Á sjúkrahúsinu Vogi gætirðu rekist á mann á níræðisaldri í fyrstu meðferðinni sinni. Göngulagið ber vott um langvarandi þíamínskort vegna ofdrykkju en samt er maðurinn rétt að byrja að átta sig á hvert þeir stefna, hann og Bakkus. Þú sérð konu sem þú kannast við af forsíðum tímarita. Hún er háð verkjalyfjum og þegar læknisskammturinn dugar ekki leitar hún til dílera götunnar. Pelsklædd. Og drekkur kampavín ofan í lyfin. Öruggt er að þú hittir barn sem misnotar áfengi, kannabis og örvandi eftir efnum og aðstæðum, barn sem ólst upp í eymd og átti aldrei séns – nema það hafi alist upp í allsnægtum og björt framtíð brosað við. Á Vogi hittirðu fólk við dauðans dyr með brenndar brýr að baki. Flestir eru samt bara venjulegt fólk sem misst hefur fótanna um hríð. Kannski áttu eftir að horfast þar í augu við sjálfan þig einn góðan veðurdag?
Vissirðu að kennari barnsins þín gæti verið dagdrykkjumanneskja? Að gömlu, hljóðlátu hjónin í næstu íbúð eru alltaf rallhálf þegar líður á daginn? Að sá sem klippir þig eða sú sem nuddar gengur fyrir amfetamíni? Veistu hvað er í kaffikrús yfirmannsins eða brúsa einkaþjálfarans? Hefurðu grænan grun um hversu margir bílstjórar eru á einhverju, ekki bara á laugardagkvöldum heldur líka á miðvikudagsmorgnum?
Hvern einasta dag ársins eru meðferðarúrræði Íslands fullnýtt. Öll pláss hjá SÁÁ, Samhjálp, Krýsuvíkursamtökunum og Landspítalanum. Einhverjir ganga til sálfræðinga vegna drykkju eða fara í meðferðir erlendis og sumir taka út meðferðina í fangelsum. Á yfirfullum deildum allra spítala liggur fólk með alls kyns sjúkdóma sem er samt fyrst og fremst er að fást við ómeðhöndlaða fíkn. Neyðarmóttökur slysa og ofbeldis eru fullar af fórnarlömbum Bakkusar og á götum Reykjavíkur eru hátt í tvö hundruð manns heimilislausir, langflestir vegna misnotkunar á áfengi eða öðrum vímuefnum. Í kirkjugörðum hvílir fólk sem frekar hefði átt að velja að fara í meðferð.
En batasamfélagið er líka stórt. Í hverju krummaskuði hittast alkóhólistar í bata og nota heilandi aðferðir samtalsins til að halda sér edrú. Sama gildir um öflugt samfélag aðstandenda þar sem fólk finnur hvert annað í leit að bættri líðan. Við erum að tala um stóran hluta þjóðarinnar. Við erum að ræða dauðans alvörumál.
Og samt eru þeir til sem vilja bæta aðgengi að áfengi
Segjum að áfengi hafi enn ekki verið fundið upp. Einn daginn kemur maður til gosdrykkjaframleiðanda með uppskrift að drykk sem gerir alla glaða. „Frábært, seljum hann í fallegum flöskum,“ segir framleiðandinn en þar sem vökvinn er hugbreytandi þarf að rannsaka hann eins og hvert annað lyf áður en hann fer á markað. Fljótlega fara veikindi og óæskileg hegðun að gera vart við sig í rottubúrunum og sum dýrin sækja meira en eðlilegt þykir í gleðidrykkinn, sem endar með þjáningum og ótímabærum dauða. Sambærileg tilraun hefur staðið yfir í mannheimum í árþúsundir. Helstu rannsóknarniðurstöður eru þær að hluti mannkyns ræður ekki við neyslu á vínanda á meðan aðrir hafa ómælda gleði af ,,þrúgna gullnum tárum“ sem glóa, svo vitnað sé í nítjáundu aldar þjóðskáld sem hefði þurft að fara í meðferð til að heimurinn fengið notið hæfileika hans lengur. Í aldanna rás hafa ýmsar getgátur verið uppi um ástæður þess að nokkur stór prósentutala mannkyns þolir ekki áfengi en nú telja menn ástæðuna helst að finna í erfðamenginu.
Fyrir allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis liggur þessa dagana frumvarp um að leyfa sölu á bjór og léttum vínum í matvöruverslunum. Samþykki Alþingi það mun verulega kvarnast úr tiltrú minni á fulltrúalýðræðinu af því að mér fyndist einkennilegt að Alþingi samþykkti það sem kannanir sýna að hátt í sjö af hverjum tíu Íslendingum eru mótfallnir.
Reynsla og rannsóknir sýna að bætt aðgengi eykur áfengisneyslu. Ég veit ekki til að hið gagnstæða hafi nokkurn tíma verið sannað með vísindalegum hætti en þætti forvitnilegt að sjá þá skýrslu sé hún til. Meiri neysla þýðir aukið álag á félags- og heilbrigðiskerfi en nú er einmitt uppi hávær umræða um hvort heilbrigðiskerfi okkar þolir meira fjársvelti. Leikmanni eins og mér þætti óskiljanlegt að þing samþykkti lög sem vitað er að auka enn á vanda heilbrigðiskerfisins.
Andstaða þjóðarinnar eykst eftir því sem umræðunni vindur fram. Á vef Alþingis má lesa athugasemdir fólks og félagasamtaka við frumvarpinu og þar kemur í ljós að lýðheilsurök andstæðinga frumvarpsins vega þyngra í hugum fólks en viðskiptafrelsisrök frummælenda. Flestir vilja viðskiptafrelsi en það er dapurlegt að almenningur treystir viðskiptalífinu almennt illa en sér í lagi til að annast dreifingu á þeirri einkennilegu vöru sem er annars vegar ávandabindandi vímugjafi og hins vegar vandmeðfarin munaðarvara. Við viljum frelsi en við viljum ekki frelsi eingöngu frelsisins vegna heldur sættum okkur við höft og hömlur þegar nauðsyn krefur. Líklega eru Íslendingar til dæmis upp til hópa andvígir óheftri eign á skotvopnum og sjá samhengið á milli almennrar byssueignar og skotbardaga.
Rauðvínslegin vandamál
En sumum finnst hvorki hip og kúl né í takt við tímann að ríkið selji áfengi. Hvers vegna er ekki hægt að treysta okkur til að kaupa vín í búð eins og aðrir þjóðir ráða við, er spurt. En ráða aðrar þjóðir við það? Þótt áfengisvandi Íslendinga sé ærinn er hann lítill í samanburði við flestar aðrar vestrænar þjóðir. Vandinn er mestur þar sem víndrykkjuhefðin er lengst og íbúar rauðvínslegnastir. Dagdrykkjunni fylgja áfengistengdir sjúkdómar sem þekkjast vart á brennivínsbeltunum þar sem drykkja einkennist af túrum og fylliríum. Ekki skal ég verja drykkjumynstrið sem löngum hefur sett ljótan svip á samfélag okkar en vil aðeins nefna þá staðreynd að með aukinni dagdrykkju, oftast léttra drykkja, hefur tíðni áfengistengdra sjúkdóma aukist verulega hérlendis. Þess má geta að skilgreining á dagdrykkju er sú að áfengi sé smakkað fleiri daga vikunnar en færri. Kappsemin verður ekki af Íslendingum skafin og nú virðast þeir ætla að taka upp bæði drykkjumynstrin. Margir segjast nefnilega drekka flösku á dag en hrynja í það um helgar.
Að drekka bjór og léttvín getur verið alveg jafn góð leið til glötunar og að drekka brennivín eða neyta ólöglegra fíkniefna. Margir fíklar telja reyndar bjórinn versta óvininn af því að hann kemur í svo heppilegum umbúðum til falls. Maður ætlar kannski að fá sér einn hrímaðan og rankar við sér tíu árum síðar með sprautunál í ónýtri æð. Það er samfélaginu dýrt að hafa freistingar við hvert fótmál en hvers vegna ættum við að taka tillit til aumingjanna spyrja sumir og vissulega er réttmætt að velta því fyrir sér. En ef við kjósum samfélag án samfélagslegrar ábyrgðar hlýtur ábyrgðarleysið að ná til allra aumra og sjúkra, ekki aðeins þeirra áfengisaumu og -sjúku. Eins og við vitum mun það fyrr eða síðar líka ná til þeirra sem ekki vilja taka tillit til aumingjanna.
Það er ekki verið að tala um að banna áfengi
Líklega vildu fleiri þjóðir eiga Vínbúðina okkar ef fólk frétti um kosti þess fyrirkomulags sem við, ásamt fleiri norrænum þjóðum, vorum svo heppin að taka upp við sölu áfengra drykkja. Vínbúðin er stofnun með þjónustulund sem ár eftir ár skorar hæst allra fyrirtækja á ánægjuvog viðskiptamanna. Hún sinnir kröfuhörðum connoisseurum vel en sýnir um leið þeim ábyrgð sem leita stíft í vörur verslunarinnar en þola ekki inntöku þeirra. Raunar er það öfugsnúið að ríkið selji vöru sem getur verið þjóðinni hættuleg og líklega væri sala áfengis með öllum sínum aukaverkunum bönnuð ef varan væri nýlega uppfundin. En áfengi er ekki á útleið í fyrirsjáanlegri framtíð líkt og gæti gerst með annað ávandabinandi og lýðheilsuskaðlegt efni, tóbakið. Með fræðslu, forvörnum og skertu aðgengi er hugsanlega að takast að útrýma reykingum í okkar heimshluta og fæstir sakna tóbaksins, nema framleiðendurnir.
Munurinn á reykingum og drykkju er hins vegar sá að flestir sem reykja vilja hætta en flestir sem dreypa á gullnum veigum hljóta einungis af því ánægju en engan skaða. Íslenska þjóðin er samt blessunarlega enn á þeirri skoðun að það sé ekki endilega nauðsynlegt að vín sé til sölu alls staðar og alltaf. Í litlu sveitarfélagi sem ég þekki kusu íbúar að opna ekki áfengisútsölu. Meirihluta íbúa finnst greinilega ekki tiltökumál að keyra í klukkutíma eftir búsi. Veitingamennirnir hafa líklega hugsað um það við kjörkassann að það væri betri viðskiptahugmynd að selja ferðamönnum vín á börum en í búð og virku alkarnir vilja sko örugglega frekar útvega sér flöskurnar eftir öðrum leiðum en að láta nágrannana telja þær ofan í sig í kaupfélaginu. Íslensku þjóðinni virðist ekki finnast það nauðsynlegt að geta keypt hvítvínið á sunnudögum um leið og humarinn og þá er ekki laust við að maður spyrji hvað gengur ráðamönnum til að vilja eyðileggja kerfi sem um ríkir töluverð sátt.