Árangur landsliðsins á EM í Frakklandi hefur vakið heimsathygli, sem von er. Á ESPN stöðinni í Bandaríkjunum, þar sem Michael Ballack, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Þýskalands var meðal annars að lýsa leiknum, var því haldið fram að þetta væri hreint út sagt með ólíkindum, að Ísland væri að ná þessum árangri. „Og hvaðan kemur allt þetta fólk?“ spurði sjónvarpsmaðurinn. Hann sagði 57 borgir í Bandaríkjunum vera með fleiri íbúa en Ísland, svo þetta væri eiginlega mikil ráðgáta hvernig Ísland gæti komið með svo gott landslið á EM. Reglulega var síðan sýnt frá fagnaðarlátum í Reykjavík, þar sem fjölmenni fagnaði glæstum sigri.
Ballack sagði íslenska liðið sterkt, og gaf lítið fyrir raddir um að það hefði legið í vörn og beitt skyndisóknum á mótinu. Tók hann dæmi af frábærum liðum sem hefðu útfært varnarleik sinn með þessum hætti, eins og Atletico Madrid, en enginn efaðist samt um gæðin. Hann sagði Ísland til alls líklegt, og England ætti fyrir höndum erfiðan leik. Sagði hann Ísland vel geta farið áfram, þó vafalítið verði leikurinn erfiður.
Þetta segir fólki kannski það, að það er ástæðulaust að halda að leikurinn við England verði Íslandi of erfiður, eða að sigur sé ómögulegur. Leikmenn liðsins hafa sýnt mikla samstöðu og baráttu, og einnig frábær tilþrif. Það var til dæmis magnað að sjá Birki Bjarnason á lokamínútum leiksins í gær taka 70 metra sprett upp völlinn, og vera mættan inn í teig, þegar Arnór Ingvi Traustason skoraði sigurmarkið gegn Austurríki. Viljinn virðist reka Birki upp ókleyfa múra, svo mikill dugnaður einkennir hans leik.
Leyfum okkur aðeins að láta okkur dreyma. Stuðullinn á sigur Íslands á EM, á Betsson vefnum, var 1 á móti 125 í gær.