Enn á ný er hafin mikil umræða um afnám verðtryggingar á Íslandi. Hún dúkkaði upp í þetta skiptið eftir að forsætisráðherra nefndi það fyrir viku í viðtali við Eyjuna að vel kæmi til greina að setja verðtrygginguna „að minnsta kosti í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu“ þannig að stjórnvöld hefðu þjóðina á bak við sig í því að fylgja eftir afnámi verðtryggingar. Fyrir helgi komu svo þingmenn Samfylkingarinnar fram með frumvarp um afnám verðtryggingarinnar. En tökum þetta í réttri röð.
Í fyrsta lagi: Sigmundur Davíð sagðist vera sannfærður um að hann fengi stuðning þjóðarinnar við afstöðu sína um að rétt sé að afnema verðtryggingu. En jafnvel þótt hann væri það ekki ætti hann samt að vera til í þjóðaratkvæðagreiðsluna „vegna þess að ég ætti þá bara að sætta mig við það og auðvitað myndi ég gera það.“
Þetta er ánægjuleg viðhorfsbreyting hjá forsætisráðherra, þar sem ekkert svona var uppi á teningnum þegar tugþúsundir Íslendinga kröfðust þess að fá að kjósa um það hvort halda ætti viðræðum Íslands um aðild að Evrópusambandinu áfram eða ekki. Þá sögðu ráðamenn það pólitískan ómöguleika að leyfa fólki að kjósa vegna þess að ríkisstjórnin væri á móti aðild. Hún gæti ekki framfylgt vilja þjóðarinnar ef hún væri annarrar skoðunar.
Í öðru lagi: Það er ekki beint lýðræði að stjórnmálamenn ákveði það eftir hentugleika og líkum á því að þeirra skoðun verði ofan á hvaða mál þjóðin fær að kjósa um og hver ekki. Í því felst grundvallarmisskilningur á kröfunni um aukið beint lýðræði og aðkomu þjóðarinnar að ákvörðunum.
Og þá að verðtryggingarumræðunni.
Framsóknarflokkurinn hafði það sem eitt sitt helsta loforð fyrir síðustu kosningar að afnema verðtryggingu. Þá sagði Sigmundur Davíð meðal annars fimm dögum fyrir kosningar að valið í kosningunum stæði um Framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn.
Eftir kosningar var svo skipaður starfshópur til að undirbúa afnám verðtryggingarinnar, sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki ætti að afnema verðtrygginguna. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur enda sagt að það standi ekki til, en unnið sé að frumvarpi um að þrengja að 40 ára jafngreiðslulánum, og láta þau verða að hámarki til 25 ára. Frumvarpið er ekki væntanlegt á þessu þingi.
Samfylkingin, eða að minnsta kosti hluti hennar, hefur formlega hoppað á verðtryggingarvagninn, og tveir þingmenn hennar lögðu í vikunni fram frumvarp um afnám verðtryggingar á Alþingi. Formaðurinn greindi svo frá því í kjölfarið að hann væri ósammála frumvarpinu. Málið afhjúpar enn á ný klofninginn, stefnuleysið og vandræðaganginn í flokknum.
Samkvæmt frumvarpinu á að banna verðtryggingu á nýjum neytendalánum, þar með talið húsnæðislánum. Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að flest bendi til þess að afnámið njóti víðtæks stuðnings og könnun sýni að 80 prósent Íslendinga styðji afnám verðtryggingarinnar.
Það fer hins vegar ekki mikið fyrir umræðu um það hverju nákvæmlega það á að skila að afnema verðtryggingu. Ekki heldur er rætt mikið um það hvað á að koma í staðinn fyrir hana, nú eða ástæður þess að hún er yfirhöfuð við lýði.
Þess í stað er látið eins og afnám verðtryggingar sé töfralausnin, eins og það að setja bann við verðtryggingu í lög muni allt í einu tryggja okkur betri vaxtakjör og meiri stöðugleika. Sú er auðvitað ekki raunin. Verðtrygging er viðbragð við efnahagssveiflum. Hún er afleiðing en ekki orsök.
Ekki er heldur mikið rætt um þá staðreynd að Íslendingar sem tekið hafa húsnæðislán eða endurfjármagnað lán sín á undanförnum árum hafa haft val um það að taka verðtryggð eða óverðtryggð lán. Niðurstaðan úr þeirri óformlegu kosningu er nokkuð ljós. Meirihlutinn tekur verðtryggð lán.
Það þýðir ekki að fólk vilji endilega taka afleiðingum verðbólgu og oft miður skemmtilegum fylgifiskum. Það er einfaldlega viðráðanlegra að taka verðtryggð lán en óverðtryggð.
Með því að banna fólki að taka 40 ára verðtryggð lán eða verðtryggð lán yfir höfuð mun efnahagskerfið á Íslandi ekki lagast eins og hendi væri veifað. Það sem gerist er að viðkvæmasti hópurinn meðal þeirra sem þó hafa getað keypt sér húsnæði hingað til verður útilokaður frá því með lögum. Það hafa nefnilega alls ekki allir efni á því að greiða af óverðtryggðu húsnæðisláni með háum vöxtum og þar með afborgunum. Að öllum líkindum mun þetta frekar auka á húsnæðisvandann en hitt.
Eins og með margt annað fer ekki fram sérstaklega upplýst umræða um þetta hér á landi. Og það sem meira er, það lítur ekki út fyrir að það sé neinn sérstaklega mikill vilji til þess að hún fari fram. Þá þyrfti nefnilega að svara ýmsum erfiðum spurningum. Það sem nú er í gangi eru bara pólitísk kosningabrögð, ætluð til þess að fá atkvæði út á vinsælan málstað.
Við virðumst vera dæmd til að heyra áfram talað endalaust um afleiðingarnar, en ekki orsökina. Og meðan svo er mun ekkert breytast.