Okkur langar öll að búa vel og eitt af því sem tryggir gott líf eru, eins og við vitum öll, peningar. Það eru margar leiðir til þess að auðgast og eiga fyrir búinu heima. En afhverju að stoppa þar? Á Íslandi eru kjöraðstæður til þess að græða á tá og fingri, mala gull og maka krókinn. Hér eru nokkrir einfaldir hlutir sem þú getur gert til þess að verða moldrík/ur á Íslandi.
Að leggja grunninn
Það er gott að byrja á því að safna saman góðum hóp af vinum og ættingjum. Ágætt er að hafa temmilega stóran hóp, því nauðsynlegt er að ná tökum á mörgum vígvöllum í einu. Það er grundvallaratriði að þú og þínir náið tökum á þessum vígvöllum, en þar er helst að nefna stjórnmálin, fjármálamarkaðinn og fiskvinnsluna. Líka er nauðsynlegt að ná öllum helstu fjölmiðlum á landinu. Þegar þessi hópar eru komnir í startstöður þá er hægt að byrja að græða! Munið að ef eitt ykkar græðir, græðið þið öll.
Samspil
Það er mikilvægt að hafa í huga að þið eruð öll í sama liði og samspil er lykillinn. Best er að byrja á því að stjórnmálahópurinn greiði leiðina fyrir alla aðra. Þetta er best gert með því að rýmka alla löggjöf sem gæti verið í vegi fyrir fjármála- og útgerðarhópunum. Það er nauðsynlegt að hafa ekki áhyggjur af því að ná kjöri næst, því þegar vinir þínir byrja að græða geta þeir tryggt þér allt það fjármagn sem þú þarft til að taka næstu kosningar í nefið. Einnig kemur fjölmiðlahópurinn sterkt inn hér, en með fjármagni frá öðrum hópum geta þeir tryggt að gagnrýni verði sem minnst.
Kominn af stað
Þegar boltinn er farinn að rúlla gengur þetta í raun af sjálfum sér. Þá er hægt að fara í flóknari aðgerðir eins og fyrirtækjagjafir, skattaafslætti, ríkisstyrki, lokuð uppboð á ríkishlutum í fyrirtækjum og svo framvegis. Vittu til, að áður en þú veist af verðið þið félagarnir orðnir moldríkir! Þetta er svona auðvelt. Ef allt gengur á versta veg og eitthvað springur í andlitið á ykkur skaltu ekki hafa áhyggjur. Þá er ekki nema að koma peningunum í skjól og þrauka út næstu fjögur ár á meðan er tekið til eftir ykkur, og þá er hægt að byrja ballið upp á nýtt.
Gullkálfurinn
Þetta hljómar kannski fjarstæðukennt, en þetta er raunveruleikinn sem við búum við í dag. Við búum við gjörspillt kerfi, þar sem afmarkaður hópur fólks starfar markvisst að því að maka krókinn hjá hvert öðru og skilur ekkert eftir handa okkur hinum. Hrunið er enn ferskt í minni og óbragðið er langt frá því farið, en ekkert hefur breyst. Eftir tiltekt vinstri stjórnarinnar erum við aftur kominn í sömu stöðu og fyrir hrun. Ríkustu 10% landsmanna eiga að minnsta kosti 75% af öllum auð á Íslandi. Ríkasta 1% á eitt og sér minnst fjórðung af öllum auð á Íslandi. Það er markvisst unnið að einkavæðingu mennta- og heilbrigðiskerfisins með niðurrifi og fjársvelti, og líkurnar á sanngjörnu uppboði þegar takmarkinu er náð eru litlar sem engar. Á meðan svelta öryrkjar og aldraðir, 9% barna búa við skort og heilbrigðisstoðir samfélagsins hanga á bláþræði, en þeir einu sem fá afslátt eða stuðning frá ríkisstjórninni eru fjármálakarlar og útgerðarkóngar
Gullkálfinum er slátrað og boðið er til veislu, en okkur er ekki boðið.Höfundur er formaður Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi.