Um 81 prósent þjóðarinnar, samkvæmt könnun Gallup, vill að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segi af sér sem forsætisráðherra, eftir að hafa verið afhjúpaður í Kastljósi þætti. Sigmundur Davíð hafði leynt því þingi og þjóð að hann ætti félag á Tortóla ásamt eiginkonu sinni, til 31. desember 2009, og að það hefði lýst kröfum í bú föllnu bankanna upp á um 500 milljónir króna.
Á sama tíma vann hann að lausn á málum er tengdust slitabúunum, ásamt sérfræðingum Seðlabanka Íslands, efnahags- og fjármálaráðuneytisins, auka annarra sem aðstoðuðu við málið. Hann kom beint að málinu, með lagasetningu og ýmsum öðrum hætti, eins og hann hefur raunar upplýst um sjálfur margs sinnis. Óumdeilt er að þessi hagsmunaárekstur átti sér stað, en Alþingi hefur ekki ennþá hafið vinnu við að komast til botns í málinu, með það fyrir augum að endurheimta traust og læra af því. Málið er alþjóðlegt hneyksli, en það eitt að eiga mikla fjármuni á Tortóla, sem samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum er skilgreint sem lágskattasvæði og skattaskjól, þykir verið siðferðilega óverjandi, algjört hneyskli. Allir virtustu fjölmiðlar heimsins hafa greint frá málinu, og var það lengi aðalfrétt breska ríkisútvarpsins BBC í gær.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins mun vafalítið fá það verkefni að skoða málið ofan í kjölinn. Hún fékk mál, er varðaði fordæmalaus afskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, af lögreglurannsókn á eigin ráðuneyti, inn á sitt borð, eftir að Umboðsmaður Alþingis hafði skipulega leitt fram allan sannleikann um málið með beittum bréfasendingum til ráðherra, sem komst ekki undan því að svara, og afhjúpa sig í leiðinni. Þetta var að mörgu leyti mikilvæg vinna, en það sást samt glögglega hvað það getur verið erfitt fyrir Alþingi að horfa í eigin barm þegar augljós mistök verða.
Í því máli voru ekki beinir fjárhagslegir hagsmunir, upp á margfaldar ævitekjur venjulegs fólks, í húfi hjá ráðherranum, og vanhæfisástæður stjórnsýslulaganna í því samhengi ekki til skoðunar. Önnur mál koma einnig upp í hugann, eins og innherjaskilgreiningar ráðamanna á hverjum tíma, þegar viðkvæm mál eru til meðferðar hjá stjórnvöldum og sérfræðingum.
Nú reynir á að Alþingi sýni almenningi að það hefur raunverulegan vilja til þess að endurheimta traust. Íslendingar gera sér vel grein fyrir því, að neyðarlögin haustið 2008, hafa markað efnahagslega viðspyrnu landsins, enda eru þau með öllu fordæmalaus og hefði engin önnur þjóð geta komist upp með viðlíka aðgerð og við. Það sem bjargaði okkur var smæðin, og sjálfstæður seðlabanki og sjálfstæð mynt. Þetta var hægt, með öðrum orðum, vegna þess hversu mikil neyð hafði skapast, meðal annars vegna glæpsamlega lélegrar bankastarfsemi og afleitrar hagstjórnar. Við stóðum frammi fyrir því að beita neyðarrétti, og það hefur skiljanlega skipti miklu máli. Þetta er eins og að beita Wild Card í borðspili, og gjörsigra andstæðinginn í tapaðri stöðu.
Stjórnvöld - ekki aðeins núna heldur einnig á fyrsta kjörtímabilinu eftir hrunið - eiga að vera auðmjúk gagnvart þessum aðstæðum, og ekki slá sér á brjóst um of. Ennþá er viðvarandi vantraust á stofnunum samfélagsins, og þegar stjórnmálamenn gerast sekir um alþjóðlega skandala, eins og að geyma ríflega milljarð á Tortóla - án þess að segja nokkrum manni frá því - á sama tíma og flestir landsmenn eru innilokaðir í höftum með sinn sparnað, þá fer skiljanlega allt á hliðina.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er búinn sem stjórnmálamaður, eins og könnun Gallup gefur ágæta vísbendingu um. Skrípaleikurinn í gær, þar sem Sigmundur Davíð fullyrti í viðtali við vini sína á Bylgjunni að hann væri ekki að fara hætta og allt gengi vel, að morgni, en var svo nauðbeygður til að hætta sem ráðherra seinni partinn, er ekki til þess fallinn að auka tiltrú almennings á stjórnmálunum. Það er eins og „amatörar“ séu að störfum, sem vaða áfram án þess að vita nokkuð hvað þeir eru að gera. Tilsvör einkennast af hroka og því að kenna misskilningi um allt sem miður fer. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, áttaði sig vel á því að Sigmundur Davíð var að reyna að beita þingrofi sem vopni í pólitískri refskák við Sjálfstæðisflokkinn, og kippti fótunum strax undan honum.
Þegar Sigmundur Davíð verður alveg hættur, þegar hann hefur horfst í augu við eigin gjörðir, og jafnvel mætt síðendurtekið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, til að svara fyrir að gjörðir sínar og Tortóla-viðskipti - sem þökk sé afhjúpun og vinnu rannsóknarblaðamanna komst upp - þá mun Alþingi endurheimta traust. En ekkert annað kemur til greina, en að fara nákvæmlega í gegnum þessa vinnu, til að læra af henni. Best væri að gera það fyrir opnum tjöldum, í beinni útsendingu, þannig að almenningur gæti fylgst með hverju skrefi og lesið öll gögn sem máli skipta.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur verið í hópi þingmanna Framsóknarflokksins sem staðið hefur með Sigmundi Davíð í gegnum þann tíma sem orrahríðin hefur verið sem mest. Hann viðurkenndi á Facebook siðu sinni í gær, að Sigmundur Davíð hefði gerst sekur um mistök. „Sigmundur Davíð gerði þau mistök að tengjast félagi á Tortóla og einnig að upplýsa ekki um hagsmuni félagsins gagnvart slitabúum föllnu bankanna.“
Þetta er rétt hjá Frosta. Einfalt mál, klippt og skorið.
Nú reynir á að Alþingi gefist ekki upp, heldur fari ofan í málið, lið fyrir lið. Það skuldar almenningi það.