Í framhaldi af fyrri grein minni um Hvalfjarðargöngin er vert að minnast á tvo þætti til viðbótar sem vega jafnvel þyngra en þeir sem áður eru nefndir:
Afskriftir
Í aðdraganda framkvæmdanna var gert ráð fyrir að göngin afskrifuðust á svipaðan hátt og hafnarmannvirki. Höfundur sá minnisblað frá ríkisskattstjóra um að afskrifað skyldi um 8% á ári. Almenningur veit almennt ekki hvað það þýðir svo best er að útskýra það stuttlega. Einfaldaða útgáfan er sú að afskriftir í bókhaldi lækka tekjuskattstofn (þá upphæð sem tekjuskattur er reiknaður af) þrátt fyrir að fyrirtæki sé rekið þannig að innkoma dugi fyrir útgjöldum og gott betur. Vegna afskriftanna er því enginn tekjuskattur greiddur.
Í upphafi var afskriftahlutfall Spalar 4% á ári, en fyrst ekki er verið að afskrifa eins og í tilviki hafnarmannvirkja (hvergi er getið um jarðgöng), að þá nýtist þeim fyrningarhlutfall skattalaga 5.b.10:
,, Af eftirtöldum mannvirkjum skal árleg fyrning vera að lágmarki 3% en að hámarki 6% ... 10. Hvers konar öðrum mannvirkjum og húsum, notuðum til atvinnurekstar sem ekki eru talin annars staðar í þessari grein.“
Árið 2008 tók Spölur upp á því að lækka afskriftarhlutfall sitt verulega og var kominn með það niður í nærri því 1% ári síðar. Þetta er lægra hlutfall en skattalög kveða á um.
Þetta leiðir að sér að bókfærður hagnaður hefur aukist umtalsvert og núna á síðasta ári greiddi Spölur tekjuskatt uppá 52 milljónir. Miðað við þróun síðustu ára má búast við því að fyrir árin 2015-18 verði greiddar a.m.k. um 400 milljónir í tekjuskatt. Þennan skatt er bara hægt að greiða með innheimtu veggjalds og þar af leiðandi lengist enn sá tími sem innheimtan er við lýði.
Óeðlilegar fyrirgreiðslur til eins hluthafa
10 mars 2016 birtist á Kjarnanum grein eftir framkvæmdastjóra og formann stjórnar Spalar þar sem þeir viðurkenna að hafa farið inn á verksvið Vegagerðarinnar og borgað helming af 20 km vegi við opnun gangnanna - og árið 2002 aftur tekið á sig enn frekari kostnað sem tilheyrði Vegagerðinni.
Nú er hlutafé Vegagerðarinnar í Hvalfjarðargöngum tilkomið vegna rannsóknarframlags í aðdraganda byggingar gangnanna. Að Spölur hafi ekki gengið á hlutafé Vegagerðarinnar eða skuldfært þessi fjárútlát er eitthvað sem þarf að staldra við. Að ekki skuli hafa verið skuldajafnað á árunum þegar Vegagerðin sá um arðgreiðslur Spalar er líka rannsóknarefni út af fyrir sig.
Þetta hljóta að hafa verið umtalsverðar upphæðir og utan velsæmismarka að Spölur skuli hafa gefið einum hluthafa sínum þær á kostnað hinna sem eiga í félaginu.
Að lokum
Nú er höfundur hvorki lögfræðingur né endurskoðandi, en höfundur ekki séð hvernig aðrir hluthafar geti samþykkt fyrirliggjandi ársreikning eins og hann lítur út. Þess má að síðustu geta að aðalfundur Spalar verður næstkomandi þriðjudag, 15 mars, kl. 11:00.
Höfundur er hagfræðingur.