Ég eyddi drjúgum tíma í gær, þegar ég sótti strákana mína í skólann hér í New York, að ræða um íslensk stjórnmál við foreldra bekkjarfélaga þeirra. Þeir spurðu mikið, og sgðu það koma á óvart að forsætisráðherra Ísland hafi komið við sögu í umfjöllun um Panamaskjölin.
Fari þið norður í land
Ég varði nú Ísland alveg út í eitt, í samtölunum, og endaði á því að segja fólkinu að það þyrfti að heimsækja Norðausturlandið ef það kæmi til Íslands. Það væri alveg einstakt svæði. Ég enda yfirleitt á því, þegar Ísland ber á góma.
Tengslin er nóg
Að öllu gamni slepptu, þá er ekki hægt annað en að hafa miklar áhyggjur af orðspori Íslands erlendis, vegna þessarar umræðu og umfjöllunar sem farið hefur fram um tengsl íslenskra ráðamanna við aflandsfélög á lágskattasvæðum og skattaskjólum eins og Tortóla. Það eitt að tengjast félögum í gegnum eignarhald, beint eða óbeint, þykir hneyksli. Umfjöllunin í Bandaríkjunum, sem hefur ekki verið eins mikil og í Evrópu – þó eru aðalfréttir í gær og í dag á öllum stærstu miðlum landsins – hefur fyrst og fremst snúist um þessar útlínur málsins sem tengist Íslandi. Það er að ráðamenn á Íslandi hafi tengst félögum sem skráð voru á aflandseyjum, og að eiginkona forsætisráðherra hafi verið skráð fyrir félaginu Wintris á Tortóla.
Séríslenskar hliðar
Lítið er rætt um séríslenska hlið málsins, það er 500 milljóna króna kröfulýsingu félagsins í slitabú föllnu bankanna, sem síðan urðu að einu aðalviðfangsefni stjórnvalda, þegar kom að áætlun um afnám hafta. Og síðan höftin sjálf, það er að ráðamenn landsins eigi peningalegar eignir erlendis á meðan höft er lögfest á almenning, þar sem meginmarkmiðið er að koma í veg fyrir að fólk geti fært peninga sína úr landi.
Fræðimenn í Columbia steinhissa
Ég var að ræða um þetta í gæt við félaga minn hér úti frá Egyptalandi, sem er doktor í tölfræði og vinnur við Columbia-háskóla. Hann gerði grín að mér vegna þessa máls, og spurði hvort ég væri nokkuð með reikninga á Tortóla, og hló svo við, á meðan synir okkar bekkjarfélagarnir léku sér. Hann bætti við að málið hefði komið til umræðu í skólanum hjá honum í gær, og voru menn steinhissa á því að leiðtogi Íslands hefði verið með peninga í félagi á Tortóla. „Þetta eru smáaurar miðað við Mubarak,“ bætti hann svo við og hló.