Kristinn Dagur Gissurarson, sem situr í stjórn RÚV fyrir hönd Framsóknarflokksins, varð í gær uppvís að því að skipta sér að dagskrárvaldi RÚV með grófum hætti. Í viðtali við Útvarp Sögu náði Kristinn Dagur að koma því á framfæri að honum hugnaðist ekki að „klámsýning“ eins og atriði Reykjavíkurdætra í sjónvarpsþætti Gísla Marteins Baldurssonar á föstudag, að atriðið ætti ekki heima á ríkisfjölmiðli, að það væri með eindæmum að það hefði verið sýnt, að Gísli Marteinn hefði farið „út af sporinu“ með því að gera það og að það væri líka skrýtið að Gísli Marteinn væri yfir höfuð í sjónvarpi, þar sem hann hefði skoðanir sem rímuðu ekki við skoðanir Kristins Dags og sjónvarpsþáttarstjórnandinn dirfðist samt að opinbera þær. Að hans mati eiga starfsmenn sem „eru að vinna á fjölmiðli, tala nú ekki ríkisfjölmiðli[...]að gæta sín aðeins“.
Kristinn Dagur klykkti út með því að stjórn RÚV gæti ekki dregið Gísla Martein til ábyrgðar fyrir að sýna tónlistaratriði með ögrandi boðskap, eða fyrir að hafa pólitískar skoðanir, en hún gæti náttúrulega „rekið útvarpsstjórann“.
Kristinn Dagur lét ekki nægja að skipta sér að þætti Gísla Marteins og skoðunum hans heldur opinberaði líka þá skoðun sína að hann hefði oft látið „heyra á stjórnarfundum um að mér finnst RÚV á stundum um of ástunda það sem er kallað gulu pressu fréttamennsku“.
Hér að neðan má sjá atriði Reykjavíkurdætra hjá Gísla Marteini:
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kristinn Dagur verður uppvís að því að skipta sér með vítaverðum og grófum hætti að dagskrárefni RÚV eða stefnu fréttastofu fyrirtækisins. Í fyrrasumar lýsti hann yfir óánægju með fréttaflutning fréttastofu RÚV af fjárkúgunarmálinu svokallaða, þar sem tvær systur reyndu að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Hann sagði þá í Facebook-umræðu að hann vildi að málið yrði rætt á næsta fundi stjórnar RÚV og að fréttaflutningur fréttastofunnar hefði verið óvandaður.
Nú er það svo að stjórn RÚV hefur það hlutverk að bera ábyrgð á rekstri RÚV og að farið sé eftir lögum um Ríkisútvarpið. Í lögunum eru tilgreind ýmis hlutverk og skyldur RÚV sem stjórnin ræður síðan faglegan útvarpsstjóra til að sinna. Skilningur hefur verið á því innan stjórnar RÚV að þar eigi ekki að ræða einstaka dagskrárliði, almenna starfsmenn eða fréttamál sem fréttastofa RÚV hefur verið að fjalla um með formlegum hætti, enda fulltrúar stjórnmálaflokka, andlaga margra frétta fréttastofunnar, sem þar sitja. Kristinn Dagur, og reyndar fleiri fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, hafa hins vegar ítrekað gert slík mál að umtalefni á stjórnarfundum með óformlegum hætti, samkvæmt upplýsingum Bakherbergisins. Ofangreind upphlaup eru því ekki einsdæmi.
Þar sem Kristinn Dagur er fulltrúi Framsóknarflokksins í stjórn RÚV, og flokkurinn virðist ekki gera neinar athugasemdir við ítrekaða skoðanakúgun og hótanir hans í garð starfsmanna fyrirtækisins, þá verður að álykta sem svo að um sé að ræða atferli sem flokknum sé þóknanlegt. Og endurspegli þar með stefnu hans gagnvart RÚV. Að minnsta kosti gera forsvarsmenn flokksins engar tilraunir til að reka afskipti Kristins Dags ofan í hann eða draga skipun hans í stjórnina til baka.
Það er afstaða sem allir sem trúa á frjálsa fjölmiðlun, skoðanafrelsi og opið lýðræðislegt samfélag ættu að hafa áhyggjur af.