Eftir að hafa alið mestan minn aldur á Austurlandi, í einu helsta kjörlendi Framsóknarflokksins, þekki ég marga framsóknarmenn og sumir þeirra eru góðir vinir mínir. Þeir framsóknarmenn sem ég þekki eru almennt gott fólk sem vill samferðamönnum sínum og samfélaginu vel og margir þeirra starfa að samfélagsmálum í þeim anda. Og þó ég sé oft ósammála þeim og nálgun þeirra á ýmis mál og áherslur þeirra samrýmist ekki mínum hef ég ekki í samtölum við þetta ágæta fólk fundið ástæða til að draga virðingu þess fyrir réttaríkinu og lýðræðinu í efa. Mér þykir því vænt um næstum alla þá framsóknarmenn sem ég þekki. Og einmitt þess vegna finnst mér skrítið að Framsóknarflokkurinn skuli birtast mér sem fyrirbæri sem er allt annars eðlis en þeir framsóknarmenn sem ég þekki.
Það er eitt sem mér hefur jafnan þótt einkenna framsóknarmenn meira en aðra þá sem hafa yfirlýstar pólitískar skoðanir. Það er bjargföst foringjahollusta sem á ekki sinn líkan í öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum á síðari árum. Hollusta sem er í slíkum hæðum að það minnir á annarskonar stjórnarfar en það lýðræðisfyrirkomulag sem hefur verið við lýði á Íslandi. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað valdi þessu. Vegna þess hversu rótgróin og útbreidd þessi hollusta er virðist rökrétt að leita skýringarinnar í menningunni innan flokksins. Hana þekki ég ekki af eigin raun en sem áhorfandi og af samtölum við framsóknarmenn staldra ég við eitt atriði.
Þegar leiðtogar þurfa að þjappa sínu fólki að baki sér er utanaðkomandi ógn (raunveruleg eða tilbúin) eitthvað sem jafnan má treysta á. Bandaríkjaforsetar eru t.a.m. sjaldan vinsælli en þegar þeir fara í stríð. Því þá má krefjast skilyrðislauss stuðnings fólks og láta að því liggja að þeir sem ekki fylgi með í stuðningnum séu ekki trausts verðir. Séu jafnvel svikarar. En það er ekkert stríð á Íslandi og verður vonandi aldrei. En samt virðist vera hægt að finna ógn sem er nógu stór til að þjappa fólki svo þétt að baki forystufólki stjórnmálaflokks að undrum sætir.
Stjórnmálaumræða á Íslandi er á köflum óbilgjörn og maður þarf ekki að skima samfélagsmiðlana lengi til að rekast á rætin og jafnvel andstyggileg ummæli um fólk og flokka. Þetta er plagsiður sem því miður virðist fremur vera að eflast heldur en hitt. En hann beinist ekki bara að Framsóknarflokknum, þó að sá flokkur fái vissulega sinn skerf af ómálefnalegum gusum. Samstarfsflokkur Framsóknar í ríkisstjórn fær líka sitt og þeir flokkar sem mynduðu ríkisstjórnina þar á undan fengu yfir sig næsta samfelldar skammir og illyrði meðan þeir voru við völd – og fá enn þó þeir séu ekki lengur við stjórnvölin. Raunar þurfa stjórnmálahreyfingar á Íslandi ekki að komast í ríkisstjórn til að þurfa að búa við það að verða fyrir barðinu á þessum plagsið. En honum er þó oft að ósekju ruglað saman við gagnrýna umræðu sem er nauðsynleg fyrir viðhald og þróun lýðræðis.
Það sem skilur Framsóknarflokkinn frá öðrum í viðbrögðum við illyrðum í sinn garð er að forsvarsmenn þess flokks eru einir um að álíta þau vera ofsóknir og tala opinberlega á þann veg að engir aðrir þurfi að þola neitt sambærilegt. Það stenst auðvitað enga skoðun en samt virðast margir framsóknarmenn trúa þessu einlæglega. Og kannski er það ekki skrítið. Þessháttar orðræða er ekki ný komandi frá forystu Framsóknarflokksins. Hún hefur beitt þessu bragði oft og ítrekað í gegnum árin, að því er virðist í þeim tilgangi að styrkja eigin valdastöðu og þagga niður gagnrýni innanhúss. Og hvers vegna að hætta núna? Þetta hefur augljóslega virkað.
En það er komin upp fordæmalaus staða í íslenskum stjórnmálum. Forsætisráðherra hefur orðið opinber af dómgreindarbresti sem er á því stigi að ekki verður við unað og honum er ekki sætt í embætti. Þó mögulega hafi engin lög verið brotin er hagsmunaáreksturinn af þeirri stærð að lýðræðisfyrirkomulagið mun bera varanlegan skaða af sitji forsætisráðherrann áfram í embætti. Traustið sem þarf að ríkja er horfið.
Ég get skilið að vinir mínir og kunningjar sem eru framsóknarmenn séu hugsi þessa dagana. Jafnvel dálítið ráðvilltir. En það reynir á ykkur núna. Er hollustan við formanninn þess virði að setja fordæmi sem grefur undan lýðræðisfyrirkomulaginu og réttarríkinu og setur það í hættu einungis til að viðhalda valdastöðu formannsins? Hvað þið gerið eða gerið ekki á næstunni snýst ekki bara um trúverðugleika ykkar, valdastöðu eða framtíð flokksins ykkar. Málið er mun stærra en það.