Hinn 15. febrúar 2009 mætti Árni Guðmundsson heimspekingur í sjónvarpsþáttinn Silfur Egils, sem Egill Helgason stýrði, og ræddi þar um mikilvægi þess að endurreisa traust á fjármálakerfinu.
Hann talaði fyrir útfærðri hugmynd um hvernig ætti að gera grein fyrir afskriftum skulda í fjármálakerfinu sem var endurreist á grunni innlendrar starfsemi gamla kerfisins, sem féll dagana 7. til 9. október 2008, eins og alkunna er.
Vel útfærð hugmynd
Hugmyndin var í stuttu máli svona:
Gagnagrunnur um skuldaafskriftir.
Ástæða hugmyndar: Verja jafnræði og endurvekja traust á helstu viðskiptabönkum þessa lands.
Megininntak: Búinn verði til gagnagrunnur þar sem komi fram upplýsingar um:
(1) heildarfjárhæð afskrifaðara skulda hvers fyrirtækis í ISK
(2) hlutfall afskrifaðara skulda af heildarskuldum
(3) hlutfall af hlutafé sem ríkið eða fjármálastofnanir þess yfirtaka í viðkomandi fyrirtæki vegna afskriftanna
(4) eignarhald á viðkomandi fyrirtæki fyrir og eftir afskriftir
(5) ákvörðun afskrifta skuldanna þ.e. af hverjum er hún tekin og hvers vegna
Framkvæmdarleg skilyrði: Nauðsynlegt er að þessar upplýsingar séu
A ) skráðar í grunninn um leið og ákvörðun hefur verið tekin um afskrift skulda og
B) öllum aðgengilegar til þess að eftirlitið eða aðhaldið með athöfninni nýtist sem best.
Markmið hugmyndarinnar var að skapa grunn að fjármálakerfi sem hefði jafnræði að leiðarljósi, við úrlausn mála.
Fjármálaeftirlitið hafði tök á því að búa til gagnagrunn sem þennan, þar sem nöfn allra fyrirtækja og félaga kæmu fram sem fengu skuldir afskrifaðar, og forsendur fyrir ákvörðun um afskrift, en ákvað að gera það ekki.
Fjármálakerfi ríkisins (almennings)
Nú blasir við ný staða í fjármálakerfinu. Stjórnarflokkarnir eru bak við tjöldin að takast á um það, hvernig hið nýja fjármálakerfi á að vera, en íslenska ríkið er nú eigandi að 80 prósent af allri grunn fjármálaþjónustu landsins. Ríkið á Landsbankann (98 prósent), Íslandsbanka (100 prósent), Byggðastofnun (100 prósent), Íbúðalánasjóð (100 prósent) og LÍN (100 prósent). Ríkið á 13 prósent í Arion banka en bankinn er nú í söluferli.
Vitað er að Framsóknarflokkurinn vill gjörbreyta um stefnu þegar kemur að
fjármálaþjónustu, og er það samþykkt stefna flokksins að reka Landsbankann
samkvæmt hugmyndum um samfélagsbanka. Mikill vilji er innan flokksins um að
breyta fjármálakerfinu í grundvallaratriðum, en nákvæmlega útfærð stefna liggur
þó ekki fyrir. Ekki er ólíklegt að flokkurinn leggi spilin á borðið á næstunni,
enda styttist í kosningar.
Innan Sjálfstæðisflokksins er frekar horft til þess að endurskipuleggja kerfið
hóflega mikið, og fá einkaréttarlegt eignarhald á fjármálafyrirtækjunum í meira
mæli. Þetta ætti ekki að koma á óvart, í ljósi stefnu flokksins, en líkt og í
tilfelli Framsóknarflokksins þá liggja ekki fyrir útfærðar tillögur um hvernig
fjármálakerfi þessi flokkar vilja í ljósi breytts veruleika.
Vilji er allt sem þarf
Áður hefur verið fjallað um möguleikana, sem ríkið hefur til að þess að endurskipuleggja fjármálakerfið – með það að leiðarljósi að aðskilja starfsemi sem nýtur ríkisábyrgðar og síðan starfsemi sem ekki ætti að njóta hennar – en að þessu sinni verður það ekki gert að aðalatriði. Fyrir liggur að stjórnvöld geta lagt grunninn að nýju fjármálakerfi ef vilji er til þess.
Hugmyndin sem Árni setti fram, og skilaði til fjármálaráðuneytisins, er gott dæmi um mikilvægt innlegg í vinnu
sem má ekki vanmeta eða vanrækja. Það er að skapa skilyrði fyrir trausti á fjármálakerfinu.
Líklega vita það fáir betur en íslenskir bankastarfsmenn að helsta vandamál
bankakerfisins hér á landi, er að það nýtur ekki nægilegs trausts, hvorki á
erlendum mörkuðum né á innanlandsmarkaði. Viðhorfskannanir hér á landi hafa endurtekið sýnt
þetta, og vaxtakjörin erlendis – sem eru lakari en gengur og gerist hjá flestum
erlendum fjármálafyrirtækjum – gefa svo vísbendingu um að fjármálakerfið mun
líklega fyrst og fremst vera að sinna íslenska hagkerfinu, ólíkt sem var fyrir
hrunið.
Í ljósi sögunnar er það ekki undarlegt.
Eignaumsýslan
Nú rúmlega sjö árum eftir að nýir bankar voru reistir, á grundvelli beitingu neyðarréttar ríkisins, þá mætti bæta við gagnagrunnshugmyndina frá Árna. Það er að lista nákvæmlega upp alla eignaumsýslu hinna endurreistu banka. Hvaða eignir hafa verið seldar, hvert söluandvirðið var, hver keypti þær og sérstaklega huga að því að flokka á milli þeirra eigna sem seldar voru í lokuðu söluferli til valinna fjárfesta – eins og tilfellið var með 31,2 prósent hlut Landsbankans í Borgun – og síðan þeirra eigna sem seldar voru í opnu söluferli. Allar eignir ætti að telja upp í þessu samhengi, fasteignir og hlutafé í fyrirtækjum þar á meðal.
Mikilvægt að ESÍ sé einnig undir
Að sjálfsögðu ætti síðan Eignasafn Seðlabanka Íslands að vera undir í þessari upptalningu, en þar hefur eignaumsýsla átt sér stað fyrir tugi milljarða á umliðnum árum þrátt fyrir að Umboðsmaður Alþingis telji vafa leika á því að stofnað hafi verið til félagsins með lögmætum hætti. Ábendingar óg úttektir Umboðsmanns hafa hingað til einkennst af vönduðum vinnubrögðum, svo full ástæða er til þess að taka marka á þeim. Svör Seðlabanka Íslands, við athugasemdum Umboðsmanns vegna stofnunar ESÍ, hafa hingað til verið léttvæg, svo vafalítið á eftir að heyrast meira frá bankanum um þessar athugasemdir Umboðsmanns.
Það skiptir máli að þetta sé til lykta leitt, enda á almenningur allir eignir sem ESÍ hefur verið að sýsla með - kröfur vegna veðlánaviðskipta Seðlabanka Íslands fyrir hrunið meðal annars, og nokkur hundruð fasteignir á almennum markaði, svo fátt eitt sé nefnt.