Því hefur verið haldið fram að orðstír Íslands hafi skaðast í kjölfar þess að upplýst var um eigur íslenskra stjórnmálamanna í hinum svokölluðu Panama skjölum og vegna viðbragða ráðamanna við þessum uppljóstrunum. Ein leið til að meta þennan skaða er að greina umfjöllun erlendra fjölmiðla um Ísland sem mælistiku um almenningsálit erlendis. Þessi greining nær til fjölmiðla í Þýskalandi og Austurríki yfir 12 mánaða tímabil frá 13. apríl 2015 til 17. apríl 2016. Greiningin leiðir í ljós að áhuginn á Íslandi stóreykst í kjölfar birtinga upplýsinga úr Panama skjölunum en umfjöllunin er neikvæðari en hún hefur verið áður.
Greiningin náði til þriggja dagblaða í Austurríki og sex í Þýskalandi og má segja að almennt sé lítið fjallað um Ísland í þýskumælandi fjölmiðlum. Þau blöð sem stuðst var við við greininguna birtu að meðaltali álíka margar greinar á viku þar sem Ísland bar á einn eða annan hátt á góma. Í Austurríki voru þetta sjö greinar á viku en í Þýskalandi tæplega 26. Það er hins vegar mikill munur á því hve viðamikil umfjöllunin er, allt frá því að minnst sé á landið einu orði og upp í greinar sem tileinkaðar eru Íslandi. Einnig er mismunandi hvaða mynd er dregin upp af landinu. Almennt má segja að umfjöllunin í þeim greinum sem fjalla sérstaklega um Ísland hafi verið jákvæð þar til í byrjun apríl síðastliðinn.
Vatnaskil 4. apríl 2016
Í greinum sem í grófum dráttum má tengja viðskiptum og stjórnmálum er umfjöllun um Ísland almennt jákvæð þar til fjórða apríl síðastliðinn. Þau málefni sem stóðu uppúr í umfjölluninni eru hversu friðsamlegt íslenskt samfélag er, framsækni í kynjajafnrétti, gott lífeyriskerfi, tæknivætt samfélag, og leiðir Íslands út úr kreppunni. Almennt séð er mjög lítil umfjöllun um Ísland og íslenskt samfélag í þessum málaflokki, en það litla sem birt er um landið er hins vegar jákvæð. Það er einna helst að lýst sé áhyggjum yfir mögulegum áhrifum gjaldeyrishafta á íslenskt hagkerfi og að veður eigi það til að vera afleitt.
Breyting verður á þessu eftir að fjölmiðlar
um allan heim hefja birtingu frétta byggðum á gögnum úr Panama skjölunum.
Töluverður matur er gerður úr tengslum þáverandi forsætisráðherra við
aflandsfélög og hann dreginn í dilk með einræðisherrum og öðrum vafasömum
einstaklingum. Óvissa um framtíð ríkisstjórnarinnar og atburðirnir 5. og 6.
apríl síðastliðinn, þegar ekki var vitað hver staða forsætisráðherra var, varð
einnig tilefni töluvert neikvæðrar umfjöllunar. Síðan að byrjað var að birta
fréttir um Panama skjölin hefur umfjöllun um Ísland í fréttum um viðskipti og
stjórnmál verið neikvæð. Hið jákvæða fyrir orðspor Íslands í þessu samhengi er
ef til vill hversu hratt áhuginn virðist vera að dala. Þó svo að umfjöllunin sé
áfram fremur neikvæð hefur greinum sem minnast á Ísland á neikvæðan hátt fækkað
til muna frá því sem mest var.
Íþróttafréttir fyrirferðamiklar
Það vekur athygli hversu mikla umfjöllun Ísland fær í tengslum við íþróttir í hinum þýskumælandi heimi. Þetta má rekja til góðs árangurs íslenskra íþróttamanna í Þýskalandi og miklum áhuga beggja vegna landamæranna á árangri íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á síðasta ári. Þessi umfjöllun er einnig almennt jákvæð og var á tímabili fjallað um “knattspyrnustórveldið Ísland” á meðan undankeppni fyrir Evrópumeistaramót í knattspyrnu stóð. Eftir að í ljós kom að Ísland myndi mæta Austurríki í úrslitakeppninni breyttist nokkuð tónninn í umfjöllun þarlendra fjölmiðla og varð hann öllu gagnrýnni, eins og von er á. Þó nokkuð er fjallað um Ísland í samhengi við handbolta í Þýskalandi, ekki síst vegna íslenskra þjálfara þýskra handboltaliða.
Lítil en jákvæð umfjöllun um ferðamál
Ferðamál fá mjög litla umfjöllun í þeim fjölmiðlum sem hafðir voru til hliðsjónar greiningunni. Á síðustu 12 mánuðum birtust 16 greinar í Austurrísku fjölmiðlunum þar sem fjallað er um Ísland sem ferðamannastað en 95 í þeim þýsku. Í þessum greinum er dregin upp mynd af Íslandi sem útivistarparadís fyrir fólk sem veigrar sér ekki við því að borða ís í rigningu. Eitthvað er fjallað um borgarlífið og sundlaugamenninguna, en jólasveinarnir fá að sjálfsögðu líka sitt pláss. Segja má að þessi umfjöllun sé undantekningarlaust jákvæð. Eitthvað var um að íslenskir aðilar áttu þátt í birtingu greina, til að mynda með því að bjóða fréttamönnum til Íslands til þess að fjalla um það.
Ef að dreifing fjölda greina er skoðuð innan flokka koma topparnir sem umfjöllun um knattspyrnu og Panama skjölin valda enn greinilegar í ljós. Þessi aukna umfjöllun er langt utan venjubundins fjölda greina í hvorum flokki fyrir sig. Það verður að teljast áhyggjuefni að neikvæða umfjöllunin í tengslum við stjórnmálaástand á Íslandi er mest áberandi í þessu samhengi.
Hvað tekur við?
Ef að vel er staðið að málum eru líkur á því að athygli þýskumælandi fjölmiðlar muni tiltölulega fljótt beinast frá málefnum tengdum Panama skjölunum á Íslandi. Miðað við hvernig umfjöllun um Ísland hefur verið háttað síðustu 12 mánuði má ætla að svo lengi sem ríkisstjórnin er tiltölulega stöðug og stjórnsýslan fyrirsjáanleg, auk þess að ekki komi til alvarlegra mótmæla almennings gegn ríkisstjórninni, muni aðrir atburðir verða ráðandi í umfjölluninni aftur.
Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við kreppunni hafa reglulega verið lofuð í þessum fjölmiðlum og meðal annars verið nefnd sem möguleg fyrirmynd fyrir önnur Evrópuríki. Það má því leiða að því líkur að losun fjármagnshafta muni ýta öðrum málum út af dagskrá þegar þar að kemur. Það verður hins vegar að reikna með því að neikvæð umfjöllun taki kipp í aðdraganda alþingiskosningar í haust og jafnvel í kringum komandi forsetakosningar. Í sumar verður þó að teljast líklegt að þátttaka Íslands á Evrópumótinu í knattspyrnu muni vera ráðandi.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.