Hér uppi á Íslandi hefur fólk komist af í gegnum aldirnar þótt veturinn sé langur og stríður og sumurin að vísu björt en oft köld og vætusöm. Fólk hefur komist af vegna þess að þrátt fyrir berangur og kulda hefur það fundið sér skjól, bæði í bæjum úr torfi og grjóti en svo auðvitað líka og umfram allt hvert hjá öðru. Til að komast af þarf meira en skjól fyrir veðri og vindum, það þarf líka skjól fyrir drunga vetrarins og fáfræðinni sem oft hefur er vágestur fátæktar og einangrunar. Í dag er víða skjól að fá. Þegar heilsunni hrakar leitum við skjóls á spítölum og heilsugæslu, þegar okkur er ógnað er lögreglan til taks, þegar slys eða náttúruvá ber að höndum eru almannavarnir á sínum stað. Svo leitum við skjóls fyrir næðingi heimskunnar í skólum, frá leikskólum og upp í háskóla. Svona skjól er það sem gera líf þess fólks sem hér býr að lífi í samfélagi. Án þess stæði hver einsamall á berangri.
En skjól er ekki bara eitthvað sem okkur býðst heldur verður að skapa það og endurskapa í sífellu. Skjól gera kröfur. Skólinn gerir kröfur um kennara, húsnæði, námsefni. Spítalinn líka, lögreglan, almannavarnir, vegagerðin, veðurstofan, ... Svona skjól gera kröfu um að við sem skjólsins njótum – við sem viljum heldur lifa í samfélagi en einsömul á berangri – leggjum okkar að mörkum.
Skjólið sem við búum við er búið til af sköttum. Þetta vita flestir og því borgum við flest skattana glöð í bragði. Við borgum þá glöð því við viljum heldur ferðast í gegnum lífið í félagsskap fólks – í samfélagi – heldur en ein á berangri. Við lítum líka flest svo á að þetta hafi ekki bara eitthvað með okkar þægindi og huggulegheit að gera, heldur komi það siðferðinu líka við. Það er ekki bara af eiginhagsmunasemi sem við leggjum samfélaginu lið, heldur einnig af skuldbindingu við siðferðileg gildi sem eru forsenda þess að við getum lifað með mannlegri reisn í samfélagi með öðrum.
Til eru þeir sem vilja skjólið, en vilja samt ekki leggja til þess af sanngirni. Slík afstaða kann að skapast af ofdekri eða sérgæsku: þegar fólk stendur í skjóli fyrir veðri og vindum, við góða heilsu og laust undan næðingi heimskunnar, er auðvelt að hugsa: „Hver er sjálfum sér næstur. Hér stend ég og hvað varðar mig um aðra.“ Þegar hugsanagangurinn er þessi birtast kröfurnar um að leggja skjólinu eitthvað til gagns sem ósanngjörn ásókn annarra. Og þá leita menn í skjól fyrir skjólinu: menn leita skjóls fyrir sköttum.
Þeir sem leita í skjól fyrir því skjóli sem samfélagið er, taka sér stöðu með útlaganum. Útlaginn getur ýmist verið afdalamaður sem sagt hefur skilið við mannlegt félag, eða glæpamaður sem býr í mannlegu samfélagi, reiðir sig á gögn þess og gæði, en neitar að leika eftir reglum þess. Hvorugur á neitt erindi á vettvang stjórnmálanna. Hinn fyrri sækist heldur ekki eftir því, sá síðari sækist eftir því, eins og dæmin sanna, og tekst það oft með skipulegum og yfirgripsmiklum blekkingum – með því að breyta stjórnmálunum í blekkingarleik.
Siðvæðing stjórnmála kallar ekki bara að sannleika, hún kallar líka á pólitískar dygðir eins og heiðarleika, sanngirni og auðmýkt. Ef stjórnmál eiga ekki að verða blekkingarleikur þá verða slíkar dygðir að hafa algeran forgang. Efnahagsleg afkoma þjóðarinnar er eitt af verkefnum stjórnmálanna en endurreisn sjálfra stjórnmálanna er ekki efnahagslegt verkefni. Það er siðferðilegt verkefni – verkefni sem aldrei lýkur.