Þau standa í hring og ég nálgast hópinn varfærnislega. Ein þeirra skýtur augunum í átt til mín en lítur fljótt undan. Þegar ég fer framhjá býð ég góðan dag, en þau líta á hjólastólinn og á mig til skiptis með fyrirlitningu.
Ég sit í strætó og gamall maður gengur að mér. Hann hreytir í mig: „Ef þú ætlar að vera hluti af íslensku samfélagi verður þú að vinna. Það verða allir að leggja til samfélagsins hér.“ Ég svara fullum hálsi að þó ég leggi ekki malbik né verki fisk, séu kraftar mínir verðmætir samfélaginu, en röddin brestur.
Þegar ég kem heim bíður mín umslag. Sendandinn er hið opinbera. Þar kemur fram að nú beri mér að afhenda ríkinu það sparifé sem ég hef safnað mér í gegnum tíðina og eins allar mínar eignir sem eru meira en 200.000 kr. virði. Ég hafi óskað eftir nýjum hjólastól og þar sem ríkissjóður væri kominn að þolmörkum og Íslendingar komnir með nóg af skattpíningu verði ég að láta allt verðmætt af hendi til að bæta upp fyrir stólinn. Ætli ég að búa á Íslandi verði ég að kyngja þessum veruleika.
Vonandi hryllir flesta við tilhugsunina að svona væri komið fyrir fötluðu fólki á Íslandi. Þetta er hins vegar raunveruleiki sem margir flóttamenn og innflytjendur búa við. Að vera málaðir upp sem byrði, afætur og letingjar. Ég trúi því að allir vilji vera virkir þátttakendur í samfélaginu og eigi sér drauma og vonir, sama hvort maður heitir Inga og er í hjólastól eða Amira og frá Sýrlandi. Það er staðreynd að við tilheyrum samfélagi manna. Það þýðir að við leggjum fram eftir getu, og þiggjum eftir þörfum. Þegar við veikjumst, missum vinnuna eða missum fæturna, erum við gripin af sterku neti. Neti sem við höfum ofið saman sem þjóð og þéttist með fleiri vinnandi höndum.
Danir hafa tekið upp þann sið að bjóða flóttafólk velkomið til landsins með því að hirða af þeim öll verðmæti sem eru umfram 10.000 danskar krónur, eða tæplega 190.000 íslenskra króna. Þá hefur sá tími sem fjölskyldur þurfa að bíða eftir að vera sameinaður lengdur í þrjú ár. Í nóvember voru sett upp tjöld í bænum Thisted, fyrir unga menn á flótta. Þetta var gert til að reyna að draga úr straumi flóttamanna til Danmerkur, að sögn forsætisráðherra þar ytra, Lars Løkke Rasmussen. Maður leyfir sér að efast að þetta sé gert vegna þess að ekkert húsrými sé fyrir hendi heldur sé ástæðan sú að Danir vilji með þessum aðgerðum senda skilaboð. Viljir þú koma til Danmerkur og búa hér, verður þú að sætta þig við þessar ástæður og sagði innanríkisráðherra landsins, Inger Støjberg, að yfirvöld vilji ekki gera Danmörku að eftirsóknarverðum áfangastað. Lög sem samþykkt voru í danska þinginu þann 26. janúar, meðal annarra af svokölluðum jafnaðarmönnum, ala á sundrungu í dönsku samfélagi. Dönum er gert ljóst að flóttamenn séu byrði á samfélaginu og að allt verði gert til þess að hindra komu þeirra til landsins. Eignir umfram 10 þúsund danskar krónur gerðar upptækar, fjölskyldum gert að bíða í þrjú ár áður en þær geti sameinast og fyrsti viðkomustaður eftir langan tíma á flótta er hráslagalegar tjaldbúðir.
Ég vona, og mun gera allt sem í mínu valdi stendur, til að íslenskir jafnaðarmenn tryggi öryggi, reisn og aðlögun flóttamanna á Íslandi. Sendum skilaboð um að Ísland sé opið og víðsýnt samfélag, byggt á frelsi, jafnrétti og samstöðu.
Höfundur er fulltrúi í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar.