Tilfinningin sem hellist yfir mann þegar stórkostlega hæfileikaríkir listamenn eins og Prince, sem lést í gær 57 ára að aldri, er best lýst sem tómlegri og þakklátri. Það er nú svo, þó persónuleg tengsl við stórstjöru eins og Prince séu engin hjá flestum, þá hefur tónlist hans haft mikil áhrif og verið hluti af lífi fólks í meira en þrjá áratugi. Ótrúlegt ævistarf hefur hreyft við fólki í langan, langan tíma, og áhrifin eru djúpstæð.
Svipaða sögu má segja um David Bowie, sem lést 10. janúar á þessu ári. Fallnir eru snillingar, sem voru einstakir.
Eitt af því sem líta má á sem jákvæðan boðskap þessara snillinga tónlistarinnar, er að fólk eigi að vera eins og það vill. Það hljóma sem einföld sannindi, en magnaður fjölbreytileiki tónlistarinnar hjá Prince, og Bowie einnig, hreyfði við fólki úr öllum stéttum, öllum aldri og í öllum heimshornum. Þeir sjálfir birtust líka með síbreytilegt útlit og lítríkir í meira lagi. Hræðslan við breytingar var engin, og sjálftraustið var ekki falskt. Þeir stjórnuðu ferðinni, og komu fram eins og þeir vildu og létu ekki undan þrýstingi um annað.
Prince spilaði í hálfleik í Super Bowl úrslitaleik NFL árið 2007. Leiðindaveður var á meðan leikurinn stóð yfir, rok og rigning. Skipuleggjendur voru uggandi og til greina kom að leysa úr hálfleiksatriðinu með öðrum hætti. Prince drap það allt í fæðingu, og sagðist vona að það rigndi meira.
Atriðið hans lifir í minningunni sem eitt það flottasta í sögu Super Bowl. Það var eins og hann hefði boðið náttúruöflunum að vera með í atriðinu. Stórkostlegur gítarsóló í Purple Rain gerði andrúmsloftið rafmagnað.