Ef allt er eðlilegt þá er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson búinn að vera sem forsætisráðherra. Þó það virki kannski ekki sem mesta gagnrýni sem hann getur fengið, þá segir það mikla sögu, þegar forystumenn í Framsóknarflokknum í hans eigin kjördæmi, nánar tiltekið á Akureyri, segja hann hafa brotið trúnað við flokksmenn og eigi að víkja.
Ofan á allt annað, þá segir þetta til um það, að innsti pólitíski kjarninn í kringum Sigmund Davíð er byrjaður að molna niður. Ekkert annað kemur til greina en að hann muni hætta sem forsætisráðherra, en ómögulegt er að segja til um hvað um gerast í framhaldinu.
Í ljósi veikrar og vandræðalegrar stöðu Bjarna Benediktssonar, þar sem hann er sjálfur tengdur aflandsfélagi og Panamaskjölunum, þá verður forvitnilegt að sjá hvað mun gerast í hinu dínamíska pólitíska landslagi.
Samfylkingin er í tætlum, svo til. Það má ekki gleyma því, að sá flokkurinn hefur enga burði til að taka við forystuhlutverki um þessar mundir, og ekkert bendir heldur til þess að fólk vilji það heldur. Augum beinast að Pírötum, í ljósi þess að flokkurinn mælist nú með meira en 36 prósent fylgi. En stjórnarflokkarnir þurfa fyrst að komast að samkomulagi um hvernig er best að haga málum.
Krafan um kosningar hið fyrsta er hávær. Það verður að teljast líklegt að nú fari af staða valdatafl þar sem reyna mun á klókindi stjórnmálamanna.
Sigmundur Davíð hefur bara einn leik í stöðunni, sem er að hætta sem forsætisráðherra eins og fljótt og auðið er, en næstu leikir þar á eftir eru bæði fjölmargir í stöðunni og óljóst hvernig mál munu þróast.
Ef svo ólíklega vildi til, að Sigmundur Davíð myndi sitja sem fastast, þá myndi það líklega skapa enn meiri deilur í samfélaginu, fjöldamótmæli fólks úr öllum stéttum og flokkum yrðu regluleg, og heimspressan myndi sjá sér hag í því að koma sér hér fyrir.
Nýtt upphaf á stjórnmálasviðinu virðist vera að byggjast upp, en hverjir verða í lykilhlutverkunum er alveg óráðið.