Það vakti mikla athygli í gærkvöldi þegar Jón Ingi Gíslason, formaður kjördæmasambands framsóknarfélaga í Reykjavík, gagnrýndi TiSA-viðræður Íslendinga harðlega í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar sagði hann m.a. „Er gjörsamlega í sjokki. Var að koma af fundi um gerð TISA samnings sem embættismenn Utanríkisráðuneytisins vinna nú að í mikilli leynd. Svo virðist sem þeir hafi fengið stöðuhækkun eftir ICESAVE þátttöku sína með Svavari Gestssyni til þessarar samningagerðar. Þessar viðræður verður að stöðva af hálfu Íslands og það strax.“
Jón Ingi, sem einnig er þekktur fyrir bardagahanaræktun í Dóminíska lýðveldinu, hefur verið mjög fyrirferðamikill í skipulagi þeirra kosningasigra sem Framsóknarflokkurinn hefur unnið í þingkosningunum 2013 og sveitastjórnarkosningunum ári síðar. Jón Ingi er auk þess eitilharður stuðningsmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins.
Gagnrýnin hans er athyglisverð í ljósi þess að TiSA-viðræðurnar eru á ábyrgð utanríkisráðuneytisins og þar af leiðandi Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra og þingmanns Framsóknarflokksins. Líklegt er talið að TiSA-samningurinn gæti verið undirritaður á þessu ári og Gunnar Bragi myndi gera það fyrir hönd Íslands.
Styr hefur staðið um Gunnar Braga innan flokks vegna staðfestu hans gagnvart stuðningi Íslands við viðskiptaþvinganir gegn Rússum, þrátt fyrir að áhrifamikil íslensk sjávarútvegsfyrirtæki tapi peningum vegna þeirra. Gunnar Bragi sagði í viðtali við DV skömmu fyrir jól að málið væri það erfiðasta sem hann hefði tekist á við í embætti. Hann hefði aldrei upplifað neitt í líkingu við þann þrýsting sem hann var beittur í málinu. „Þetta er umdeilt innan flokksins[Framsóknarflokksins][...]Það eru vissulega aðilar innan flokksins sem hafa ekki verið hrifnir af þessu.“
Því má vel velta fyrir sér hvort að gagnrýni áhrifafólks innan Framsóknarflokksins á TiSA-viðræðurnar séu skref í þeirri vegferð að grafa undan Gunnari Braga í aðdraganda undirbúnings flokksins fyrir næstu kosningar, í ljósi þeirrar óánægju sem ríkt hefur innan Framsóknarflokksins með frammistöðu hans sem utanríkisráðherra.