Nú kvarta ýmsir yfir þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á niðurstöðu Brexit-kosninganna, og furða sig yfir því hversu litla þolinmæði gagnrýnendurnir hafa fyrir lýðræðinu. Aðrir spyrja forviða af hverju gagnrýnendurnir einbeitti sér ekki frekar að því að gagnrýna Evrópusambandið, sem augljóslega bregðist við einhliða ákvörðun Breta af hefndarhug, með því að hvetja landið til að láta verða af lýðræðislega tekinni ákvörðun sinni sem fyrst.
Þetta eru hefðbundin íslensk hentugleikastjórnmál. Í fyrsta lagi þá er gagnrýnin á Brexit-atkvæðagreiðsluna hérlendis, og raunar víðast hvar í heiminum, ekki á þann veg að hundsa eigi niðurstöðu hennar. Þvert á móti beinist hún að því að þeir sem stóðu fremst í baráttunni fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu lugu og skrumuðu í aðdraganda kosninganna til að tryggja þá niðurstöðu sem varð.
Þeir lofuðu því að 350 milljónir punda á viku myndu renna í heilbrigðiskerfið ef farið yrði út. Í framboðsræðu Michael Gove, sem nú er á hraðri leið með að tapa formannsslag í Íhaldsflokknum, nýverið var sú tala komin niður í 100 milljónir punda árið 2020.
Í öðru lagi lofuðu þeir að Bretland myndi ná yfirráðum á ný yfir landamærum sínum og stýra flæði innflytjenda. Þetta var auðvitað innantómt loforð og ef marka má orð Boris Johnson, í pistli sem hann skrifaði nokkrum dögum eftir kosningarnar, þá munu Bretar áfram geta unnið, búið, ferðast og eignast hluti á innri markaði Evrópusambandsins þótt að Bretland yfirgefi sambandið. Ef þessi fullyrðing Boris á að ganga eftir þarf Bretland að halda sínum landamærum jafn opnum fyrir öllum innflytjendum frá Evrópu.
Í þriðja lagi lofuðu þeir að efnahagurinn myndi ekki verða fyrir neinum áhrifum og að allt yrði áfram í efnahagslegum blóma. Sú fullyrðing hljómar reyndar einkennilega í dag þegar pundið er í frjálsu falli (það hefur t.d. misst fjórðung af verðgildi sínu gagnvart íslenskri krónu á einu ári), kaupmáttur Breta utan pundsins dregist saman um sama hlutfall, fjárfestar eru þegar farnir að draga úr fyrirhuguðum fjárfestingum og fasteignasjóðir neita að greiða út fjárfestum sínum. Seðlabanki Bretlands hélt blaðamannafund í gær sem hafði í raun einn tilgang, að koma því skýrt á framfæri að Brexit væri að hafa alvarlegar efnahagslegar afleiðingar.
En lykilatriðið er að allar fullyrðingar þeirra sem fóru fyrir Brexit byggðu á lofti og lygum. Það var engin áætlun til staðar til að fylgja málinu eftir og allir sem börðust harðast fyrir niðurstöðunni hafa flúið af vettvangi glæpsins.
En Bretar kusu með þeim hætti sem þeir gerðu og þá niðurstöðu ber að sjálfsögðu að virða.
Kostir og gallar
Evrópusambandið hefur sannarlega galla og það þarf að breytast. En sambandið hefur líka stuðlað að áður óþekktum friði meðal aðildarríkja sinna frá því að það var stofnað með því að tengja efnahagslega hagsmuni þeirra mjög sterkt saman.
Það hefur fært íbúum álfunnar fordæmalausa efnahagshagsæld, neytendavernd og samkeppnisrétt. Innleiðing fjórfrelsisins - frelsi fólks, fjármagns, vöru og þjónustu til að flæða um álfuna - hefur haft meiri áhrif á framþróun alþjóðavæðingu en líklega nokkur önnur ákvörðun sem tekin hefur verið.
Sameiginlegur gjaldmiðill fyrir allan innri markaðinn hefur vissulega haft vankanta, sem hafa sérstaklega orðið sýnilegir vegna þess að Evrópusambandið kaus að hleypa ríkjum inn í myntbandalagið sem áttu alls ekkert erindi þangað inn vegna þess að þau uppfylltu ekki fyrirliggjandi skilyrði.
En sameiginlegur gjaldmiðill hefur líka kosti, dregur úr sveiflum þar sem slíkar eru tíðar og auðveldar öll viðskipti milli landanna sem hann hafa. Fólk getur síðan haft skoðanir á því hvort að ofangreint sé eitthvað sem það finnst skipta máli. Og vonandi virt þegar aðrir eru þeim ósammála.
Flugvöllurinn sem kosinn var burt
Það er alrangt að gagnrýnendur Brexit séu að fetta fingur út í að ákvörðuninni verði fylgt eftir. Hún liggur fyrir og á endanum mun ný ríkisstjórn í Bretlandi finna út úr því hver næstu skref verða.
Þeir sem tala mest um óþol gagnrýnenda Brexit gagnvart lýðræðinu mættu hins vegar líta fast í eigin barm. Brexit-atkvæðagreiðslan var nefnilega ráðgefandi atkvæðagreiðsla. Það þarf ekki að fylgja henni eftir, en ómögulegt þykir annað en að gera það.
Reynsla íslenskra stjórnmálamanna við að fylgja eftir niðurstöðu slíkra, sé niðurstaðan ekki í takti við skoðun ráðamanna á hverjum tíma, hefur nefnilega ekki verið neitt stórkostleg.
Árið 2001 var kosið um hvort flugvöllurinn ætti að vera í Vatnsmýrinni eftir árið 2016.
Alls vildu 50,6 prósent þeirra sem tóku afstöðu að hann myndi fara en 49.4 prósent að hann yrði áfram. Kjörsókn var 37,1 prósent og niðurstaða ráðgefandi atkvæðagreiðslunnar því ekki bindandi, en borgarstjórn hafði sett skilyrði um þátttöku að minnsta kosti helmings kosningabærra manna til að svo yrði. Það breytir því þó ekki að fyrir að skoðun þeirra sem tóku málið það alvarlega að þeir mættu á kjörstað var komið á framfæri. Lýðræðisleg niðurstaða lá fyrir.
Hún hefur verið höfð að engu síðan þá og í dag, þegar árið sem flugvöllurinn átti að fara er runnið upp, er ljóst að hann verður í Vatnsmýrinni til ársins 2022 hið minnsta. Þeir sem hafa barist hatrammast á móti því að innanlandsflug hverfi úr Vatnsmýrinni svo hægt verði að nýta landssvæðið undir byggð, eru í mörgum tilfellum hinir sömu og láta hæst í íslensku Brexit-umræðunni.
Engin ný stjórnarskrá
Önnur ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla sem sami hópur er mjög áfram um að hunsa að verði framfylgt er þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöður stjórnlagaráðs, sem fór fram 20. október 2012. Þar var kosið um tillögur ráðsins að nýrri stjórnarskrá Íslands og nokkur önnur stór málefni sem tengjast stjórnarskránni. Endurskoðun stjórnarskrárinnar hafði þá staðið yfir frá árinu 2010.
Alls tóku 49 prósent kosningabærra þátt í atkvæðagreiðslunni og vildu 64,2 prósent þeirra að tillögur stjórnlagaráðs yrði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Einungis 31,7 prósent var því andsnúinn. Þar var auk þess gífurlegar mikill meirihluti fyrir því að ákvæði yrði í nýrri stjórnarskrá þar sem náttúruauðlindir yrðu lýstar þjóðareign (74 prósent), að ákvæði yrði um þjóðkirkju (51,1 prósent), að persónukjör verði heimilað (68,5 prósent), að atkvæði alls staðar á landinu eigi að vega jafnt (58,2 prósent) og að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál (63,4 prósent).
Líkt og allir vita hefur ekkert verið gert með þessa niðurstöðu. Þar ræður mestu afstaða sitjandi stjórnarflokka, sem eru ósammála mörgum þeim breytingum sem þegar liggur fyrir lýðræðisleg niðurstaða um.
Pólitískur ómöguleiki trompar loforð
Þá er ótalin atkvæðagreiðslan sem aldrei fór fram, um áframhaldandi viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Þegar ríkisstjorn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var kynnt vorið 2013 sagði þá nýr forsætisráðherra: „Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu,“ og átti þar við um áframhaldandi viðræður.
Í pistli sem Sigmundur Davíð skrifaði 18. ágúst 2011, og birtist á heimasíðu hans, segir meðal annars að „þegar málin hafa skýrst og við vitum hvort eða hvernig ESB lifir af er rétt að þjóðin taki afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort taka skuli viðræður upp að nýju. [...]Sú íhaldsemi að stjórnmálamenn taki einir ákvarðanir var sem betur fer brotin þegar þjóðin hafnaði Icesave samningum í trássi við vilja þeirra flokka sem nú vilja ná stöðugleika með aðild að efnahagslegum rústum ESB. Við fetum nú í átt til frjálslyndari stjórnhátta og ESB umsóknin er tilvalið prófmál“.
Skömmu eftir að þessi pistill birtist lögðu nokkrir þingmenn núverandi stjórnarflokka fram þingsályktunartillögu um að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka. Í henni segir að „þjóðaratkvæðagreiðsla er viðurkennd aðferð til að leiða fram þjóðarvilja í mikilvægum málefnum. Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi áfram viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins er brýnt hagsmunamál allrar þjóðarinnar. Allir stjórnmálaflokkar tala fyrir auknu lýðræði og beinni aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatöku, sér í lagi þegar um stór deilumál er um að ræða. Nú reynir á að sýna þann vilja í verki“.
Ekki var staðan mikið skárri Sjálfstæðisflokksmegin. Fyrir síðustu kosningar kom fram í kosningaáróðri flokksins að kosið yrði um viðræðurnar. Þar lofuðu fjórir ráðherrar flokksins, þar á meðal formaður Sjálfstæðisflokksins, því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um áframhald viðræðna.
Þegar þessir flokkar voru komnir í ríkisstjórn var það hins vegar orðinn „pólitískur ómöguleiki“ að kjósa um aðildarviðræðurnar vegna þess að þeir væru andsnúnir þeim. Þess í stað var þeim hætt án þess að umsóknin væri dregin til baka, með afar vandræðalegum bréfasendingum, og án aðkomu þjóðarinnar.
Menn ættu því að fara varlega þegar þeir ásaka aðra í umræðunni um að virða ekki lýðræðið. Vanvirðing gagnvart niðurstöðu kosninga um veru flugvallar í Vatnsmýrinni, um nýja stjórnarskrá og hin skyndilegi pólitíski ómöguleiki sem leiddi til svika á loforðum um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu sýna að þeir sem láta hæst í þessum efnum hika ekki við að sniðganga lýðræðið þegar þeim hentar.