Framundan eru tveir kosningaslagir. Fyrst um embætti forseta Íslands í júní og síðan í haust, á tíma sem ekki hefur verið ákveðinn ennþá, verður kosið til Alþingis.
Persónulegur öryggisventill
Spennandi tímar í lífi þjóðarinnar og lýðræðið í sinni tærustu mynd. Ólafur Ragnar gerði frambjóðendum lífið leitt með því að hætta við að hætta sem forseti, og sækist eftir endurkjöri. Þetta hefur eðlilega kippt stoðunum undan kosningabaráttunni hjá mörgum þeirra sem buðu sig fram, enda kynningastarf framboðsins tímafrekt, erfitt og dýrt. Þetta er hálfgerður forsendubrestur, í mörgum tilvikum.
Ólafur Ragnar hefur nú formlega skilgreint sjálfan sig sem lýðræðislegan öryggisventil þjóðarinnar. Hann virðist ekki treysta öðrum en honum sjálfum til að sinna því hlutverki. Það er það sem lesa má útúr rökum hans fyrir ákvörðuninni um að hætta við að hætta.
Að því leytinu til er eðlilegt skref hjá honum að bjóða sig fram á nýjan leik, sé litið til þessara röksemda. Um þessar röksemdir verður kosið í júní. Eins og nýjar kannanir sýna þá er Ólafur Ragnar sem sitjandi forseti með byr í seglum, og meirihluti landsmanna telur hann hafa staðið sig vel í þeirri atburðarás sem leiddi til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra og fór í leyfi frá þingstörfum.
Mér finnst það stundum gleymast í umræðu um hin ýmsu mál, ekki síst upp á síðkastið, að það er ekkert sjálfsagt að stjórnmálamenn eigi alltaf sviðið og telji sig, persónulega, hafa kerfislægt mikilvægi. Tuttugu ára forsetatíð Ólafs Ragnars, frá 1996 til 2016, hefur einkennst af miklum kollsteypum og óstöðugleika, bæði efnahagslega og pólitískt. Virðist öryggisventilshlutverk hans ekki hafa breyttu miklu þar um, þegar stóra myndin er skoðuð.
Efnahagsmál og persónuleg ábyrgð
Ég efast um að málin hefðu þróast öðruvísi í samtímasögunni ef einhver annar en Ólafur Ragnar hefði verið forseti. Hann hvatti til útrásar, vissulega, en gera má ráð fyrir að aðrir forsetar hefðu gert það líka. Þannig horfir staðan við mér, í það minnsta. Pólitískur þrýstingur að baki fífldjarfri, óábyrgri og lélegri bankastarfsemi var yfirgnæfandi, og ekki augljóst að aðrir einstaklingar hefðu hagað málflutningi sínum með öðrum hætti. Síðan er það sem eðlilegt er að spyrja að; hefði það skipt einhverju máli, ef forsetinn hefði talað með öðrum hætti eða ekki tekið þátt í útrásarævintýrum sem stuðningsmaður? Ég hugsa ekki, enda létu íslenskir athafnamenn - flestir karlar á fertugs- og fimmtugsaldri - viðvörunarraddir sem vind um eyru þjóta, og gripu yfirleitt til kröftugra varna og stundum ónota og dónaskaps, eins og reyndin var þegar einn virtasti þjóðhagfræðingur heimsins, Robert Aliber, kom hingað til lands og varaði sterklega við hruni fjármálakerfisins. Þessir menn voru eins og efnahagsleg gjöreyðingarvopn, og er sviðin skuldajörð eftir þá suma.
Þó nú séu að verða átta ár liðin frá hruni fjármálakerfisins, þá er það enn sárt og slæmt fyrir íslenskt samfélag, að enginn af þeim fáu Íslendingum sem hafði stöðu, yfirsýn og alþjóðleg tengsl, til þess að flytja viðvörunarorð með miklum þunga gagnvart rétta fólkinu, hafi gert það. Ólafur Ragnar kemur þar upp í hugann, enda óumdeilt að hann hefur yfirburðaþekkingu á alþjóðapólitísku og efnahagslegu gangverki.
Það komu vissulega fram viðvörunarorð, úr ýmsum áttum, en þá þurfa þau að ná eyrum rétta fólksins. Það gerðist ekki. Þetta má ekki gleymast, og stjórnmálamenn þurfa sérstaklega að hafa þetta bak við eyrað þegar þeir reyna að skapa traust á störfum þeirra á nýjan leik.
Hið óstöðuga efnahagsumhverfi hefur haft áhrif á stjórnmálalífið á Íslandi sem er með færri íbúa en Harlem hverfið í New York, en samt alveg sjálfstæða efnahagsstjórn, mynt og peningastefnu. Þetta virðist vera atriði, sem íslenskum stjórnmálamönnum þykir vænt um að geta haldið óbreyttu. Valdaþræðirnir verða kröftugri, og boðleiðir hagsmungæslumanna haldast stuttar. Þetta býður hættunni heim, alveg augljóslega, en þetta er hinn mjúki faðmur sem stjórnmálamenn telja bestan fyrir almenning. Nær engar rökræður eru um þetta nú þegar lokahnykkur í losun hafta nálgast, sem verður að teljast með nokkrum ólíkindum.
Spurningum ósvarað
Annað tengt hruninu: Eitt af því sem hafa ekki fengist skýr svör við ennþá, þrátt fyrir að mikið magn upplýsinga liggi fyrir um ástæður hrunsins, lögbrotin og siðleysið þar á meðal, snýr að erlendum lánveitendum. Það er hvernig það kom til, að Deutsche Bank og fleiri þýskir bankar og sparisjóðir lánuðu margfalda árlega landsframleiðslu Íslands til íslenskra aðila á innan við fimm ára tímabili í erlendum gjaldeyri. Hvernig datt þeim þetta í hug, og var það í fullri alvöru þannig að þessi fyrirtæki héldu að það kæmi allt til baka með vöxtum? Eða bjó eitthvað annað að baki? Bónusgreiðslur eða einhver veðmál jafnvel? Þegar stórt er spurt er fátt um svör.
Ég horfði á Björgólf Thor Björgólfsson, fjárfesti, kynna bók sína í hans gamla skóla, NYU, í nóvember í fyrra. Þar fór hann meðal annars yfir það sem fram kemur í bók hans, að hann og félög hans hafi verið þriðja stærsta skuldbinding Deutsche Bank á heimsvísu eftir hrunið. Það var hlegið í salnum þegar Björgólfur Thor lýsti þessu, með Matthew Bishop, ritstjóra alþjóðamála hjá The Economist, sér við hlið. Fólki virtist finnast þetta óskaplega ótrúlegt.
Þetta gefur vísbendingu um að þessar lánveitingar til Íslands og íslenskra aðila hafi ekki aðeins verið vitfirrtar heldur stórhættulegar landinu. Vonandi verður kafað betur ofan í þessi atriði þegar fram líða stundir. Það er full ástæða til.
Hlutir eins og þessir draga aftur fram í hvaða samhengi Ísland stendur.
Lítið og samofið
Þræðirnir liggja allir saman í minnsta mynthagkerfi heimsins. Þessu hefur fylgt óstöðugleiki sem náðst hefur að halda óvenjulega litlum undanfarin misseri á grundvelli neyðarréttar sem engin önnur þjóð hefur beitt í efnahagslegum erfiðleikum undanfarinna ára – ekki einu sinni verðbólgubælið Venesúela – og síðan fjármagnshöftum. Aðferðir Íslands eru ekki útflutningsvara fyrir aðrar þjóðir, enda varð að beita þessum meðölum í fordæmalausum aðstæðum. Sá kafli er ágætlega skrásettur og óþarfi að eyða mörgum orðum í að lýsa honum að þessu sinni.
Efnahagsóstjórnin var svo ævintýraleg að ekkert annað en allur þungi ríkisvaldsins gat bjargað því sem bjargað varð. Það eitt ætti að fá ýmsa til að velta fyrir sér í hvaða hugmyndafræðilega veruleika Ísland er komið, á pólitíska kvarða litið. Ríkisvaldið bjargaði Íslandi frá algjöru þroti. Það er í það minnsta staðreynd.
Vonandi ekki búnir að missa tengingu
Vonandi eru þessi atriði, það er neyðarrétturinn og höftin, ekki farin að birgja stjórnmálamönnum og elítunni í landinu sýn. Hvað sem líður sviðsljósi stjórnmálamanna þá mallar lífið áfram og almenningur heldur hjólum efnahagslífsins gangandi með vinnu sinni. Óþolið fyrir því að stjórnmálamenn í landinu geymi sparnaðinn í erlendum gjaldeyri erlendis, á meðan höft eru á almenning, er skiljanlegt og beinlínis rökrétt.
Vantraustið á stjórnmálamönnum og stjórnmálum, sem mælist í könnunum og sést á mótmælum sem Ólafur Ragnar horfði til við ákvörðun sína um að halda áfram, er á ábyrgð stjórnmálamanna. Þeir eiga alla sökina sjálfir og þurfa allir sem einn að velta því fyrir sér, hvort það geti verið að vantraustið sé hugsanlega tengt þeim persónulega. Það myndi þá hugsanlega lagast með nýju fólki, þó ekki sé hægt að fullyrða neitt um það.
Hvað er æskileg staða?
Nokkur efnahagsleg atriði blasa nú við, sem verða að teljast merkileg eftir það sem á undan er gengið. Þróun á alþjóðamörkuðum hefur verið Íslandi um margt hagstæð. Það var til dæmis gott fyrir Ísland að olíuframleiðsluríki hafi ekki náð saman um aðgerðir um að draga hratt úr olíuframleiðslu á fundi sínum í Doha um síðustu helgi. Það hefði leitt til verulegrar hækkunar olíuverðs, með tilheyrandi verðbólguáhrifum til hækkunar á Íslandi. Í staðinn er markaðsþróunin nokkuð eðlileg. Tunnan af hráolíu kostar nú um 40 Bandaríkjadali, en fór hæst í fyrra í 110 dali.
Staða Íslands í alþjóðlegu samhengi er áhugaverð um þessa mundir.
Nokkur atriði standa þar upp úr:
- Íslenska ríkið á um 80 prósent af
fjármálakerfinu. Ríflega 98 prósent í stærsta fyrirtæki landsins, sé horft til
eigin fjár, Landsbankanum. Eigið fé hans nemur rúmlega 260 milljörðum króna.
Íslandsbanka á ríkið að fullu, 13 prósent í Arion banka, og síðan LÍN,
Íbúðalánasjóð og Byggðastofnun. Auk smærri eignarhluta í sparisjóðakerfinu.
Lítil alþjóðleg fjármögnun í fjármálakerfinu, og fátt sem bendir til þess að
það muni aftur vaxta út fyrir landsteinanna. Þetta þýðir, að ef vilji er til
þess að þá getur íslenska ríkið endurskipulagt fjármálakerfið, ef vilji er til, og velt því upp hvernig megi gera það hagkvæmt fyrir neytendur
í landinu. Þetta er staðan sem núna blasir við: einstakt tækifæri til að skoða
þessu mál ofan í kjölinn og gera breytingar. Draga lærdóm af sögunni með beinum aðgerðum.
- Vegna þess hve vel tókst upp þegar leyst var úr
vanda slitabúanna, þá er skuldastaða ríkisins að batna hratt. Hún verður komin
niður fyrir 50 prósent af árlegri landsframleiðslu innan tólf mánaða, ef allt
gengur eftir. Það er góð staða og betri en tæplega 130 prósent, sem var reyndin
eftir hrunið. Þetta gefur færi betri rekstri ríkisins.
- Ferðaþjónusta hefur gjörbreytt stöðu
efnahagsmála í landinu, og ekki geta stjórnmálamenn þakkað sér fyrir það. Eftir
að gengi krónunnar féll stjórnlaust þangað til ekkert annað en fjármagnshöft
gat bjargað almenningi frá efnahagslegum hörmungum, þá hefur Ísland orðið miklu
ódýrara fyrir ferðamenn mælt í erlendri mynt. Þá hafa íslensk fyrirtæki einnig sýnt klókindi og dug
við markaðssetningu og náð að opnu augu útlendinga í ferðahugleiðingum fyrir
þeim möguleika að koma til Íslands. Opinber stefna hefur stutt við starf
fyrirtækja, smárra og stórra, um allt land. Stefnuleysið í innviðauppbyggingu í
ferðaþjónustu, sem er á ábyrgð stjórnmálamanna, hefur hins vegar haft afar
skaðleg áhrif á atvinnugreinina að mati þeirra sem best til þekkja. Á þessu ári
gera spár ráð fyrir því að gjaldeyrisinnstreymi af ferðaþjónustu fari vel upp
fyrir 400 milljarða króna, sem gerir atvinnugreinina að langsamlega stærstu
gjaldeyrisskapandi grein þjóðarinnar.
- Það væri fróðlegt að fá það fram frá
stjórnmálamönnum, hvað getur talist æskileg staða þegar kemur að gengi
krónunnar gagnvart okkar helstu viðskiptamyntum. Fyrirsjáanlegt er að vegna
hins mikla gjaldeyrisinnstreymis, þá ætti gengi krónunnar að styrkjast, nema að
það komi til viðskipti frá Seðlabanka Íslands. Þannig hefur raunin verið til
þessa, en opinbert er að seðlabankinn hefur haldið gengi krónunnar „æskilega“
veiku.
En hvar liggur hin fína lína fyrir efnahagslífið? Evran kostar nú 140 krónur. Má gera ráð fyrir að hún fari í 120 krónur? Það er vandi um slíkt að spá, en eins og fram hefur komið, þá hafa hagsmunaaðilar í atvinnulífinu komið þeim skilaboðum áleiðis að Seðlabanki Íslands verði að passa að láta krónuna ekki styrkjast of mikið. Þegar losað verður um höftin þá mun Seðlabankinn vera með virka stýringu, eins og fram hefur komið hjá Má Guðmundssyni seðlabankastjóra.
Manni hryllir við svona málflutningi, satt best að segja. Þó stjórnmálamenn telji sig hafa gert margt gott, og það má til sanns vegar færa í mörgum meginatriðum sem tengjast endurreisn efnahagslífsins, þá er mikilvægt að einhver markaðsbúskapur fái að myndast í landinu þegar til lengdar er litið. Ef staðan verður þannig, að gjaldeyrisinnstreymi verður mikið meira en útstreymið þá ætti krónan að styrkjast verulega, með tilheyrandi hjöðnunaráhrifum á verðbólgu, og hugsanlega meiri kaupmætti almennings. Lærdómurinn af sögunni ætti síðan að vera sá hjá almenningi að stofna ekki til of mikilla skulda þegar vel árar, heldur leggja fyrir. Ofþenslan raungerist ekki nema að fólk hafi til þess að einbeittan vilja.
En þetta er nú hin fína lína sem íslenskur almenningur þarf að feta. Hún liggur um eins óstöðugt umhverfi og hugsast getur. Á meðan stjórnmálamenn lögbinda óstöðugleikann, niður í sértækar efnahagslegar aðgerðir og peningastefnuna, þá geta þeir hvorki ætlast til þess að stöðugleiki verði útkoma úr verkum þeirra, né reynt að halda því fram að persónulegt mikilvægi stjórnmálamanna sé mikilvægara kerfinu sjálfu.