Ég játa það hreinskilningslega – ég elska íslenskt lambakjöt. Eina dýraafurðin sem ég sé ástæðu til að dásama. En – lambakjöt er ekki það sama og lambakjöt. Það veit ég líka og er því mjög vandfýsin á bitana mina. Ég vil kjöt af vel þroskuðu, bústnu lambi sem sína stuttu ævi bjó við bestu hugsanlegu velferð (líka á meðan það var í móðurkviði), gekk á grösugum úthaga sumarlangt, var ekki sett á grænfóðurbeit eftir smölun að hausti og fékk ekki lyf að nauðsynjalausu. Ég vil gæðavöru með vottun upp á að hún standist allar mínar kröfur. Ekki mjög flókið – eða hvað? Jú, fyrir neytandann er þetta frekar snúið og flókið að finna.
Það eru nokkrir hugsanlegir valkostir. Ég gæti til að mynda keypt mér kjöt sem er framleitt undir hatti verkefnisins gæðastýring í sauðfjárrækt. Það ætti að tryggja að aðbúnaður og velferð í uppeldi skepnunnar hafi verið til fyrirmyndar, að beitilandið sem dýrið gekk á sumarlangt hafi verið í þokkalegu ástandi og að ég geti valið af hvaða landssvæði ég vil versla mína bita. Reyndin er önnur. Við slátrun í stóru sláturhúsunum hverfur rekjanleikinn sem er innbyggður í gæðastýringarkerfið eins og dögg fyrir sólu og ekki nokkur leið að vita hvaða vöru neytandinn fær í hendurnar. Þeir fjölmörgu gæða- og fituflokkar sem kjötið er flokkað í eftir við slátrun gufa sömuleiðis upp og það lendir allt í sama plastinu. Það eru líka áhöld um hvort allt sumarbeitilandið sem gæðastýringin stimplar ”í lagi” uppfylli mínar ströngu kröfur. Þessu til viðbótar – þegar í stórmarkaðinn er komið get ég ekki einu sinni valið um að kaupa kjöt með gæðastýringarstimpil umfram það sem hefur hann ekki.
Önnur leið væri að kaupa frá litlu sláturhúsi þar sem rekjanleikinn nær að minnsta kosti til framleiðslusvæðis. Slátrunar- og kjötvinnsluferlið í þannig vinnslu er að öllu leyti til mikillar fyrirmyndar og afurðin meðhöndluð með þeirri virðingu sem hún á skilið. Afurðirnar sem húsið selur eru mjög líklega framleiddar undir hatti gæðastýringarinnar en þar sem ég treysti því kerfi ekki fyllilega til að uppfylla mínar kröfur er þessi möguleiki líka úti að sinni.
Kaup án milliliða er önnur leið sem ég gæti farið. Þá er að minnsta kosti gulltryggt að ég veit hvaðan bitinn minn kemur og ég gæti hugsanlega valið hann á fæti. Annað er óvíst og ekkert formlegt ferli sem vottar að þessar afurðir séu á einhvern hátt betri að gæðum en aðrar. Nema ef ég kaupi beint frá býli sem selur lífrænt vottað lambakjöt.
Líklega er eina leiðin fyrir mig að kaupa lífrænt vottað kjöt. Þannig fæ ég að minnsta kosti örugglega allar mínar óskir hvað varðar dýravelferð, landnýtingu, lyfjanotkun og rekjanleika uppfylltar. Ég er líka tilbúin að greiða hærra verð fyrir það en fyrir kjötið sem liggur þrúgað af plasti í frystum stórmarkaðanna.
Málið er að ég veit ekki hvar ég finn þessa vöru? Hún er til, ég veit það. Getur verið að kjötið liggi bara einhversstaðar til hliðar í frystiklefum eina sláturhússins á landinu sem hefur leyfi til að slátra lífrænu framleiðslunni? Hvernig stendur eiginlega á því að við erum ekki að gera framleiðslu á lífrænu lambakjöti hærra undir höfði en hinni hefðbundu? Hvaða vægi hefur afurðin í nýju búvörusamningunum til að mynda? Það er sívaxandi markaður fyrir þessa vöru og einkennilegt í alla staði að lífrænu lambakjöti skuli ekki vera hampað af forsvarsmönnum sauðfjárræktarinnar og markaðssett sem gæðavara með raunverulegan gæðastimpil.