Það er ljósara en svo að færa þurfi fyrir því rök, að íslensk heilsugæsla stendur orðið illa undir nafni. Ég sem hér sit við lyklaborð er sjálf notandi heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og þekki vissulega best til þar. En það sem ég heyri frá landsbyggðinni hljómar ekki mikið betur. Í þetta atriði ætla ég því ekki að eyða púðri, heldur gefa mér þá forsendu að hér er vandi og hér þarf breytingar.
Um langt árabil hefur verið þrýstingur á aukna einkavæðingu til að leysa hnút heilsugæslunnar. Sá þrýstingur kemur líklega fyrst og fremst frá faghópi lækna. Læknar í heilsugæslu eru velflestir sérmenntaðir í heimilislækningum – þeir eru semsé sérfræðingar. Þeir bera kjör sín og atvinnutækifæri saman við kjör annarra sérfræðinga í sinni stétt og finnst sinn hlutur heldur rýr: laun samkvæmt launatöflu opinberra starfsmanna. Býst ég við. Kannske einhverjar sporslur, en ekki tækifæri til neins stórgróða.
Því hafa lengi verið sterkar raddir þeirra á meðal að til þess að fá lækna til að starfa á sviðinu verði að veita þeim tækifæri til að stunda sjálfstæðan rekstur, með öðrum orðum að breyta rekstrinum úr opinberum í einkarekstur.
Einkavæðing. Orðið hefur þunga pólitíska þýðingu, afstaða til þess skiptir mönnum í andstæða hópa, það er eiginlega gildishlaðið. Fyrir suma hljómar það sem gull og gersemar, meðan aðrir fyllast ótta um hag sinn eða áhrif á samfélagið. Ég skal alveg viðurkenna það hér og nú: ég er félagshyggjumanneskja, bæði að uppruna og öll lífsreynsla mín hefur styrkt þá sýn. Því finnst mér heillavænlegra fyrir almenning að ýmis grunnþjónusta sé rekin af opinberum aðilum og starfsemin stjórnist þá vonandi fremur af þörfum fólks og almannaheill en gróðasjónarmiðum, hvort sem þar eiga í hlut læknar, ágætir samstarfsmenn mínir mestalla mína starfsævi, eða aðrir.
Ég er semsagt á móti einkavæðingu heilsugæslunnar. Svona almennt. En eiginlega liggur mér aðeins annað á hjarta, þó nátengt. Mig langar nefnilega að spyrja að því hvort, fyrst svona erfitt er að fá heilsugæslulækna til starfa, séu þá mögulega einhverjir aðrir sem geti innt störf þessi af hendi. Eiginlega er ég að skrifa þetta af því að ég er orðin úrkula vonar um að stéttarfélagið mitt, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, gangi fram fyrir skjöldu um þetta, að mínu mati, þjóðþrifamál.
Það er nefnilega til faghópur hjúkrunarfræðinga sem á enskri tungu nefnast „nurse practitioners“. Ef til vill mætti kalla slíkan fagmann lækningahjúkrunarfræðing. Óttalegt orðskrípi, en þau tíðkast nú breiðari spjót en það. Auglýsi hér með eftir liprari hugmyndum.
Þessi faghópur varð fyrst til í guðseiginlandi USA – af nákvæmlega sömu ástæðum og nú ríkja hér: það vantaði lækna í almenna þjónustu. Fyrst voru þessir hjúkrunarfræðingar eins konar framlenging læknisins, yfirleitt menntaðir með nokkurs konar „skemmri skírn“ hjá lækni (líkt og ljósmæður á Íslandi í eina tíð), og starfsemi þeirra var því sviplík störfum læknisins, bara ekki eins víðtæk. Forystumönnum bandarískra hjúkrunarfræðinga féll þetta illa. Þeir sögðu sem svo: við störfum eftir hugmyndafræði hjúkrunar, og hún er í mörgu ólík hugmyndafræði lækninga. (Nú skal ég játa að þessi munur er meira af sögulegum rótum runninn, öll verkaskipting hjúkrunar og lækninga er tilorðin út frá hefðbundnum kynjamismun fyrri tíma og í reynd ættu þessi störf að vera eitt og hið sama, með sínar sérgreinar og sameiginlega hugmyndafræði. En þó sérvitur sé get ég ekki skrúfað tímann aftur um nokkur hundruð ár og svona hafa hlutirnir þróast, hér erum við í dag). – Þetta varð til þess að starfið lækningahjúkrunarfræðingur þróaðist meira sjálfstætt hvað hugmyndafræði og ýmislegt verklag snerti, en hélt áfram að vera í framkvæmd þetta: hjúkrunarfræðingur sem einnig gerir margt af því sem samkvæmt hefð hefur verið á hendi lækna. Dæmi um slíkt er: að ávísa lyfjum, að panta rannsóknir og bregðast við niðurstöðu þeirra, almenn líkamsskoðun, viðtöl að sjálfsögðu og ýmislegt fleira.
Það hefur verið misjöfn útfærsla á þessu. Mér vitanlega er þó ævinlega læknir í bakhöndinni sem reglulega er leitað til um ráðgjöf og eftirlit með störfum lækningahjúkrunarfræðingsins. Ég hef ekki undir höndum tölur um fjölda né útbreiðslu þessarrar starfsstéttar, nema hvað ég þykist vita að örfáir íslenskir hjúkrunarfræðingar hafi þessa menntun, en eru auðvitað ekki að nýta hana í starfi. Námið er yfirleitt 2ja ára viðbótarnám, líkt og framhaldsmenntun til meistaranáms. „Nurse practitioners“ eru viðurkennd starfsstétt í Bandaríkjunum og Bretlandi og vafalaust töluvert víðar.
Ég sé ekki betur en að þetta sé – sagt á mæltu máli – algerlega gráupplagt. Peningarnir sem færu í að mennta hóp hjúkrunarfræðinga til að verða lækningahjúkrunarfræðingar eru litlir borið saman við ávinninginn. Hjúkrunarfræðingar tækju þessu náms- og starfstækifæri fagnandi, ég tel að undirbúningsmenntun og starfsreynsla þeirra myndi nýtast feikivel í heilsugæslu nútímans sem einkennist svo mjög af félagslegum og geðrænum vandamálum, en bæði menntun og hugmyndafræði hjúkrunar leggur mikla áherslu á samskipti og heildræna sýn – mun meiri en menntun lækna með fyllstu virðingu fyrir þeirri mikilvægu fagstétt. Því tel ég að notendurnir yrðu mjög ánægðir að fá þennan valkost.
Og læknarnir? Jú, þeir væru lausir undan þeirri byrði að þurfa að helga sig heilsugæslu og hafa ekki nógu góða aðstöðu til að koma sér upp eigin rekstri. Að sjálfsögðu yrðu áfram læknar í heilsugæslunni, mjög líklega bara svipað margir og eru þar núna. Svo, alveg í alvöru, er þetta ekki einmitt svona „allir vinna“ lausn?
Kannski væri að vísu enginn að græða neitt rosa mikla peninga. En erum við ekki líka öll á móti græðgisvæðingunni?
Höfundur er hjúkrunarfræðingur.