Íslensk stjórnvöld ákváðu að búa til þriggja manna nefnd, sem metur hæfi 38 umsækjenda um starf skrifstofustjóra í atvinnuvegaráðuneytinu. Á meðal þeirra eru margir reynslumiklir einstaklingar sem hafa mikið fram að færa í starfið.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipar hæfisnefndina en Baldur Guðlaugsson leiðir hana. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Helga Hlín Hákonardóttir lögfræðingur eru einnig í nefndinni.
Baldur hefur tekið út refsinguna sem hann fékk fyrir stórfelld innherjabrot sín, sem hann framdi sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu fyrir hrun, þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum fyrir um 192 milljónir króna, á sama tíma og hann bjó yfir upplýsingum um fallvalta stöðu bankans, starfs síns vegna. Brot hans eru án fordæma í íslenskri réttarsögu, og íslenskri stjórnsýslu.
Þeir sem vitnuðu gegn Baldri fyrir dómi voru meðal annars nánir samstarfsmenn hans í stjórnsýslunni.
Allir eiga rétt á öðru tækifæri, og Baldur er í þeim hópi. Íslenskt atvinnulíf hefur tekið honum opnum örmum, því hann fékk fljótlega eftir að hann var dæmdur, verkefni og síðan starf hjá Lex lögmannsstofu.
Skipan í nefnd eins og þá, sem metur hæfi umsækjenda, þyrfti að vera eins vönduð og óumdeild og hugsast getur, ekki síst til að sýna umsækjendum þá virðingu sem þeir eiga skilið í ferli sem þessu. Um er að ræða krefjandi starf, sem öðru fremur byggir á trausti og nánu samstarfi við stjórnmálamenn, óháð flokksskírteini þeirra.
Umsækjendur geta með réttu dregið í efa að hæfisnefndin sé hæf, vegna þess að formaðurinn sem leiðir nefndina hefur gerst freklega brotlegur við lög í starfi sínu sem ráðuneytisstjóri. Hvers vegna ætti hann að vera best til þess fallinn að meta hæfni umsækjenda? Er enginn betri en hann í þetta verkefni?
Spurningar eins og þessar eru sjálfsagðar og eðlilegar, alveg óháð því að Baldur skuli vera kominn til lögfræðistarfa á ný eftir að hafa tekið út sína refsingu, sem er hið besta mál.