Sjónvarpsstöðin Hringbraut hefur legið undir réttmætri gagnrýni fyrir að skrifa frétt upp úr pistli gervimanns sem birtist á síðu miðilsins í skömmu fyrir áramót. Fréttin snérist um áhyggjur pistlahöfundarins Ólafs Jóns Sívertsen af þróun fjölmiðla á Íslandi sem hann telur að séu komnir undir hælinn á peningaöflum og valdahópum sem tengdir eru stjórnmálaflokkum eða hagsmunahópum. Ólafur Jón fjallar sérstaklega um DV og telur sig hafa heimildir fyrir því að fjármunir til rekstrar allra miðla undir stjórn Björns Inga Hrafnssonar, sem hann kallar flokksmiðla Framsóknar, séu komnir frá nánustu ættingjum og vinum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi gervimaður heldur þessu fram.
Persónan Ólafur Jón Sívertsen er ekki af holdi og blóði. Hann er ekki skráður í þjóðskrá og Sigmundur Ernir Rúnarsson, sjónvarpsstjóri Hringbrautar, hefur sagt frá því opinberlega að hann sé tilbúinn karakter sem þjóðþekktur maður skrifi í gegnum. Það eina sem er ekta við Ólaf Jón Sívertsen er myndin sem hann birtir með pistlunum sínum. Hún er keypt úr myndasafninu Alamy og heitir þar einfaldlega, í íslenskri þýðingu, mynd af manni með gleraugu (e. Portrait of a man wearing glasses). Maðurinn er samkvæmt lýsingu miðaldra sveitamaður sem hrífst af útiveru. Samkvæmt verðskrá hefur Hringbraut greitt um 35 evrur, tæpar fimm þúsund krónur, fyrir myndina.
Þótt að einhver sé raunverulegur eigandi andlitsins sem notað er til að skreyta pistla gervimannsins þá breytir það, eða útskýringar sjónvarpsstjórans, engu um að vinnubrögð Hringbrautar í þessu máli eru út í hött. Meira að segja blaðamaður miðilsins tekur undir það. Með því að birta pistla á vettvangi gervimanns og gera síðan frétt úr skoðunum gervimannsins, er einfaldlega verið að búa til fréttir án þess að hafa nokkuð annað en viljann til þess að þær séu sannar sem grundvöll. Það er vægast sagt ófaglegt og til þess fallið að draga úr trúverðugleika fjölmiðlunar á Íslandi.