Kæri Sigmundur,
Þetta er opið bréf frá okkur til þín.
Það skiptir engu máli að konan þín sé moldrík. Hún mætti eiga peningageymi í anda Jóakims Aðalandar uppá Esjunni án þess að það skipti máli. Staðsetningin væru að vísu skrítin en fólk sem veit ekki aura sinna tal gerir oft sérkennilega hluti. Við vitum allir að auðæfi ykkar hjóna eru ekki ástæðan fyrir því að fólk kallar eftir afsögn þinni og þú ættir að hætta að stilla þeim upp sem aðalatriði í þessu máli. Hagsmunir hjóna eru ekki klipptir í sundur með lagagerningum. Þetta veistu vel, þó svo að þú reynir að halda öðru fram.
Það má líka vel vera að þú hafir náð frábærum árangri í samningum við kröfuhafa föllnu bankanna. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að þú varst bullandi vanhæfur í því máli. Jafnvel þó svo að þú hefðir náð bestu samningum í heimi varstu samt vanhæfur. Það er engin leið til að spinna þetta öðruvísi. Við vitum það allir. Þeir sem hafa hagsmuna að gæta beggja vegna samningaborðsins eru vanhæfir, ef ekki í lagalegum skilningi, þá í siðferðilegum. Punktur.
Það skiptir líka litlu máli að þú skulir halda því fram
allir skattir hafi verið greiddir af þessum auðæfum. Það er auðvitað engin leið
að staðfesta það heldur, enda er það tilgangur skattaskjóla að leyna eignum og
komast hjá skattgreiðslum—og varla hægt að ætlast til þess af fólki að taka
einungis þín orð fyrir því, þegar traust á þér sjálfum liggur undir.
Málið snýst um allt aðra hluti og tilraunir til að halda því fram að Tortóla sé
ekki skattaskjól eru í besta falli vandræðalegar. Þetta veistu allt, enda
temmilega klár náungi, og það gerir þig óheiðarlegan í allri framkomu í þessu
máli. Þú hlýtur að sjá að þú hefur vondan málstað að verja og nú er mál að
linni.
Þau atriði sem skipta máli eru frekar einföld og skýr þegar öllu er á botninn hvolft:
1. Augljósir hagsmunaárekstrar: Það er ekki heiðarlegt að leika tveimur skjöldum og íslenskir kjósendur hefðu með réttu átt að fá að vita hvernig þú varst flæktur inn í málefni föllnu bankanna áður en þeir kusu þig. Það er svo bíræfinn hagsmunaárekstur að manni fallast bara hendur.
2.
Besti gjaldmiðill í heimi: Þú hefur verið óþreytandi í
að verja krónuna og verðtrygginguna, og meira að segja gengið svo langt að
kalla krónuna sterkasta gjaldmiðil í heimi. Þú hefur talað um að það skipti
máli að „trúa á Ísland“ og komst í veg fyrir að þjóðin gæti greitt atkvæði um
aðild að Evrópusambandinu.
Það skýtur því svolítið skökku við að þú kjósir að geyma sparifé þitt, og það
engar smá upphæðir, í erlendum gjaldeyri í skattaskjóli utan
gjaldeyrishaftanna, meðan almenningur þarf að notast við krónu í höftum. Þetta
er í besta falli algjör hræsni og tvískinnungur—og skuldar þú þjóðinni í að
minnsta afsökunarbeiðni fyrir þetta.
3.
Þú laugst blákalt: Í viðtalinu í Kastljósi í gær
laugstu upp í opið geðið á fréttamanni sænska ríkissjónvarpsins í þrígang.
Fyrst neitaðirðu að hafa nokkurn tíma haft nokkur tengsl við aflandsfélög, því
næst þóttistu ekki vita nákvæmlega hvaða félag Wintris væri og hvernig þú
tengdist því og loks þóttistu ekkert kannast við það að hafa selt konunni þinni
þinn hlut í félaginu.
Síðan viðtalið var tekið upp hefurðu haft þrjár vikur til að leiðrétta lygina
og biðjast afsökunar og reyna að bjarga þeirri litlu æru sem þú áttir eftir. Í
staðinn hefurðu djöflast áfram eins og naut í flagi, beitt félögum þínum fyrir
þig og dregið allan flokkinn og ríkisstjórnina niður með þér. Þú hefur meira að
segja logið því í viðtali við fréttakonu Stöðvar tvö að þú hafir ekki logið og
þrætt fyrir það með veikum útúrsnúningum í ræðustól Alþingis.
Fyrir þetta allt ættirðu að segja af þér. Við getum einfaldlega ekki haft
óheiðarlegan mann á stóli forsætisráðherra.
4.
Málið hefur skaðað orðspor Íslands: Almennt er það
litið mjög alvarlegum augum í öðrum löndum að kjörnir fulltrúar eigi fé falið í
skattaskjólum og er okkur nú skipað á bekk með glæpamönnum og leiðtogum
gjörspilltra landa í heimspressunni og er það félagsskapur sem við viljum ekki
láta kenna okkur við.
Þessi umfjöllun skaðar orðspor og hagsmuni Íslands og þó að þér kunni að
finnast það ósanngjarnt og allt byggt á misskilningi, þá skiptir það engu máli.
Hagsmunir Íslands eiga að vega þyngra en þínir persónulegu hagsmunir—og það eru
ekki hagsmunir Íslands að það sé almennt talið að forsætisráðherrann sé
gjörspilltur bófi og lygari.
5.
Málið dregur úr trausti í samfélaginu: Af þessum
ástæðum sem við höfum áður rakið, þá nýtur þú ekki lengur trausts sem
forsætisráðherra. Það er mjög alvarlegt, því þegar ríkisstjórn situr sem fólk
lítur ekki á séu fulltrúar þess, þá grefur það undan trausti á stofnunum
samfélagsins og lögmæti ríkissstjórnar þinnar, ekki í lagalegum skilningi,
heldur heimspekilegum.
Það er mjög skaðlegt fyrir lýðræðið og ástæðan fyrir því að stjórnmálamenn í
löndum með sterka lýðræðishefð stíga til hliðar þegar þeir njóta ekki lengur
trausts, því embætti forsætisráðherra er stærra en nokkur manneskja.
Sýndu nú í verki að þú búir yfir nógu mikilli auðmýkt og og persónulegum styrk til að setja hagsmuni Íslands ofar þínum eigin og segðu af þér embætti. Þér er ekki stætt á öðru. Það gæti kannski bjargað þinni pólitísku arfleifð og mannorði líka.
Með kærri kveðju og umhyggju,
Ásgeir og Siggeir