Almenningur verður að átta sig á að nú stendur yfir harðasta atlaga að íslensku réttarkerfi sem nokkurn tímann hefur verið lagt í. Lögfræðingum, fjölmiðlum og almannatenglum er beitt óspart til að sparka í stoðir þess kerfis í þeirri von að það hrikti í þeim svo að hinir dæmdu fái uppreist æru og þeir sem eru enn í ákæruferli sleppi við það ömurlega hlutskipti að vera refsað.
Þeirra skilaboð eru einföld: það eru ekki alvöru lög sem dæma bankamenn og fylgitungl þeirra í fangelsi.
Umfjöllun í Fréttablaðinu gerir dómara vanhæfan
Í gær var greint frá því að Jón Ásgeir Jóhannesson, sem oft leggur mikið á sig við að segjast ekki vera eigandi Fréttablaðsins, hefði látið leggja fram bókun við fyrirtöku Aurum-málsins, þar sem hann er ákærður fyrir stórfelld efnahagsbrot. Bókunin er þess efnis að einn dómari málsins, Símon Sigvaldason, eigi að víkja við meðferð málsins.
Ástæðan: Jón Ásgeir efast um óhlutdrægni Símonar vegna þess að haustið 2014 fjallaði Fréttablaðið um fyrirtækið Rannsóknir og greiningu, sem er í eigu Ingu Dóru Sigfúsdóttur, eiginkonu Símonar. Í þeim fréttum var sagt frá því að fyrirtækið hefði fengið yfir 50 milljónir króna frá hinu opinbera, í gegnum samning við menntamálaráðuneytið, til að vinna að rannsóknum á högum ungs fólks og þær fjárveitingar gerðar tortryggilegar. Inga Dóra, sem er prófessor við Háskólann í Reykjavík og Columbia háskólann í New York, svaraði umfjöllun Fréttablaðsins í aðsendri grein í október sama ár.
Þess má geta að Inga Dóra fékk tveggja milljóna evra rannsóknarstyrk, um 285 milljónir króna, frá Evrópusambandinu fyrir ári síðan vegna rannsóknar sinna á högum ungs fólks. Hún er einungis annar Íslendingurinn sem hlýtur slíkan styrk, sem var líkt við Nóbelsverðlaun.
Jón Ásgeir telur að draga megi óhlutdrægni Símonar í sinn garð í efa vegna þess að Fréttablaðið, sem er að stærstum hluta í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs, hafi flutt fréttir af félagi Ingu Dóru. „Fréttirnar snérust um að fyrirtækið hefði notið óeðlilegs aðgangs að opinberu fé auk þess sem ekki hefði verið rétt staðið að úthlutun arðs úr félaginu,“ segir í bókun lögmanns hans.
Neitar ítrekað afskiptum en er ítrekað uppvís að þeim
Nokkrar spurningar vakna við þessa tilraun Jóns Ásgeirs til að losna við tiltekinn dómara úr Aurum-málinu. Í fyrsta lagi er hún í fullkominni andstöðu við opinberar yfirlýsingar Jóns Ásgeirs um afskipti sín af ritstjórnum fjölmiðlafyrirtækisins 365, en Fréttablaðið er vitaskuld einn þeirra. Snemma árs 2013 sagði hann við Eyjuna: „Ég hef aldrei haft afskipti af ritstjórn miðla 365. Bæði ritstjórnir Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis eru sjálfstæðar og þola hvorki afskipti mín, stjórnar 365 miðla ehf. eða annarra starfsmanna félagsins.“
Ef Jón Ásgeir stýrir ekki fréttaflutningi Fréttablaðsins, líkt og hann heldur fram, þá ætti Símon Sigvaldason væntanlega ekki að hafa neina ástæðu til þess að vera honum reiður. Það er jú sjálfstæð ritstjórn sem starfar á blaðinu, samkvæmt Jóni Ásgeiri.
Fyrir okkur sem vitum betur en að Jón Ásgeir reyni ekkert að skipta sér af ritstjórn miðla sinna, líkt og hann hefur margsýnt virðist þetta hreint ótrúleg tilraun hjá honum til að hafa áhrif á réttarkerfið. Ef röksæmdarfærsla Jóns Ásgeirs um að fréttaflutningur í Fréttablaðinu um einhvern sem tengist dómara verður tekin gild þá getur Jón Ásgeir einfaldlega beitt áhrifum sínum innan fjölmiðlafyrirtækisins sem hann á ekki, en stýrir augljóslega, til að fréttir verði skrifaðar um viðkomandi þannig að vanhæfi skapist. Fyrir þá sem efast enn um að Jón Ásgeir geti komið hverju sem hann vill inn í Fréttablaðið er bent á að lesa átta síðna aukablað sem gefið var út um ákærurnar í Baugsmálinu sem birt var fyrir rúmum áratug. Við hvern ákærulið eru hengdar athugasemdir sakborninga þar sem þeir segja þá vera tóma steypu.
Vélin mallar
Í bókun Gests Jónssonar, lögmanns Jóns Ásgeirs, þar sem farið er fram á að Símoni verði víkið frá, er einnig vísað í ummæli sem dómarinn lét falla í viðtali við Síðdegisútvarp Rásar 2 þann 8. desember síðastliðinn. Þar var Símon að ræða um kynferðisbrot og dóma í þeim málum sem formaður dómstólaráðs. Rætt var um að mikill þrýstingur hefði verið á þyngri refsingar í kynferðisbrotamálum og Símon sagði að það hefði átt þátt í því að refsingar í málunum hefðu þyngst á síðustu árum. „Það er alveg ábyggilegt að þar hefur viðhorf almennings haft áhrif. Við megum ekki gleyma því að dómstólarnir eru sprottnir upp úr okkar eigin samfélagi og eiga að endurspegla viðhorf okkar til málefna líðandi stundar. Dómararnir koma úr því sama umhverfi. Það er mjög eðlilegt að dómarar endurspegli samfélagsvitundina.“
Hin vel fjármagnaða og áhrifaríka vél sem mallar í kringum þann hóp manna sem ákærður hefur verið vegna hrunmála, og í sumum tilfellum dæmdur, greip þessi ummæli á lofti og snéri þeim samstundis upp í að dómar í hrunmálum hefðu fallið til að sefa múgsefjun samfélags sem viti ekkert um bankamál.
Faðir Magnúsar Guðmundssonar, sem hefur verið dæmdur í samtals sex ára fangelsi vegna tveggja mála, skrifaði grein í Morgunblaðið nokkrum dögum síðar þar sem hann dró þá ályktun að Símon, sem var einn héraðsdómara sem dæmdi í báðum málum Magnúsar, hefði haft almenningsálitið að leiðarljósi þegar sonur hans var dæmdur. Hæstiréttur hefur staðfest annan umrædda dóma yfir Magnúsi.
Þann 8. janúar síðastliðinn skrifaði Jónas Sigurgeirsson, sem var upplýsingafulltrúi Kaupþings fyrir hrun en rekur nú bókaútgáfu, grein í Fréttablaðið þar sem hann gerir orð Símonar í viðtalinu að umtalsefni, ásamt öðru. Þar sagði hann að ummæli Símonar „ættu að öllu jöfnu að hringja viðvörunarbjöllum en fanga í raun einkar vel þá stemmningu sem hér hefur ríkt.“
Þorvaldur Lúðvik Sigurjónsson, sem var dæmdur í 18 mánaða fangelsi í Stím-málinu svokallaða, skrifaði grein í Fréttablaðið daginn eftir, þann 9. janúar, þar sem hann setti fram sömu gagnrýni á orð Símonar, en hann dæmdi einnig í Stím-málinu.
Sverrir Ólafsson, bróðir Ólafs Ólafssonar, sem afplánar nú þungan dóm vegna Al Thani-málsins, og fyrrum meðdómari í Aurum-málinu, skrifaði síðan grein í Morgunblaðið í byrjun vikunnar þar sem hann gagnrýnir Símon Sigvaldason harðlega. Þar sagði hann að ummæli Símonar hafi vakið undrun margra, þau séu ótrúleg og „setja, ásamt nýlegum dómsuppsögum dómarans, stórt spurningamerki við hæfi Símonar Sigvaldasonar til að taka hlutlausa, ígrundaða og málefnalega afstöðu til jafn mikilvægra mála og bankamálin eru.“ Vert er að taka fram að sýknudómur héraðsdóms í Aurum-málinu var ógiltur vegna vanhæfis Sverris, þar sem ekki hafi legið fyrir vitneskja um að hann væri bróðir Ólafs Ólafssonar.
Og nú eru orð Símonar í viðtalinu fræga orðin hluti af kröfu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar um að Símon víki í Aurum-málinu. Í bókun lögmanns Jóns Ásgeirs segir: „Skjólstæðingur minn telur sig eiga rétt á dómi byggðum á birtum lögum en ekki óskilgreindri þjóðfélagsvitund þar sem handvaldi dómarinn situr.“
Varla nýmæli
Þegar rætt er við lögmenn þá kemur fljótt í ljós að þau orð sem Símon lét falla eru varla nýmæli. Sigurður Líndal, sem var prófessor við lagadeild Háskóla Íslands frá 1972 til 2001, höfundur fjölmargra rita sem kennd eru í íslenskri lögfræði og líklega virtasti lögmaður landsins, skrifaði til að mynda um sambærilega hluti í bókinni Um lög og lögfræði, þar sem skýrð eru grundvallaratriði í gildandi lögskipan þjóðfélagsins með megináherslu á helstu réttarheimildir. Hún er kennslubók í almennri lögfræði hérlendis. Þar segir: „Þannig getur réttlætisvitund og siðgæðisviðhorf sem ríkjandi eru í þjóðfélagi og lífsskoðun þess sem lög túlkar, til dæmis dómara, ráðið því hvernig regla er endanlega mótuð. Þótt dómstólar taki mið af ríkjandi gildismati þegnanna felst engan veginn í því að þeir láti stjórnast af skyndiupphlaupum eða múgsefjun á þeim vettvangi.“
Annað dæmi má finna í grein Sigríðar Ingvarsdóttur héraðsdómara, í Tímariti lögræðinga árið 2000 sem ber heitið Rökstuðningur dómsúrlausna. Þar segir m.a. : „Hér er einnig rétt að hafa í huga að margt annað en lagareglur, venjur og lögmál rökfræðinnar getur haft áhrif á það hvernig dómari rökstyður niðurstöðu í dómsmáli. Má þar t.d. nefna almenn viðhorf til dómstóla og væntingar sem til þeirra eru gerðar vegna stöðu þeirra í stjórnskipaninni eða af öðrum ástæðum. Þannig geta aðstæður í þjóðfélaginu, tíðarandinn og þjóðfélagsþróunin haft áhrif á það hvernig dómari hagar rökstuðningi.“
Nú taka fjölmiðlarnir við
Öllum meðulum er beitt í þeirri atlögu að stoðum réttarríkisins sem stendur yfir. Atlagan hefur aldrei verið harðari en eftir þá þungu dóma Hæstaréttar sem fallið hafa undanfarið ár.
Það finnum við blaðamenn sannarlega og reglulega. En nýjasta útspil Jóns Ásgeirs, þar sem hann beinlínis notar fjölmiðil sem hann/konan hans eiga til að hafa áhrif á skipan dómara í máli gegn honum, á að hringja aðvörunarbjöllum.
Það er nefnilega ljóst, líkt og ritstjóri Fréttablaðsins boðaði í leiðara sem hún skrifaði um Aurum-mál Jóns Ásgeirs í apríl 2015, að fjölmiðlarnir hafa sannarlega tekið við. Þeir taka ekki einungis þátt í vegferð þeirra sem hafa verið dæmdir eða verða það mögulega í framsetningu frétta og skoðanaskrifum. Nú má nota fréttaskrif miðla 365 til að koma frá dómurum sem Jóni Ásgeiri líst ekki á.