Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, sem fer með málefni Ríkisútvarpsins (RÚV), var búinn að lofa stjórnendum fyrirtækisins því að útvarpsgjald yrði ekki lækkað og öll áætlunarvinna sem farið hefur farið fram innan þess á árinu 2015 hefur miðað við þann tekjuramma.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagði á fundi fjárlaganefndar 17. desember síðastliðinn: „Þetta er auðvitað algjörlega galið, algjörlega galin staða fyrir okkur að vera í og fyrir marga aðra. Við erum búin að vera að vinna í átta mánuði eftir plani sem lagt var upp af ráðherra og ráðuneyti og við erum að gera áætlanir þar sem þetta er fast í hendi[...]Það var skýr vilji menntamálaráðherra að útvarpsgjaldið lækki ekki“.
Illugi reyndi að koma frumvarpi byggðu á vilja sínum í gegnum ríkisstjórn. Það tókst ekki og Morgunblaðið hefur sagt að fyrrum RÚV-starfsmaðurinn og núverandi forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi þar verið stærsta fyrirtstaðan. Þá var gríðarleg andstaða við frumvarpið í fjárlaganefnd þar Guðlaugur Þór Þórðarson, samflokksmaður Illuga, fór mikinn. Að endingu var fullyrt í blaðinu að ekki væri meirihluti fyrir málinu í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.
Hver svo sem ástæðan er þá er þetta niðurstaðan. Og óháð því hvaða skoðun fólk hefur á rekstrarumhverfi RÚV þá er ljóst að með henni hefur Illugi, fagráðherrann sem fer með málefni RÚV, verið fullkomlega niðurlægður af samstarfsmönnum sínum í pólitík.
Magnúsi Geir lofað ákveðnu rekstrarumhverfi
Magnús Geir var strax orðaður við stöðu útvarpsstjóra eftir að ljóst var að ný ríkisstjórn ætlaði sér að auglýsa hana lausa til umsóknar. Hann sagði þó mjög skýrt í viðtali á RÚV síðla árs 2013 að hann ætlaði sér ekki að sækja um. Skömmu síðar snérist Magnúsi Geir hugur og á endanum var hann ráðinn í starfið. Þótt ekkert opinbert liggi fyrir um hvað breytti skoðun hans hefur lengi legið fyrir að Illugi vildi fá Magnús Geir í það og mikið var þrýst á hann úr röðum Sjálfstæðismanna að sækja um. Og það er ljóst að Magnúsi Geir var lofað ákveðnu rekstrarumhverfi sem honum þótti spennandi.
Á svipuðum tíma tók Ingvi Hrafn Óskarsson, sem lengi hefur sinnt trúnaðarstörfum innan Sjálfstæðisflokksins, við sem formaður stjórnar RÚV. Hann og Magnús Geir störfuðu náið saman allt þar til að Ingvi Hrafn sagði óvænt af sér sem stjórnarformaður í nóvember síðastliðnum. Hann hætti vegna þess að hann naut ekki stuðnings Sjálfstæðisflokksins til að fara þá leið í rekstri RÚV sem marka átti með ráðningu Magnúsar Geirs.
Ingvi Hrafn virðist hafa fengið nóg af sviknum vilyrðum sem voru forsenda þess að hann tók við stjórnarformannsstarfinu í upphafi. Og miklar vangaveltur hafa lengi verið um hversu lengi Magnús Geir sætti sig við þær aðstæður.
Illugi fótar sig...
Fyrir nokkrum árum virtist Illugi vera búinn að ná vopnum sínum sem stjórnmálamaður. Hann ákvað af sjálfsdáðum að víkja af þingi á meðan að Sjóður 9, einn vafasamasti peningamarkaðssjóður sem settur hefur verið saman, var rannsakaður af embætti sérstaks saksóknara, en Illugi sat í stjórn sjóðsins fyrir hrun.
Tæpu einu og hálfu ári síðar snéri Illugi síðan aftur með lögfræðiálit í höndunum sem sýndi að lög eða reglur hefðu ekki verið brotin í starfsemi Sjóðs 9. Illuga var klappað á bakið fyrir að hafa brugðist við aðstæðum með ábyrgum og trúverðugum hætti.
Styrkur endurkomu hans var staðfestur með því að Illugi vann góðan sigur í prófkjöri og leiddi Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður vorið 2013. Eftir að flokkur hans myndaði ríkisstjórn var alltaf ljóst að Illugi myndi verða ráðherra. Þegar vandræði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem leiddi hitt Reykjavíkurkjördæmið, vegna lekamálsins gerðu það að verkum að staða hennar í framvarðasveit flokksins var ómöguleg nefndu margir Illuga sem sjálfsagðan eftirmann hennar í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
... til þess eins að renna á rassinn
Á þessu ári hefur þó ekkert gengið upp hjá Illuga og líkast til er enginn starfandi stjórnmálamaður, að Hönnu Birnu undanskildri, jafn pólitískt laskaður í lok árs og hann.
Vandræðin hófust í apríl þegar greint var frá fjárhagslegum tengslum Illuga og Hauks Harðarsonar, stjórnarformanns Orku Energy. Í ljós kom að ráðherrann hafði þegið persónulegan fjárstuðning frá Hauki sem keypti íbúð Illuga af honum í fyrrasumar og leigði honum hana síðan aftur. Illugi var þegar orðinn ráðherra þegar hann seldi íbúðina, en það þurfti hann að gera eftir að „nokkur fjárhagsleg áföll“ höfðu dunið á honum. Áður hafði Illugi einnig unnið sem ráðgjafi fyrir Orku Energy í Singapúr á meðan að hann var í leyfi frá þingstörfum. Hann virðist ekki hafa haft neina sérþekkingu eða reynslu sem gerir hann eftirsóknarverðan eða hæfan til að sinna fjárfestingaráðgjafarstörfum í Asíu.
Það sem gerir þau tengsl tortryggileg er að Illugi tók umræddan Hauk, núverandi leigusala sinn, með í opinbera heimsókn til Kína í mars 2015, en Orka Energy stundar umfangsmikla jarðvarmastarfsemi þar í landi.
Vandræði Illuga vegna Orku Energy hafa síðan undið ítrekað upp á sig með hreint ótrúlegum, og oft vandræðalegum, vendingum. Á undanförnum mánuðum hefur ráðherrann mætt í valin viðtöl við fjölmiðla sem höfðu lítið fjallað um mál hans í stað þess að svara spurningum þeirra sem það höfðu gert, mætt í beinar útsendingar til að veifa launaseðlum og birt skattframtal sitt og eiginkonu sinnar á Facebook án þess að nokkur hafi beðið hann um það. Illugi hefur hins vegar ekki viljað svarað ítrekuðum fyrirspurnum fjölmiðla, meðal annars Kjarnans, um greiðslur frá Orku Energy til einkahlutafélagsins OG Capital, sem var í eigu Illuga.
Samkvæmt frásögnum þingmanna hafa margir úr baklandi Illuga verið uppteknir af því að fjölmiðlar hafi sýnt óeðlilegan áhuga á málinu. Illugi sé nefnilega fínn og góður maður. Þeir sem halda að rætni eða óljóst samsæri sé orsök vandræða Illuga virðast hins vegar alls ekki átta sig á hversu alvarlegt málið í raun er.
Það snýst um að ráðherra X sé fjárhagslega háður fjárfesti Y og hefur í krafti embættis síns opnað viðskiptalegar dyr fyrir fjárfesti Y á erlendum markaði. Ráðherra X hefur síðan einungis viljað svara völdum spurningum um þessi samskipti og þau svör sem hafa verið veitt eru langt í frá fullnægjandi til að eyða eðlilegri tortryggni. Hvað ráðherra X heitir eða hversu fínn hann er skiptir engu máli í þessu samhengi. Við blasir rökstuddur grunur um tæra pólitíska spillingu og fyrst stjórnmálaflokkurinn sem ber ábyrgð á Illuga ætlar sér ekki að takast á við hana blasir við að fjölmiðlar verða einir að gera það. Það felst einfaldlega í aðhaldshlutverki þeirra.
Stutt í næsta prófkjör
Það eru þó ekki fjölmiðlar sem eru að gera út af við Illuga núna, heldur samstarfsmenn hans í stjórnmálum. Sú málamiðlun sem náð var vegna RÚV-mála er fullnaðarsigur fyrir þá sem vilja þrengja að fyrirtækinu og þá sem vilja bregða fæti fyrir Illuga. 175 milljóna króna framlag sem stjórnmálamenn ætla að ráða hvernig verður ráðstafað kemur augljóslega ekki í stað þess hálfa milljarðs króna sem stjórnendur RÚV voru búnir að byggja áætlanir sínar á, og segja að Illugi hafi verið búinn að lofa þeim, og sendir skýr skilaboð til starfsmanna RÚV um hverjir ráði hér á landi.
Það er stutt í kosningar og um ár í að valið verði á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 2017. Ljóst er að margir ætla sér framgang í því prófkjöri, enda blasa við miklar breytingar. Hanna Birna Kristjánsdóttir leiddi flokkinn í Reykjavík suður fyrir síðustu kosningar en Sjálfstæðismenn munu aldrei leggja í kosningar með hana í forystusæti í kjölfar lekamálsins. Pétur H. Blöndal, sem var í öðru sæti í því kjördæmi, lést á árinu og í Reykjavík norður leiddi Illugi. Þrjú forystusæti, sem öll gætu tryggt ráðherrastöðu ef flokkurinn heldur völdum, eru því raunverulegur valkostur fyrir stjórnmálamenn sem vilja klífa metorðastigann.
Það er fullt tilefni til að setja stuðningsleysið við Illuga, og þá niðurlægingu sem hann hefur nú orðið fyrir, í samhengi við þau innanflokksátök.