Komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig

Auglýsing

Nýverið ákvað Kjarninn að taka stór viðtöl við þá fjóra forsetaframbjóðendur sem mælst hafa með mest fylgi samkvæmt könnunum. Það var mat ritstjórnar hans að þessir fjórir gætu átt raunhæfa möguleika á að ná umtalsverðu fylgi og því áttu skoðanir þeirra og hugmyndir um forsetaembættið mikið erindi við almenning í aðdraganda forsetakosninga. Stærð ritstjórnar okkar gefur því miður ekki færi á að ræða við fleiri. Þrír frambjóðendanna tóku boði Kjarnans um viðtöl og voru þau birt um Hvítasunnuhelgina. Einn þeirra, Davíð Oddsson, hafnaði viðtalsbón Kjarnans.

Áður en lengra er haldið skal því haldið til að haga að fólki sem er að bjóða sig fram í ákveðið embætti er að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvort það fari í viðtöl eða ekki, og hjá hverjum. En þær skýringar sem bárust voru þó þess eðlis að gera verður athugasemdir við þær. Í nýjasta tölublaði Stundarinnar er haft eftir fjölmiðlatengli Davíðs að hann hafi neitað viðtalinu við Kjarnann vegna þess að ritstjóri miðilsins, ég, hafi „myndað sér fyrirfram skoðun“. Davíð hafði raunar gefið sambærilega skýringu í samskiptum við blaðamann Kjarnans og vísað í umræðuþátt þar sem ég hafði verið fenginn til að ræða og greina komandi forsetakosningar.

Þar lét ég meðal annars í ljós þá skoðun mína að skortur á trausti á nánast allar stofnanir samfélagsins væri helsta mein þess í dag. Því væri meiri eftirspurn eftir forseta sem samstaða gæti náðst um, og sem flestir landsmenn gætu hið minnsta sætt sig við. Gömul stríðshross af vígvelli stjórnmálanna, eins og Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson, gætu aldrei orðið slíkir forsetar. Til þess væru mennirnir einfaldlega of umdeildir. Þeir yrðu alltaf forsetar þess hluta þjóðarinnar sem styður þá, en hinir yrðu alltaf ósáttir við setu þeirra á forsetastóli. Þar með væru þeir hluti af vandamálinu, ekki lausninni. Ég sótti meðal annars rökstuðning fyrir þessu í skoðanakannanir sem sýna þessar skiptu skoðanir á mönnunum tveimur mjög skýrlega.

Auglýsing

Að greina á milli skoðana og frétta  

Nú er það svo að það eru ekki nýmæli að stjórnendur fjölmiðla hafi skoðanir á því sem er að gerast í samfélaginu. Það er heldur ekki nýtt að þeir setji þær skoðanir fram í leiðaraskrifum eða ræði þær í umræðuþáttum. Raunar hafa skoðanaskrif og –framsetning verið órjúfanlegur þáttur af nútímafjölmiðlun alla tíð þeirra. Það hefur til að mynda ekki farið framhjá neinum að ritstjórar Morgunblaðsins, en annar þeirra er Davíð Oddsson, hafa ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum. Þær skoðanir eru settar fram í leiðurum, Reykjavíkurbréfum og öðrum nafnlausum dálkum í Morgunblaðinu.

Og það er hið besta mál að menn setji fram skoðanir sínar. Þær eru mikilvægt innlegg inn í lýðræðislega þjóðfélagsumræðu, sérstaklega þegar þær eru studdar staðreyndum. Því fleiri vitrænar skoðanir sem fram eru settar því frjórri verður umræðan. Skiptir þar engu hvort að þeir sem setji fram skoðanirnar heiti Þórður, Davíð eða eitthvað annað. Því á enginn, nokkru sinni, að vera hræddur við að segja sína skoðun.

Það verður hins vegar að greina á milli skoðana- og fréttaskrifa. Slíkur aðgreiningur er tekinn mjög alvarlega á Kjarnanum og ég veit að hann hefur líka verið tekinn mjög alvarlega hjá miðlum Árvakurs. Þannig var það að minnsta kosti þegar ég starfaði þar á árum áður. Hjá Morgunblaðinu og mbl.is er nefnilega nokkuð mikið um að þeir sem skrifa fréttir opinberi líka skoðanir sínar, m.a. í dálki á leiðaraopnu blaðsins. Slík skrif ein og sér gera þá blaðamenn sem skrifa þann dálk fjarri því vanhæfa til að skrifa fréttir eða ræða við fólk sem tekur þátt í stjórnmálum.

Það magn skoðana og meininga sem Davíð Oddsson hefur komið á framfæri frá því að hann settist í ritstjórastól fyrir sjö árum síðan er gríðarlegt. Þær hafa snúist um allt milli himins og jarðar og verið ansi vígalegar á köflum. Þar hefur verið veist að nafngreindum stjórnmálamönnum, embættismönnum, stofnunum, fyrirtækjum og ýmsum öðrum.

Til dæmis skrifaði Davíð Reykjavíkurbréf í Sunnudagsmoggann sem birtist 7. maí þar sem afar niðrandi var rætt um þá tvo menn sem mældust þá með mest fylgi til að gegna embætti forseta Íslands, Ólaf Ragnar og Guðna Th. Jóhannesson.  Hann sagði Guðna m.a. hafa „kokgleypt áróðurinn og skalf af hræðslu“ í sambandi við hið eilífa Icesave-mál, eitt hvimleiðasta pólitíska vopn samtímans. Þá gagnrýndi hann Ólaf Ragnar harðlega vegna aflandsfélagaeignar fjölskyldu eiginkonu hans og frammistöðu sitjandi forseta í viðtali við CNN, þar sem hann neitaði því að fjölskylda hans ætti aflandsfélög. Davíð gagnrýndi einnig ákvörðun Ólafs Ragnar að hætta við að hætta sem forseti. Sem Ólafur Ragnar hætti síðar við.

Daginn eftir að þetta Reykjavíkurbréf birtist tilkynnti Davíð að hann gæfi kost á sér í embætti forseta Íslands. Síðan þá hefur hann sagt að aðra frambjóðendur skorti reynslu og ákvörðunartökuhæfileika til að gegna embættinu. Frá því að Davíð bauð sig fram hafa líka birst nafnlaus leiðaraskrif í Morgunblaðinu þar sem augljóslega er verið að styðja við framboð hans og eiginleikum ritstjórans hampað, en aðrir frambjóðendur níddir.

Ef stuðst er við þann rökstuðning sem Davíð gaf fyrir því að koma ekki í viðtal við Kjarnann, að ritstjóri miðilsins hafi verið búinn að móta sér fyrirfram skoðun, þá ættu aðrir frambjóðendur til forseta Íslands ekki að fara í viðtöl við Morgunblaðið eða mbl.is. En það væri auðvitað fjarstæðukennt, enda eiga mætir blaðamenn miðlanna, sem segja fréttir og gæta að almannahagsmunum, ekki að líða fyrir skoðanaskrif ritstjóra sinna.

Allir gallar þekktir

Annað sem heldur illa vatni í röksemdarfærslu Davíðs fyrir að veita Kjarnanum ekki viðtal er að óeðlilegt væri ef Íslendingar væru ekki búnir að mynda sér fyrirfram skoðun á honum. Davíð hefur enda verið allt umlykjandi mestalla ævi flestra sem eru á lífi, og nær alla ævi þeirra sem eru undir fertugu. Frá 1982 hefur hann verið borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri og síðast ritstjóri stærsta áskriftardagblaðs landsins. Þegar Davíð tilkynnti framboð sitt í útvarpsþættinum Sprengisandi sagði hann: „Ég sjálfur er þannig að stór hluti þjóð­ar­innar þekkir mig mjög vel." Hann sagði þjóðina þekkja bæði kosti hans og galla. Ef hann væri fast­eign þá væri hægt að segja að í honum væri ekki að finna neina leynda galla. 

Það er því hluti af rökstuðningi Davíðs fyrir framboði sínu að fólk viti nákvæmlega að hverju það gangi hjá honum. Og sé þar af leiðandi búið að móta sér fyrirfram skoðun á honum.

Kjarninn rekur upplýsandi ritstjórnarstefnu. Hann tekur þátt í umræðunni og styður við fréttaflutning með vísun í staðreyndir. Í þeirri viðleitni sinni gerir hann algjöran greinarmun á skoðunum sem birtast í miðlinum annars vegar og fréttaskrifum hans hins vegar. Á sama hátt og aðrir miðlar, hérlendis sem erlendis, sem birta bæði skoðanir og stunda fréttaflutning.

Það er því ómaklegt, og gengur nærri því að vera óheiðarlegt, að heimfæra skoðanir ritstjóra á heilan fréttamiðil. Sérstaklega þar sem Davíð gerir kröfu um að skoðanir hans verði ekki heimfærðar á þá fréttamiðla sem hann stýrir né fólkið sem starfar á þeim og samþykkir ekki að þær eigi að standa þeim fyrir þrifum við fréttavinnslu. Ef viðkomandi getur ekki beitt sömu viðmiðum á sjálfan sig og hann setur öðrum þá á hann ekki að beita þeim yfirhöfuð. Gullna reglan um að koma fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig á hér vel við.

Að því sögðu þá ítreka ég að forsetaframbjóðandanum Davíð Oddssyni stendur að sjálfsögðu enn til boða að koma í viðtal hjá Kjarnanum, snúist honum hugur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var bólusett í Laugardalshöllinni í gær. Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og verk Libiu og Ólafs áður en það var tekið niður af gafli Hafnarborgar.
Bæjarstjóri hafnar því að hafa gerst sek um ritskoðun þegar listaverk var fjarlægt
Fulltrúar minnihlutans í Hafnarfirðii segja fjarlægingu listaverks Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar af gafli Hafnarborgar síðastliðinn sunnudag „alvarlega aðför að tjáningarfrelsi“ og vilja að bæjaryfirvöld biðji tvíeykið afsökunar.
Kjarninn 7. maí 2021
Svæðið fyrir og eftir að Rio Tinto hafði farið yfir það með stórvirkum vinnuvélum.
Hluthafar Rio Tinto hafna starfskjarastefnu sem ofurlaun forstjórans fyrrverandi byggðu á
Fyrstu viðbrögð Rio Tinto og forstjóra þess, þegar upp komst að fyrirtækið hefði eyðilagt 46 þúsund ára gamla steinhella, voru að segjast ekki hafa vitað að þeir væru heilagir í hugum frumbyggjanna. Þessar afsakanir voru hluthöfum ekki að skapi.
Kjarninn 6. maí 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra.
Telur ásakanir um meint brot Samherja ekki hafa skaðað orðspor íslenskra fyrirtækja
Fjármála- og efnahagsráðherra segist aldrei hafa fengið símtal, ábendingu eða umkvörtun frá nokkrum einasta aðila sem heldur því fram að ásakanir um lögbrot Samherja séu að valda einhverjum verulegum vandræðum fyrir íslenskan útflutning.
Kjarninn 6. maí 2021
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Landsbankinn hagnaðist um 7,6 milljarða króna á þremur mánuðum
Hlutdeild Landsbanka Íslands á íbúðalánamarkaði hefur stóraukist milli ára og er nú 26,8 prósent. Hún hefur aldrei verið hærri. Eigið fé bankans er nú 261,4 milljarðar króna.
Kjarninn 6. maí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari
None