Búvörusamningarnir sem ritað var undir við íslenska bændur á föstudag hafa valdið miklu uppnámi í íslensku samfélagi. Hagsmunasamtök verslunarinnar fóru af hjörunum yfir þeim og valdir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sömuleiðis. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa kallað þá glórulausa. Framsóknarmenn, með forsætisráðherrann Sigmund Davíð Gunnlaugsson fremstan í flokki, verja samninganna hins vegar út í ystu æsar, líkt og við var að búast.
Framsóknarflokkurinn er líka, að minnsta kosti í orði, afar áhugasamur um afnám verðtryggingar. Slík aðgerð var eitt stærsta kosningamál og –loforð flokksins fyrir síðustu kosningar og þingmenn hans eru sífellt að skrifa greinar og vekja athygli á málinu á þingi. Þegar fram fór sérstök umræða um afnám verðtryggingar í síðustu viku tók hins vegar einungis einn þingmaður Framsóknar, Willum Þór Þórsson, þátt í henni, en það er önnur saga.
Kjarninn beindi fyrirspurn til Sigmundar Davíðs um hvað felist í afnámi verðtryggingar að hans mati þann 18. janúar síðastliðinn. Henni hefur ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekanir.
Það er að minnsta kosti ljóst að algjört afnám verðtryggingar er ekki það sem var Sigurði Inga Jóhannssyni, varaformanni Framsóknarflokksins, efst í huga þegar hann ritaði undir búvörusamninganna nýju í lok síðustu viku. Í þeim segir nefnilega: „Árleg framlög samkvæmt samningi þessum miðast við forsendur fjárlaga fyrir árið 2016, en taka árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga. Ef þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs (meðaltal ársins) verður önnur en verðlagsforsendur fjárlaga á árinu, skal mismunurinn leiðréttur í fjárlögum næsta árs."
Með öðrum orðum eru nýir búvörusamningarnir, sem eiga að gilda í tíu ár, verðtryggðir.