Hingað til þá hef ég ekki tekið neinn beinan þátt í stjórnmálum. Ég mætti á Austurvöll þegar Búsáhaldabyltingin var en án þess að halda ræður, vera með afgerandi skilti eða koma í nein viðtöl til fjölmiðla. Ég var einungis þátttakandi í mótmælum með viðveru minni á Austurvelli. Líkt og margir aðrir í samfélaginu þá hef ég sterkar skoðanir á stjórnmálum og er óhræddur við að viðra þær skoðanir við samstarfsfélaga í umræðum á kaffistofum eða í vinnuskúrum. Núna, þegar fyrstu fréttir bárust af „gróusögum“ um eignir forsetisráðherrahjónanna þá var mér, eins og öðrum í samfélaginu, brugðið. Fjölmiðlar voru fljótir að taka umræðuna aftur til sín og snúa á facebookfærslu um „gróusögur“ sem átti ekki við neinn raunveruleika að styðjast. Ég, ásamt fyrrum skólasystkinum mínum, ræddum af miklum eldmóð þær fréttir sem bárust þegar forsætisráðherra neitaði að svara fyrir sögusagnir eða koma í viðtöl. Þá kom upp sú umræða hvort við ættum að setja af stað undirskriftasöfnun sem snéri að uppsögn Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra og senda út í gegnum facebook. Eftir umræður okkar á milli og hvatningar þá lét Lilja Magnúsdóttir, ein af þeim sem var í hópnum, verða af hugmyndinni. Undirskriftasöfnun fór af stað og byrjaði vel.
2. apríl voru komnar 15.251 undirskriftir og við vorum búin að fá boð frá blaðamönnum frá Þýskalandi og Frakklandi að þau hefðu áhuga á að hitta okkur og tala við okkur um undirskriftasöfnunina og ástandið í þjóðfélaginu almennt. Þetta var laugardagurinn fyrir Kastljósþáttinn fræga. Á sunnudeginum, þegar Kastljós var sýnt, þá sóttum við þau
Silke Bigalke frá Suddeutsche Zeitung og Jean Baptiste frá Le Monde. Þau komu til okkar í íslenska kjötsúpu ásamt því að horfa með okkur á Kastljós. Við vorum undirbúin að reyna að þýða þáttinn eftir bestu getu fyrir þau en sem betur fer þá fengu þau senda þýðingu frá yfirmönnum og við gátum einbeitt okkur af þættinum sem stóð svo sannarlega undir væntingum.
Eftir þáttinn þá sendum við boð á tengiliði okkar í Jæja hópnum um að fá að koma og taka þátt í skipulagningu og vinnu fyrir mótmæli sem var þá búið að boða til á Austurvelli þann 4. Apríl. Blaðamennirnir komu með og fannst þeim það frábært að fá að vera með í innsta koppi hjá íslenskum aðgerðarsinnum.
Þegar hópurinn hittist þá var farið að rigna inn undirskriftum og blaðamennirnir spurðu í sífellu hvort forsætisráðherra væri ekki búinn að segja af sér. Svo var samt ekki, við endurhlóðum helstu fréttasíðum fyrir þau á símunum okkar með mínútu millibili til að athuga hvort ekki væri komin fram afsögn, en ekkert gerðist. Undrun blaðamannana var gríðarleg, þau trúðu því varla að eftir allt sem komið var fram þá væri ekki komin afsögn úr starfi.
Daginn eftir þá tókum við þátt í mótmælunum þar sem bæði Lilja Magnúsdóttir og Ingunn Vilhjálmsdóttir fóru með ræður, ég var einn fjögurra sem sá um talningu inn á Austurvöll ásamt því að hjálpa til eftir bestu getu að setja upp svið og hljóðkerfi.
Mótmælin voru söguleg. Um 22.000 manns mættu á Austurvöll til að mótmæla sem gerir rúmlega 6,5% þjóðarinnar. Þvílík forréttindi að fá að taka þátt í slíkum mótmælum. Undirskriftirnar eru nú komnar yfir 30.000 en samt er varla hægt að tala um uppsögn úr starfi þar sem nýjustu fregnir segja að Sigmundur ætli bara að stíga til hliðar um tíma.
Enn hefur lítið þokast í baráttu almennings við að fá inn hreint borð stjórnmála. Bjarni situr enn, Ólöf situr enn og Sigmundur virðist ætla tímabundið að stíga til hliðar meðan hans hægri hönd tekur við. Það eru ekki breytingarnar sem 22.000 manns kröfðust síðastliðinn mánudag. Það dugir ekkert minna en að fá að stokka upp á nýtt og gefa aftur. Ef það svo gerist að þessir sömu menn fái endurkosningu þá fyrst hafa þeir umboð þjóðar til að halda áfram í ríkisstjórn, ekki fyrr.