Mjólkursamsalan var í gær sektuð um 480 milljónir króna fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína til að kafsigla samkeppnisaðila.
Fyrir þá sem ekki átta sig almennilega á því hvernig íslenskur mjólkuriðnaður virkar þá er rétt að fara aðeins yfir það. Mjólkursamsalan er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins hérlendis. Eigendur eru Auðhumla, samvinnufélags í eigu nokkur hundruð mjólkurframleiðenda, og Kaupfélag Skagfirðinga (KS), einkafyrirtækis sem með hjálp mikillar pólitískrar fyrirgreiðslu er orðið að risa í íslenskum sjávar- og landbúnaði og hefur áhrif á samfélagsgerð okkar langt umfram það sem eðlilegt getur talist.
Hlutverk Mjólkursamsölunnar er að taka við mjólk frá mjólkurframleiðendum og búa til vöru úr henni. Auk þess selur hún litlum einkafyrirtækjum, á borð við Kú eða Örnu, hrámjólk svo þau geti framleitt mjólkurvörur. Mjólkursamsalan er því eini heildsali hráefnisins sem þarf til að búa til mjólkurvörur á Íslandi, og langstærsti framleiðandi slíkra líka. Nú hefur verið staðfest, tvisvar, að Mjólkursamsalan hefur nýtt sér þessa stöðu til að fremja alvarleg lögbrot.
Neytendur eiga að borga fyrir brotin
Brot fyrirtækisins, sem Samkeppniseftirlitið hefur nú sektað það fyrir, fólust í því að selja hrámjólk sem það fær frá bændum í krafti lögbundinnar einokunar til samkeppnisaðila á uppsprengdu verði, en selja hana til eigin framleiðsludeildar og KS undir kostnaðarverði. Samkvæmt Samkeppniseftirlitinu varð þetta til þess að skaða hagsmuni neytenda og bænda. Þá er auðvitað ótalinn skaði þeirra sem hafa reynt að fara í samkeppni við Mjólkursamsöluna, m.a. með því að stuðla að nýsköpun í mjólkurvöruframleiðslu. Samandregið hefur þetta fyrirtæki, varið af búvörusamningum sem stjórnmálamenn gera, valdið gríðarlegum samfélagslegum skaða.
Fyrstu viðbrögð Ara Edwald, forstjóra Mjólkursamsölunnar, við niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins voru þau að það væri lítilmannlegt af því að hafa ekki axlað ábyrgð á að hafa ekki horft til samstarfs í mjólkuriðnaði í rannsókn sinni og gagnrýndi síðan eftirlitið fyrir að tilkynna um sektina á meðan að allir væru í fríi. Önnur viðbrögð hans voru þau að segja að kostnaðurinn við sektina muni óumflýjanlega lenda á neytendum. Mjólkursamsalan, fyrirtæki sem veltir 26,7 milljörðum króna og er með nær algjöra einokun á íslenska markaðnum, ætlar að nýta sér þá einokunarstöðu til að láta neytendur borga fyrir ákvarðanir stjórnenda sinna sem reyndust lögbrot.
Borgum níu milljörðum króna of mikið fyrir mjólk
Þetta eru köld skilaboð til neytenda sem þegar borga allt, allt, allt of mikið fyrir mjólkurvörur.
Fyrir ári síðan skilaði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu um mjólkurvöruframleiðslu á Íslandi. Þar kom fram að neytendur á Íslandi borga rúmlega níu milljörðum krónum meira á ári fyrir mjólkurvörurnar okkar en við þurfum að gera. Í stað þess að borga 6,5 milljarða króna fyrir innflutta mjólk, að teknu tilliti til flutningsgjalda, þá borgum við 15,5 milljarða króna á ári fyrir íslenska mjólk. Átta milljarðar króna af þessari viðbótargreiðslu eru tilkomnir vegna þess að íslenska mjólkin er einfaldlega miklu dýrari í framleiðslu í því kerfi sem við erum með en í þeim löndum sem við gætum flutt hana inn frá. Auk þess framleiðir mjólkurframleiðslukerfi Íslands meiri mjólk fyrir innanlandsmarkað en við þurfum. Offramleiðsla á niðurgreiddri mjólkinni kostar neytendur og ríkið því milljarð króna til viðbótar á ári.
Skýrsluhöfundar lögðu til að tafarlaust yrði farið í að lækka suma tolla og afleggja aðra til að gera öðrum mjólkurframleiðsluríkjum kleift að flytja hingað mjólkurvörur, svo hið niðurlægjandi og óþolandi okur á neytendum hætti.
Gotti og Skólaostur
Mjólkursamsalan, og stjórnmálamennirnir sem tryggja tilveru hennar, hafa rökstutt tilverurétt kerfisins sem er við lýði með því að halda á lofti þeirri staðhæfingu að það sé í raun til góðs fyrir neytendur. Vörurnar sem það velji að framleiða séu svo hollar og góðar, og í svo góðum takti við þarfir íslenskra neytenda, að einokun fyrirtækisins auki lífsgæði Íslendinga margfalt. Fyrir það sé alveg eðlilegt að hver einasti Íslendingur greiði, í gegnum ríkisstyrkina sem við dælum í þetta kerfi, 27 þúsund krónur á ári svo ostaframboðið okkar geti takmarkast að mestu við Gotta og Skólaost.
Auk þess er sú fullyrðing að íslenska mjólkurframleiðslan sé meinholl í besta falli hálfsannleikur, og í mörgum tilfellum haugalygi.
Mjólkursamsalan, stærsti matvælaframleiðandi landsins, hefur þvert á móti búið til og markaðssett fullt af vörum sem eru fullar af sykri. Sumar þeirra eru sérstaklega markaðssettar með börn í huga. Fyrir rúmu ári greindi Kastljósið frá því að innihaldsmerkingar á mörgum vörum Mjólkursamsölunnar væru óskýrar og villandi fyrir neytendur.
Fyrir þá sem hafa verslað mjólkurvörur í öðrum löndum þá stenst þessi fullyrðing um yfirburðagæði MS-varanna enga skoðun. Hún er ekkert annað en hluti af áróðri sem að íslenskum neytendum hefur verið haldið áratugum saman í þeim tilgangi að viðhalda kerfi sem gagnast einungis milliliðnum (Mjólkursamsölunni) og einkafyrirtækinu KS. Á meðan að við gleypum við þessu þá sitjum við uppi með í besta falli miðlungsmjólkurvörur, valdar og sykurblandaðar af starfsmönnum Mjólkursamsölunnar.
Bætt í steypuna
Í stað þess að taka tillit til þeirra ábendinga sem Hagfræðistofnun kom með þá ákváðu Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi landbúnaðarráðherra og núverandi forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að skrifa undir nýja búvörusamninga til tíu ára. Samkvæmt þeim verða greiðslur ríkisins 13,8 milljarðar króna árið 2017 en enda í 12,7 milljörðum króna árið 2026 við lok samnings. Þetta gera um 132 milljarða alls á samningstímanum. Í stað þess að taka á vandamálinu sem þetta galna kerfi er, þá á bara að henda enn meiri peningum í það.
Nær allir, utan þeirra sem hafa beinan fjárhagslegan ávinning af samningnum, hafa enda gagnrýnt hann harðlega.
Verður að verða kosningamál
Það er ekkert sem skiptir íslenska neytendur jafn miklu máli og að undirritaðir búvörusamningar komist ekki til framkvæmda og það landbúnaðarkerfi sem er við lýði verði aflagt. Það þarf að lækka suma tolla og afnema aðra algjörlega til að gera öðrum mjólkurframleiðsluríkjum kleift að flytja hingað mjólkurvörur. Til að takast á við það áfall sem þau landssvæði sem hafa mesta atvinnu af þessum ríkisniðurgreidda iðnaði væri hægt að veita háa byggðarþróunarstyrki, að minnsta kosti til skamms tíma, til að hjálpa við þróun nýrra atvinnuvega. Atvinnuvega sem eiga vaxtatækifæri og krefjast þess ekki að hver einasti Íslendingur borgi 27 þúsund krónur á ári með honum út í eilífðina.
Þetta risastóra neytendamál, sem snertir hvern einasta Íslending beint fjárhagslega og vegna óboðlegs vöruúrvals, þarf að verða kosningamál í haust svo kjósendur, neytendur, geti valið að kjósa burt þessa helstu óvini neytenda sem Mjólkursamsalan, nýgerðir búvörusamningar og úr sér gengið landbúnaðarkerfið eru.