar, er afar slakur eða tómt rugl.
Tilhæfulausum ásökunum fylgir ábyrgð
Það sem er alvarlegt við grein Ásmundar, og ég vona að hann og samstarfsfólk hans í stjórnmálum geri sér grein fyrir eftir á, eru þær ávirðingar og sá rógur sem hann setur síðan fram. Í millifyrirsögn greinar sinnar segir: „Bloggfjölmiðlar ættu að upplýsa um pólitísk tengsl og hagsmunatengsl“. Síðan segir þingmaðurinn að þegar umræðan þróist með þessum hætti „og bloggarar eins og Þórður Snær, sem kalla sig fjölmiðlamenn en eru í raun þátttakendur í stjórnmálum, hann er úlfur í sauðagæru. Þórður Snær og hans líkir hafa þann eina tilgang að fæla fólk frá umræðunni og hafa þannig áhrif á viðhorf almennings.“
Fyrst er vert að benda þingmanninnum á að eignarhald, ritstjórnarstefna og aðrar hagsmunaupplýsingar eru skráðar hjá opinberri stofnun sem heitir Fjölmiðlanefnd, og var sett á fót af Alþinginu sem hann situr á. Þar getur Ásmundur séð allar upplýsingar sem hann vill um eigendur Kjarnans og annarra fjölmiðla. Hér er hlekkur þangað sem þingmaðurinn getur nýtt sér í þeirri þekkingarleit. Pólitískir hagsmunir eða -tengsl Kjarnans, þeirra sem starfa á honum og stýra, eru engir. Allar aðrar upplýsingar um okkur eru aðgengilegar á heimasíðu miðilsins og ég er auk þess boðinn og búinn að veita allar viðbótarupplýsingar sem þingmaðurinn óskar eftir til að tryggja honum friðsælan nætursvefn.
Augljós tilgangur Ásmundar er að gefa í skyn að Kjarninn, og ég sérstaklega, séum ekki að stunda fjölmiðlun til að upplýsa lesendur og veita valdastofnunum samfélagsins aðhald heldur til þess að ganga erinda einhverra ónefndra stjórnmálaafla í sauðagærunni. Þetta er auðvitað vel þekkt aðferð þeirra sem geta ekki tekist málefnalega á. Þá ráðast þeir að einstaklingunum sem setja fram andstæða skoðun eða fjölmiðlinum sem þeir vinna hjá. Maður, bolti og allt það.
Á öðrum stað í grein sinni segir Ásmundur að ef „einhver er með aðrar skoðanir en vinstraliðið í skotgröfunum þá eru viðkomandi úthrópaður, umræðan kölluð hatursumræða og fólk stimplað rasistar.“ Ef Ásmundur ætlar sér að flokka alla sem vinstri menn sem hafa lýst því yfir á opinberum vettvangi að þeir séu honum ósammála þá er hann að lýsa þeirri skoðun að formaður Sjálfstæðisflokksins, varaformaður hans og nýkjörinn ritari séu allt vinstralið í
skotgröfum. Öll hafa þau nefnilega gagnrýnt Ásmund fyrir ummæli sín og skoðanir á innflytjendamálum á opinberum vettvangi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, sagði það meira að segja átakanlegt að vera í sama flokki og Ásmundur.
Skilningsleysi gagnvart gagnrýni
Ég held að stærsta vandamál Ásmundar sé það að hann skilur ekki gagnrýnina sem sett er fram á hann. Hann virðist ekki skilja að hann sem þingmaður þarf að rökstyðja skoðanir sínar með öðru en því sem hann segist hafa heyrt hjá óskilgreindum almenningi eða tilfinningum sem hellast yfir hann þegar hann sér fréttir um voðaverk sturlaðra manna í útlöndum. Ásmundur er frjáls að skoðunum sínum. En hann verður að geta sætt sig við að slíkar skoðanir séu gagnrýndar þegar þær eru jafn illa undirbyggðar.
Ásmundur má vísa ummælum mínum um að hann sé rasisti til allra þeirra föðurhúsa sem hann finnur. Það breytir því ekki hver skilgreiningin á hugtakinu rasisti er. Ég er þeirrar skoðunar að það nái vel yfir skoðanir Ásmundar Friðrikssonar og hef nú rakið það tvívegis í nokkuð löngu máli. Honum finnst ekkert varið í það að vera kallaður rasisti.
Svo verður hver og einn bara að meta hvor okkar honum finnst hafa rétt fyrir sér.