Ein helsta meinsemdin á Íslandi er fólkið sem sér samfélagið í svarthvítu, þannig að það skiptist í „okkur“ og hina, þá sem eru með og þá sem eru á móti. Þetta fólk virðist sjá alla sem ýmist vinveitta eða óvinveitta, og heldur að allir hinir gangi erinda einhverra ákveðinna hópa.
Þetta fólk virðist eiga mjög erfitt með að skilja að stór hluti fólks hugsar bara alls ekki svona. Að stór hluti samfélagsins er óflokksbundið fólk sem heldur ekki með stjórnmálaflokkum eins og íþróttaliðum, tekur afstöðu eftir málefnum og vill sjá almannahagsmuni setta ofar sérhagsmunum.
Þessi svarthvíti hugsunarháttur er ein helsta ástæða þess að ekki þrífst upplýstari, gagnrýnni og betri samfélagsumræða en raun ber vitni á Íslandi.
Eina markmiðið að drepa máli á dreif
Eftir að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona forsætisráðherra, upplýsti (í kjölfar spurninga frá alþjóðlegum hópi fjölmiðla) að hún ætti félag erlendis til að halda utan um fé sitt hefur þessi meinsemd komið mjög skýrt fram. Í rauninni mátti samstundis sjá glitta í þetta með færslu Önnu Sigurlaugar á Facebook, þar sem orðræðan var á þann hátt að þeir sem töluðu um hana og félagið hennar væru Gróa á leiti sem bæri að gefa „smá frí“ og fara að tala um það sem „skiptir raunverulega máli“. Eins og allir þeir sem vildu skýrari svör og umræðu um þessa fordæmalausu stöðu sem upp var komin gerðu það af persónulegri illvild og lágum hvötum. Reyndar má alveg hafa í huga að vissulega voru einhverjir, meðal annars á þingi, sem féllu beint í gildruna og fóru að tala um forsætisráðherrahjónin sem hrægamma. Það var bæði óþarft og ósatt.
Það blasti hins vegar við frá upphafi að í færslu Önnu Sigurlaugar var ýmsum upplýsingum haldið eftir, eins og hvar félagið væri skráð og að það hefði átt háar kröfur í slitabú íslensku bankanna. Í kjölfar þess fylgdi augljóslega spurningin um það hvaða áhrif það hefði að maðurinn sem gerði kröfuhafa að einu helsta skammaryrði á Íslandi var ekki bara tengdur heldur giftur manneskju sem sannarlega var kröfuhafi. Því var það ekki bara eðlilegt heldur nauðsynlegt í aðstæðum sem þessum að fjölmiðlar sinni vinnu sinni, sem er að spyrja spurninga, velta upp öllum flötum mála og upplýsa lesendur, hlustendur og áhorfendur sína. Það gerðu nokkrir fjölmiðlar strax, sem betur fer.
Stjórnarandstaðan reyndi að særa Sigmund Davíð fram í ræðustól Alþingis til að tala um málið, án árangurs, en þegar loksins heyrðist frá honum í gegnum bloggsíðu kom í ljós nákvæmlega þessi hugsunarháttur. Að verið væri að ráðast á maka hans til þess að koma á hann höggi, persónulegu að sjálfsögðu.
Bæði fyrir og eftir þetta hafa svo óbreyttir þingmenn Framsóknarflokksins látið hafa sig út í blinda og veika vörn fyrir formanninn, nú síðast með einkennilegri bloggfærslu Karls Garðarssonar, þar sem þessi hugsunarháttur birtist mjög skýrt í tali um að fjölmiðlar sjái flokkinn hans sem óvin og séu í herferð gegn honum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann talar í þessa veru, en það breytir ekki staðreyndinni, sem er að flestir fjölmiðlar eiga hvorki vini né óvini. Það var líka hentugt fyrir hann, fyrrverandi fjölmiðlamanninn, að gleyma því að Ríkisútvarpið hafði greint frá því að reynt hefði verið að fá formann, varaformann og ritara flokksins til að tjá sig.
Allt hefur þetta einkennst af því að ekkert er rætt um þær spurningar sem raunverulega er verið að setja fram. Ekkert um það sem skiptir máli. Bara útúrsnúningar og fullyrðingar um persónulega óvild fólks og fjölmiðla í garð Sigmundar Davíðs og Framsóknarflokksins sem heildar.
Markmiðið með öllum þessum útúrsnúningum er eingöngu að drepa málinu á dreif til að þurfa ekki að takast á við þær grundvallarspurningar sem það vekur upp.
Alltaf sama sagan
Þetta er nefnilega ekki í fyrsta skipti á þessu kjörtímabili sem upp koma grundvallarspurningar um upplýsingaskyldu og hagsmunatengsl þeirra sem sitja í æðstu stjórnunarstöðum landsins. Málið sem nú er komið upp er þriðja málið á þriggja ára valdatíma þar sem sömu taktík virðist vera fylgt til að forðast aðalatriðin og óþægilegu spurningarnar.
Hanna Birna Kristjánsdóttir neitaði líka lengi vel að koma í fjölmiðla eða tala við þingið nema með útúrsnúningum þegar hún var að mála sig út í horn í lekamálinu. Illugi Gunnarsson neitaði mánuðum saman að svara eðlilegum spurningum fjölmiðla um Orku Energy, og sömu sögu var að segja í þinginu. Nú tjáir Sigmundur Davíð sig eingöngu í gegnum bloggsíðuna sína og hlær upp í opið geðið á fjölmiðlamönnum sem reyna að fá hann í viðtal.
Skyldi einhver hafa gleymt því þá á þetta fólk, ríkisstjórnin, að vera að vinna fyrir almenning í landinu. Það er því ósköp einfaldlega réttmæt krafa að þau svari spurningum fjölmiðla og Alþingis um þessi mál.
Það að fjölmiðlar sinni hlutverki sínu með því að fjalla um mál, sem greinilega eru óþægileg fyrir stjórnvöld í landinu, er ekki á nokkurn hátt merki um herferð. Það er þvert á móti heilbrigðismerki.
Það sem er ekki heilbrigt, og í rauninni fársjúkt, er pólitíska umræðan. Það er galið að ráðamenn komist upp með að svara hvorki þingi né þjóð í málum sem skipta máli og það er út í hött að stjórnmálamenn leyfi sér að snúa út úr og tala ekki um aðalatriðin, vera hluti af þeirri meinsemd sem skemmir almennilega umræðu. En á meðan svo er verða fjölmiðlar að halda áfram að veita þeim aðhald, sinna sínu hlutverki og stuðla að upplýstri og gagnrýnni umræðu.
Kjarninn
mun aldrei láta þrýsting af þessu tagi hafa áhrif á sig og mun eftir sem
áður hafa það eitt að leiðarljósi að upplýsa lesendur sína
um það sem skiptir máli, í þessu máli og öðrum.