Eftir að rannsóknarblaðamenn frá ICIJ og Reykjavík Media ehf., þar sem Jóhannes Kr. Kristjánsson er í forsvari, kölluðu fram opinberun á því að eiginkona forsætisráðherra geymdi sparnað upp á rúmlega milljarð króna í félagi á Bresku jómfrúareyjunum, sem er þekkt skattaskjól, þá hefur teiknast upp ný staða í íslenskum stjórnmálum. Forsætisráðherrahjónin skýrðu frá málinu eftir að blaðamennirnir voru komnir með upplýsingar í hendur um eignirnar og farnir að spyrja spurninga.
Gjáin blasir við
Það má líkja þessari nýju stöðu við gjá milli þings og
þjóðar, þar sem nú er upplýst – eftir frumkvæðisvinnu blaðamannanna – að forsætisráðherrahjónin
hafa sjálf geymt sparnað sinn í þekktu skattaskjóli á Bresku jómfrúareyjunum, á
meðan almenningur hefur verið innilokaður í fjármagnshöftum vegna laga sem
stjórnmálamenn samþykktu og lúta að fjármagnshöftum.
Með lögum frá því í nóvember 2008 hefur almenningi verið bannað að geyma
sparnað sinn erlendis, og eru meginrök þau að það sé hætta á því að gengi
krónunnar hrynji ef fólk færir peninga í of miklu mæli úr landi. Lögunum hefur
verið viðhaldið í sjö og hálft ár, og stendur til að reyna að losa um þau á
næstunni.
Listamaður er næmur á aðalatriðin
Gunnar Þórðarson tónlistarmaður, sem hefur speglað íslenska þjóðarsál í gegnum tónlist af stakri snilld í áratugi, veit hvað hann syngur, þegar hann minnist á það, að ráðamenn þjóðarinnar geymi peningana sína á Tortóla á meðan almenningur situr uppi með krónurnar sínar á Íslandi. Með þessu móti staðsetja stjórnmálamenn sig peningalega skör ofar en almenningur, og tala niður til hans.
Í þessum aðstæðum segir já-kór forsætisráðherra; en engin lög hafa verið brotin með þessu. Það kann að vera rétt, þó öll kurl séu ekki komin til grafar enn í þeim efnum, en siðferðilega er staðan til marks um elítuvæðingu stjórnmálanna, þar sem stjórnmálamenn horfa niður til fólksins. Það er óþolandi að forsætisráðherra hafi ekki upplýst um þessa stöðu á meðan hann var að rökræða í þinginu um Icesave og síðar slitabú föllnu bankanna.
Kröfulýsing félags eiginkonu hans í slitabúin upp á um 500 milljónir, á sama tíma og hann sjálfur og trúnaðarmenn hans voru að vinna að lausn á vandanum sem slitabúin sköpuðu fyrir hagkerfið, er alveg sér kapítuli og óþarft er að hafa mörg orð um, til viðbótar við það sem þegar hefur komið fram. Hagsmunaáreksturinn er alveg tær, hreinn og skýr. Skiptir þar engu hverjar lyktir málsins voru, og hvort forsætisráðherra eigni sér með húð og hári niðurstöðuna sem að lokum náðist fram, eftir að sérfræðingar úr mörgum áttum höfðu lagt nótt við dag í marga mánuði til að leysa úr vandanum og ekki síst; sætta ólík sjónarmið sem uppi voru.
Hann átti lítið undir sjálfur í Icesave
Í rökræðunum um Icesave, sem almenningur hafnaði að greiða í þjóðaratkvæðagreiðslum sem forseti Íslands leiddi fram, þá fjallaði Sigmundur Davíð réttilega um hættuna af því að krónan myndi hrynja, ef almenningur tæki á sig of miklar byrðar. Hann þurfti ekki sjálfur að hafa neinar áhyggjur, með fjölskyldusparnaðinn erlendis utan hafta í þekktu skattaskjóli, án þess að nokkur hafi vitað af því.
Ég greiddi sjálfur atkvæði gegn Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu, en var efins um hvað væri best að gera þegar Bucheit-samkomulagið kom fram, eins og eflaust margir. Hafði ekki neina sérfræðiþekkingu á málinu, en reyndi að setja mig inn í það eftir fremsta megni.
Greinaskrif Aðalsteins Jónassonar hrl. höfðu mikið að segja um mína afstöðu, en á móti komu skynsamleg sjónarmið með samkomulagi sömuleiðis, ekki síst eftir að Lee Bucheit kom að málum og Jóhannes Karl Sveinsson hrl. kynnti sjónarmið ásamt fleirum. Það var erfitt að átta sig á þessu, og það kom vafalítið ekki upp í hugann hjá mörgum Íslendingum að ætla mönnum eitthvað illt sem unnu að samkomulagi. Síður en svo, en stjórnmálamenn – ekki síst Sigmundur Davíð – hafa verið duglegir við að ata hvorn annan auri með gífuryrðum um hvað hefði mögulega gerst ef hitt og þetta hefði hugsanlega gengið eftir. Lægra verður ekki komist í pólitískri rökræðu, nema hugsanlega með því að halda leyndum persónulegum hagsmunum sínum á sama tíma og gífuryrðin hljóma ótt og títt.
Ríkisstjórnin fallvölt
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem hefur um margt staðið sig vel í endurreisnarstarfinu frá því hún tók við völdum 2013, eins og sú fyrri gerði einnig, er fallvölt eftir að staða forsætisráðherra skýrðist og fjarlægð hennar frá almenningi varð ljós.
Tíðindin af því að innanríkisráðherrann Ólöf Nordal og efnahags- og fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson hafi átt eignir í þekktum skattaskjólum eða tengst þeim beint, sem komu fram eftir frumkvæðisvinnu fyrrnefndra blaðamanna, eru önnur slæm tíðindi fyrir almenning. Þessir hagsmunir hefðu átt að vera uppi á borðum, og það er ótrúlegt til þess að hugsa að efnahags- og fjármálaráðherra, yfirráðherra skattrannsókna í landinu og alþjóðlegra samskipta sem þeim tengjast, skuli gerast sekur um þetta dómgreindarleysi.
Hann hefur ekki neinar afsakanir, og sérstaklega ekki að hann hafi ekki vitað að félag sem hann átti þriðjungshlut í, og var skráð í skattaskjólinu Seychelles-eyjum, hafi í reynd verið skráð þar en ekki í Lúxemborg. Þetta dregur verulega úr trúverðugleika hans sem ráðherra og stjórnmálamanns, enda er lágmark að maðurinn sem mesta ábyrgð ber á fjármálum íslenska ríkisins geti vitað grundvallaratriði um eigin fjárhag. Ef hann hefur ekki yfirsýn yfir eigin gjörðir í fjármálum af hverju ætti hann þá að hafa hana um fjármál ríkisins?
Slæm tíðindi
Bjarni hefur um margt haldið vel á spilunum, í starfi sínu sem ráðherra – oft í erfiðum línudansi í ágreiningsmálum ríkisstjórnarflokkanna – en þetta eru slæm tíðindi og eru auk þess þvert gegn alþjóðlegri baráttu við skattaskjól og baktjaldamakk fjármálakerfisins og stjórnmálanna. Ísland þekkir afleiðingar af slíku samkurli vel og því ætti að stíga enn varlegar til jarðar en í mörgum öðrum ríkjum. Einkum og sér í lagi vegna fjármagnshaftanna sem stjórnmálamenn settu á almenning.„Það eiga allir að skila sínu til sameiginlegs rekstrar samfélagsins. Langflestir fylgja þessari sjálfsögðu reglu. Ég mun láta einskis ófreistað til að ná til hinna, sem fara á svig við lög og reglur og vilja fá frítt far með samborgurum sínum sem halda uppi lífsgæðunum á Íslandi,“ sagði Bjarni í yfirlýsingu í gær, og vonandi er hann að meina þetta. Hann verður að muna að þetta snýst alls ekki bara um skattana, heldur líka um höftin. Almenningur býr við höft og getur ekki verið með erlendan sparnað.
Stjórnmálamenn sem sýna tvöfalt siðgæði með því að halda fé sínu leynilega í skattaskjólum, utan „vinnu“ á Íslandi, á meðan höft eru lögbundin – og ýmist vara við gengishruni eða hvetja fólk til fjárfestinga – eru á hálum ís, svo ekki sé meira sagt. Þeir tala þá niður til almennings, og gefa jafnvel ekki upp alla persónulega hagsmuni sína á sama tíma. Sem er eins og salt í sár vantrausts hjá þjóðinni.