Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar ætti að hafa aðeins eitt verkefni, eftir að upp komst um trúnaðarbrot Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gagnvart þingi og þjóð. Hann hélt leyndri tilvist félagsins Wintris Inc., á Tortóla, sem lýsti um 500 milljóna króna kröfu í bú föllnu bankanna þegar hann átti helming í félaginu fram að áramótum 2009, og lýsti kröfum í bú bankanna fyrir þann tíma. Eftir það var félagið séreign eiginkonu hans. Frá því hann var forsætisráðherra, árið 2013, hefur hann komið að vinnu sem snéri að slitabúunum og þeim mikla vanda sem þau sköpuðu fyrir hagkerfið. Hagsmunaáreksturinn er skýr. Hann er beggja vegna borðsins.
Afleiðingarnar eru þekktar: Sigmundur Davíð sagði af sér sem ráðherra, en situr enn sem þingmaður og formaður Framsóknarflokksins.
Trúnaðarbrotið til umfjöllunar
Á erlendum vettvangi hefur Ísland verið í sviðljósi um allan heim fyrir trúnaðarbrot forsætisráðherrans, og raunar einnig fyrir að það, að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafi átt eignir og verið tengdir félögum í alþjóðlega skilgreindum skattaskjólum. Hefur Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, einnig verið í sviðljósinu sérstaklega, og Ólöf Nordal, innanríkisráðherra einnig, þó þátturinn sem að henni snýr sé vegaminni en hjá þeim fyrrnefndu.Það er ekki víst að íslenskir stjórnmálamenn, einkum og sér í lagi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, átti sig á því hversu miklu tjóni þeir hafa valdið Íslandi með framgöngu sinni, en ímyndarvandinn og neikvæð umræða í erlendum fjölmiðlum er alfarið á ábyrgð ráðamanna. Ennþá hafa þeir ekki sett upplýsingar um fjármál sín upp á borð fyrir almenning. Á meðan það er ekki gert, þá munu þeir ekki geta byggt upp trúnað við almenning í landinu. Kannanir sýna glögglega að trúnaðarbresturinn teygir sig inn í flokksraðir ráðamanna og meirihluti landsmanna er beinlínis sleginn yfir þessu háttalagi.
Sýnið ábyrgð í verki
En þetta eina mál sem ríkisstjórn Sigurðar Inga ætti að beita sér fyrir, snýr að losun fjármagnshafta, aflandskrónuútboðinu og ramma um peningastefnuna í landinu til framtíðar litið. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, fjallaði um þessi mál í ræðu á ársfundi Samtaka atvinnulífsins, og skýrði þar frá því – með skýrum hætti – að þessari vinnu yrði að vera lokið áður en höft yrðu losuð. Vinnan er framkvæmd í gegnum löggjöf á Alþingi, og ramminn um peningastefnuna sömuleiðis.
Sá trúnaðarbrestur sem ráðamenn bera ábyrgð á er mikið hættuspil, og verður að teljast eitt mesta dómgreindarleysi sem stjórnmálamenn á Íslandi hafa sýnt af sér í seinni tíð. Íslendingar almennt átta sig á því að það er efnahagslegur upptaktur í þjóðfélaginu, og að neyðarlögin og fjármagnshöft hafi skapað möguleika á þeirri viðspyrnu sem nú hefur raungerst. Í stórum dráttum hafa hlutirnir gengið nokkuð vel í endurreisninni eftir hrunið, og mesta hrósið fyrir það á almenningur skilinn fyrir dugnað og útsjónarsemi við erfiðar aðstæður.
En upptakturinn er ekki afsökun fyrir Sigmund Davíð og Bjarna Benediktsson. Þeir hefðu átt að vita betur og hafa viðskiptaleg umsvif sín öll uppi á borðum frá fyrsta degi.
Samstaða
Ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan verða að sýna ábyrgð þegar kemur að losun hafta. Það er ekki hægt að bjóða almenningi upp á að það að klúðra þessu tækifæri til þess að marka veginn til framtíðar, vegna trúnaðarbrota ráðamanna.
Þeir geta gert það sem David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur nú gert sem er að horfast í augu við mistökin og birta allar upplýsingar um persónulegan fjárhag og viðskipti. Þrátt fyrir það ætlar breska þingið að fara ofan í málin með rannsókn, og pólitísk framtíð Cameron er nú dekkri en hún var fyrir afhjúpunina á tengslum hans við aflandsfélag föður síns og í fyrstu ósannar fullyrðingar hans um engin tengsl við aflandsfélög.
Opnar yfirheyrslur í þinginu
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur ekki enn boðað opnar yfirheyrslur yfir Sigmundi Davíð og öllum sem komu að haftalosunarferlinu í ljósi hins augljósa trúnaðarbrots hans. Hver vissi hvað hvenær? Þetta þarf almenningur að fá upplýsingar um, eftir allt sem á undan er gengið. En vonandi verður það skref stigið á næstu dögum, vikum og mánuðum. Ef Alþingi sýnir ekki gott fordæmi, til að læra af hagsmunaárekstri sem þessum, þá kann það ekki góðri lukku að stýra inn í framtíðina.
Nú reynir á að Alþingismenn nái saman um það, að sýna samstöðu – fyrir almenning – þegar kemur að haftalosuninni. Of mikið er í húfi, til að þeir geti eyðilagt ferlið með dómgreindarleysi sínu og siðferðisbresti.
Hreint borð
Augljóslega þurfa þeir, sem eru með laskaðan trúverðugleika – þar á meðal Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð – að gera hreint fyrir sínum dyrum með birtingu allra gagna um þeirra persónulega fjárhag og viðskipti, alveg frá árinu 2009. Annað er óboðlegt. Í raun þolir þetta enga bið, enda er ekki mikill tími til stefnu þegar kemur að losun hafta. Orðspor íslenskra stjórnmála erlendis er ekki einkamál ráðamanna núna, og þeir verða að skilja það, að skaðinn sem þeir hafa valdið erlendis er hugsanlega varanlegur. Ísland hefur aldrei fyrr verið dregið upp með alræmdum spilltum einræðisherrum og stjórnarherrum sem sæta viðskiptaþvingunum alþjóðastofnanna fyrir mannréttindabrot og stríðsrekstur. Þessi staða er svo alvarleg fyrir íslensk stjórnmál, að langan tíma mun taka að vinna úr henni.
Kosningar strax, virðist vera skýr og einföld leið til að
marka nýtt upphaf. En þetta er líka hættuspil, í ljósi þess sem er undir, og ekki
augljóst að kosningar strax verði til góðs. Ef stjórnmálamönnum tækist einu
sinni að slíðra sverðin, almenningi til heilla, og ná að framkvæma mikilvæga
aðgerð um losun hafta, þverpólitíkst, þá myndi það vinna gegn
trúverðugleikabrestinum sem þegar er orðinn. Eftir það virðist augljóst að kjósa.
Ráðamenn, einkum Sigmundur Davíð og
Bjarni – þó mál Sigmundar Davíðs sé bæði umfangsmeira og hagsmunaáreksturinn
augljósari – geta engum kennt um nema
þeim sjálfum. Þeir brugðust með trúnaðarbroti og dómgreindarleysi. Þeir hafa
niðurlægt Ísland á alþjóðavettvangi. Hættuspilið sem skapast, með
stjórnarkreppu ofan í lokahnykkinn í áætlun um losun hafta, er kjaftshögg frá
stjórnmálastéttinni framan í almenning. Nú reynir á að hún sýni ábyrgð, og taki
almannahagsmuni fram yfir sína hagsmuni.