Hafnar eru óformlegar viðræður Íslands og Noregs með ESB um útfærslu á sameiginlegu markmiði um 40 prósent minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda til 2030 miðað við 1990. Ísland mun einnig hafa samráð við ESB og Noreg varðandi fullgildingu Parísarsamningsins svonefnda í ljósi þess að stefnt er að því að 30 Evrópuríki vinni að sameiginlegu markmiði innan hans.
Um þetta var tilkynnt í gær, eftir að Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði Parísarsamninginn um aðgerðir í loftslagsmálum fyrir Íslands hönd í New York í gær.
Í ávarpi í tilefni undirritunarinnar sagði Sigrún að Ísland ynni að því að framkvæma markmið samningsins, m.a. með aðgerðum á sviði samgangna, fiskveiða og landbúnaðar, auk kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu.
Fulltrúar yfir 160 ríkja skrifuðu undir samninginn við athöfn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í dag. Aldrei áður hafa jafn mörg ríki skrifað undir alþjóðasamning við slíka athöfn.
Samningurinn felur í sér mikil tímamót, og það er gott að íslensk stjórnvöld hafi tekið þetta verkefni alvarlega. Nú er að láta verkin tala og koma fram með metnaðarfull áform um hvernig verði mögulegt að ná þessum háleitu markmiðum.