Það er ótrúleg staða uppi á Íslandi. Forsætisráðherra
þjóðarinnar hóf daginn á því að lýsa því yfir að tilvera ríkisstjórnarinnar
héngi ekki á bláþræði. Nokkrum klukkutímum síðar reyndi hann að sækja sér umboð til
að rjúfa þing án þess að ræða við eigin þingflokk. Án þess að ræða við
samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn. Eða svo segir forseti þjóðarinnar að minnsta
kosti. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir hann ljúga.
Ástæðan: Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki styðja hann áfram í embætti í ljósi þess að hann er fullkomlega rúinn öllu trausti vegna hagsmunaárekstra, blekkinga, lyga, óheiðarlegra árása á fjölmiðla og hræðilegra áhrifa ákvarðana hans á orðstír Íslands á alþjóðavettvangi. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, staðfesti þennan skilning í viðtölum í dag þegar hann sagði Sigmund Davíð hefði boðið sér tvo kosti á fundi í morgun, annað hvort óskoraðan stuðning við sig sem áframhaldandi forsætisráðherra eða þingrof. Þingrofsheimildina hafi Sigmundur Davíð sótt til að „veifa framan í sig“.
Sigmundur Davíð virtist vera nánast eini maðurinn á Íslandi sem áttaði sig ekki á því í morgun að hann gæti ekki verið áfram forsætisráðherra. Að sú staða sem er uppi á Íslandi, og dró um 20 þúsund manns á Austurvöll í gær, er honum að kenna, engum öðrum. Hún er afleiðing gjörða hans. Í stað þess að sýna auðmýkt gagnvart því reyndi hann stanslaust að finna aðra sökudólga fyrir sínu sjálfskaparvíti. Og hefur alls ekki beðist afsökunar á öðru en að hafa komið illa fyrir í viðtali.
Sigmundur Davíð ætlaði að vaða áfram. Þar til að aðrir settu honum stólinn fyrir dyrnar.
Óskoraði leiðtoginn
Það er í raun ekkert nýtt að Sigmundur Davíð leiki einleiki. Frá því að hann steig inn í stjórnmál árið 2009, og bjargaði Framsóknarflokknum, hefur hann sniðið flokkinn algjörlega að sér og sínum hugðarefnum. Stefnuskrá Framsóknar árið 2009 er gjörólík því sem hún er í dag. Í raun eins og svart og hvítt. Eftir mikinn kosningasigur árið 2013 komu margir nýir þingmenn Framsóknar inn á þing sem tileinkuðu sér strax gagnrýnislausa hlýðni við formanninn. Leiðtoga sinn.
Sigmundur Davíð hefur nýtt sér þessa stöðu til að gera það sem hann vill í stóli forsætisráðherra. Hann hefur teygt sig inn á starfssvið annarra fagráðherra á hátt sem hefur ekki þekkst, til að mynda með skipulagsblæti sínu gagnvart veru flugvallar í Vatnsmýri, færslu nýs Landsspítala og uppbyggingu á Hafnartorgi. Allt voru þetta mál sem heyrðu undir önnur ráðuneyti en hans. Hann hefur einnig farið út með upplýsingar um viðkvæm mál á tímum sem hann mátti alls ekki gera það. Það var til að mynda mjög skýrt þegar hann opinberaði hugmyndir um stöðugleikaskatt á flokksþingi Framsóknarflokksins fyrir ári. Það var gert án vitundar og vilja allra annarra sem komu að haftalosunarmálum, líka Sjálfstæðisflokksins.
Og það er ekkert leyndarmál að mörgum sjálfstæðisþingmönnum, meira að segja sumum ráðherrum flokksins, er meinilla við hvernig Sigmundur Davíð hefur valið að stjórna og haga sér almennt. Þeir hafa umborið hann, en ekki stutt.
Verður skuggaforsætisráðherra
Þess vegna er sú lausn sem verið er að bjóða upp á vart boðleg. Að ríkisstjórnin haldi áfram með nýjan ökumann, hvort sem það verður Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson eða jafnvel forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson. Hún er vart boðleg vegna þess að Sigmundur Davíð verður áfram formaður Framsóknarflokksins og þingmaður. Hann verður áfram fyrirferðamikill í aftursæti ríkisstjórnarbílsins og mun skipta sér beint af hverri beygju sem tekin verður. Sigmundur Davíð hættir sem forsætisráðherra, en verður þess í stað skuggaforsætisráðherra. Það gæti meira að segja hentað honum enn betur því þá getur hann deilt og drottnað, en látið aðra flokksmenn sína bera ábyrgð á ákvörðunum sínum út á við.
Og lausnin er líka hönnuð til að halda pólitísku lífi í Sigmundi Davíð. Hann getur þá í vari undirbúið að leiða Framsóknarflokkinn inn í næstu kosningar. Eftir sem áður mun þetta allt saman snúast um hann. Leiðtogann. Ofurmanninn.
Traustið á íslensk stjórnmál hefur verið verulega laskað frá hruni. Nú er það farið. Það er ýmsum að kenna, en stærsta sök ber Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Áframhaldandi þátttaka hans í ríkisstjórn, þótt hún verði óbein úr aftursætinu, mun ekki gera neitt til að laga það með neinum hætti. Sjálfstæðisflokkurinn verður að vera læs á þá stöðu ef Framsóknarflokkurinn er það ekki í áframhaldandi meðvirkniskasti sínu. Ríkisstjórnarsamstarf við flokk þar sem Sigmundur Davíð er enn formaður getur ekki verið valkostur. Íslensk stjórnmál geta ekki lengur ákvarðast af því sem hann vill og/eða heimtar. Hann er vandamálið, ekki hluti af lausninni. Síðustu dagar og vikur hafa sýnt það svo skýrt.